is / en / dk

20. Desember 2017

Kennarasamband Íslands styrkir Umhyggju – félag til stuðnings langveikum börnum um 350 þúsund krónur. Ákvörðun um styrkveitinguna var tekin á stjórnarfundi KÍ föstudaginn 15. desember síðastliðinn. 

Ragna Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Umhyggju, veitti styrknum viðtöku í Kennarahúsinu í morgun. Þórður Hjaltested, formaður KÍ, afhenti styrkinn fyrir hönd stjórnar KÍ. 

Ragna sagði styrkinn myndu koma sér vel og féð yrði notað til að bæta aðstöðu í tveimur sumarhúsum félagsins sem ætluð eru börnum með hreyfihömlum. 

Umhyggja vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Í félaginu starfa foreldrar langveikra barna, fagfólk innan heilbrigðiskerfisins og annað áhugafólk um málefnið. 

Kennarasambandið hefur ekki sent út jólakort um langt árabil en þess í stað látið fé af hendi rakna til góðgerðarfélaga og samtaka sem vinna að velferð barna og ungmenna.

Fjöldi samtaka hefur notið góðs af jólakortastyrk KÍ og má þar nefna Rauða krossinn, Barnaspítala Hringsins, Þroskahjálp, Unglingadeild SÁÁ, Mæðrastyrksnefnd, Krabbameinsfélagið, Hjálparstarf kirkjunnar og Barnaheill.  

Tengt efni