is / en / dk

07. Desember 2017

Kynntu þér stefnu og áherslur þeirra sem gefa kost á sér í embætti varaformanns Kennarasambands Íslands.

Sex bjóða sig fram til varaformanns Kennarasambands Íslands en framboðsfrestur rann út á miðnætti þriðjudaginn 21. nóvember. Frambjóðendur eru þessir:

UPPFÆRT 7.12. 2017 KL. 9:00
Halldóra Guðmundsdóttir og Þórunn Sif Böðvarsdóttir hafa dregið framboð sín til baka. 

Frambjóðendur eru því Anna María Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Heimir Björnsson og Simon Cramer. 

 

Menntun: Ég er íslenskukennari í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Ég er með BA-próf í íslensku og diplóma í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands. Síðustu ár hef ég stundað nám til meistaraprófs í menntunarfræðum við menntavísindasvið HÍ. Í vetur er ég í námsleyfi sem ég nýti til að skrifa meistararitgerð um starfsþróun kennara.

Af hverju býð ég mig fram: Ég býð mig fram sem varaformaður Kennarasamband Íslands af mörgum ástæðum. Ég hef alla tíð haft brennandi áhuga á skólasamfélaginu og skólamálum almennt. Ég trúi því að grundvöllur velferðarsamfélags byggist á góðu skólakerfi þar sem allir nemendur fá menntun í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Grundvöllur slíks skólakerfis eru kennarar sem sinna starfi sínu að alúð og fagmennsku. Til þess að það sé mögulegt þurfa kennarar að búa við miklu betri starfsaðstæður en þeir gera í dag. Samfélagið þarf að sýna störfum þeirra sóma. Undanfarin ár hefur álag á kennara aukist mjög, verkefnum þeirra hefur fjölgað án þess að því hafi verið sinnt að veita þeim þann stuðning sem þarf. Það er mín bjargfasta trú að hagsmunabarátta stéttarinnar sé best unnin með faglegum málflutningi.

Baráttumál: Ég vil að Kennarasamband Íslands berjist fyrir því að starfsskilyrði kennara batni, skólar fái aukið fjármagn svo kennarar geti sinnt metnaðarfullu skólastarfi. Ég tel nauðsynlegt að auka hlut starfsþróunar í daglegu starfi kennarans. Þá tel ég nauðsynlegt að koma á stuðningi við nýliða í starfi og handleiðslu fyrir starfandi kennara. Auk þess vil ég gera hlut kvenna í stjórnum og ráðum Kennarasambands Íslands meiri og efla konur til þátttöku í starfi sambandsins.

Ég vil sjá öflugt Kennarasamband sem sinnir hagsmunabaráttu fyrir kennara og berst fyrir gæðum í skólastarfi þar sem kennarinn er í lykilhlutverki.
Fyrir þessu mun ég berjast nái ég kjöri sem varaformaður Kennarasambands Íslands. Ég treysti mér til að vinna kennurum á öllum skólastigum gagn og hef þekkingu og reynslu sem þarf til þess. Ég leita því eftir stuðningi allra kennara og heiti því að gera mitt allra besta.

Starfsferill: Kennsluferilinn hóf ég í Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 1992. Mín aðalkennslugrein er íslenska en auk þess kenndi ég lífsleikni um árabil. Meðfram kennslunni hef ég sinnt öðrum verkefnum í FB, má þar nefna verkefnastjórn nýrrar skólanámskrár. Ég hef einnig sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Félag framhaldsskólakennara og er nú formaður skólamálanefndar félagsins og starfa í skólamálaráði KÍ. Vegna þessa hef ég haldgóða reynslu og þekkingu á skólamálastarfinu í KÍ og á öðrum sviðum starfseminnar sem nýtist mér vel sem varaformaður KÍ.

Annað: Ég hef setið og sit í fjölda nefnda og ráða fyrir kennara. Nú sit ég í í stjórn Samstarfsnefndar um endurmenntun framhaldsskólakennara, gegni varaformennsku í stjórn Þróunarsjóðs námsgagna og sit í Samstarfsráði um starfsþróun kennara og skólastjórnenda sem starfar þvert á skólastig. Af öðrum nefndum og ráðum sem ég hef setið í má nefna nefnd um endurskoðun framhaldsskólalaga, nefnd um endurskoðun aðalnámskrár, stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands og einnig var ég fulltrúi í Samráðshópi Kennarasambands Íslands og Menntavísindasviðs um eflingu kennaranáms á öllum skólastigum.

Greinar um menntamál:
http://www.visir.is/g/2017170919849
http://ki.is/pistlar/3438-hver-er-tilgangur-menntunar
http://ki.is/pistlar/2337-ordagjalfur-um-samrad
http://www.visir.is/g/2013708139971
 

Nafn: Ásthildur Lóa Þórsdóttir.
Ég er grunnskólakennari og er fædd árið 1966. Ég er gift og á tvo uppkomna syni.

Af hverju býð ég mig fram?
Næstu ár munu skera úr um framtíð menntunar á Íslandi. KÍ á að vera í forystu og hafa frumkvæði við að móta menntastefnu landsins. Öll menntun í landinu er í höndum okkar. Við eru hvorki vopnlaus né vonlaus. Mig langar að taka þátt í að móta stefnuna til næstu ára með nýjum formanni KÍ og sjá kennarastarfið hafið til þeirrar virðingar sem það á skilið. Hagsmunir kennara og nemenda fara saman. Báðir hópar eiga mikið undir því að vel takist til.

Við eigum að efla samtakamáttinn, standa saman í baráttunni og breyta vörn í sókn. Það skiptir ekki máli hvort við erum leikskólakennarar, grunnskólakennarar, framhaldsskólakennarar eða tónlistarkennarar; við erum öll KENNARAR og við, ásamt stjórnendum, eigum alltaf að standa saman. Sé vegið að einum hópi er vegið að okkur öllum. Það þarf að endurvekja stolt kennarastéttarinnar. Við þurfum öll að bera höfuðið hátt þegar kemur að kjarasamningum og berjast fyrir bættum kjörum.

Hugarfar skiptir öllu máli og félag sem er brotið eða hefur þegar sætt sig við stöðu sína mun aldrei ná ásættanlegum árangri, hvað þá leiða nokkurn til sigurs. Ég berst til sigurs!

Mínar áherslur
Kennarasambandið á að hafa frumkvæði í mótun menntastefnu í landinu og KÍ á að verða miðstöð skólaþróunar. Forysta KÍ á að standa vörð um grunngildi skólastarfsins og vera í fararbroddi stefnumótunar menntunar á landinu í samráði við sína félagsmenn. Forysta KÍ á að veita öfluga mótspyrnu ef sótt er að skólakerfi og menntun.

Forysta KÍ á að standa vörð um fagmennsku og velferð kennara og rísa til varnar sé vegið að starfsheiðri þeirra á opinberum vettvangi. Til að viðhafa virkt lýðræði þarf að halda aðalfundi á hverju ári í stað fjórða hvert ár eins og nú er. Aðalfundir eiga að vera opnir öllum félagsmönnum sem hafi málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt.

Viðhorf forystu KÍ til trúnaðarmanna þarf að endurskoða en þeir eiga fyrst og fremst að vera fulltrúar og umbjóðendur sinna samstarfsmanna. Ef hagsmunir félagsmanna skarast við hagsmuni KÍ eiga trúnaðarmenn að gæta hagsmuna félagsmanna. Ég tel að auka þurfi aðstoð við trúnaðarmenn vegna samningstengdra ágreiningsmála í skólum.

Við gerð kjarasamninga þarf að auka gegnsæi verulega. Það á að vera sjálfsagt að félagsmenn séu upplýstir um gang kjaraviðræðna því þó trúnaður við viðsemjendur sé nauðsynlegur á einhverjum tímapunkti á hann sín takmörk. Samninganefndir vinna fyrir félagsmenn og hafa upplýsingaskyldu gagnvart þeim.

Gegnsæi skal vera í allri ákvarðanatöku. ALLIR samningar við vinnuveitendur skulu vera upp á borðum og kynntir félagsmönnum ÁÐUR en að undirskrift kemur. ALDREI skal látið undan hótunum eða skrifað undir vegna „óeðlilegrar“ pressu hagsmunaaðila, sbr. það sem gerðist með lífeyrismálin. Það er lágmark að KÍ/aðildarfélög verji ávallt áunnin réttindi félagsmanna við samningagerð. Í ljósi þessa tek ég heilshugar undir orð Ragnars Þórs nýkjörins formanns KÍ um að „í kjaramálum verði loforðareikningi stjórnvalda hjá kennurum lokað vegna vanefnda. Ekkert verði gefið eftir eða selt í krafti óuppfylltra loforða. Orðum fylgi aðgerðir.“

Stjórnsýsla kennarasambandsins þarf að vera gegnsæ, vönduð og heiðarleg og allar upplýsingar sem varða hagsmuni félagsmanna vera þeim opnar og aðgengilegar. Þannig skal opna bókhald og birta fundargerðir að svo miklu leyti sem mögulegt er vegna persónuverndarsjónarmiða.

Styrkja þarf kennara á landsbyggðinni varðandi það sem þeir þurfa að sækja til höfuðborgarsvæðisins, t.d. vegna endurmenntunar.

Ég mun auka aðgengi félagsmanna að stjórnarmönnum með því að halda opna fundi með félagsmönnum, jafnvel mánaðarlega.

Trúnaðar- og félagsstörf
Á árunum 2014 – 2017 var ég trúnaðarmaður kennara Árbæjarskóla og var ein af þeim sem leiddi „grasrótarbaráttu“ grunnskólakennara sl. haust ásamt Ragnari Þór og nokkrum öðrum. Ég hafði frumkvæði að og samdi fyrstu ályktunina sem send var frá kennurum vegna lífeyrisjóðsfrumvarpsins alræmda og í kjölfar ályktunar kennara Árbæjarskóla sendu tugir annarra skóla frá sér samsvarandi ályktanir. Á baráttufundi grunnskólakennara í Háskólabíói í nóvember í fyrra var ég ein af ræðumönnum fundarins.

Frá því í vor hef ég verið formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, sem er hugsjónastarf unnið í sjálfboðavinnu.. Barátta mín fyrir því að réttindi neytenda og lánþega væru virt leiddi til þess að ég var beðin um að gefa kost á mér í stjórn samtakanna.

Starfsferill
Frá því í haust hef ég kennt í Öldutúnskóla í Hafnarfirði en á árunum 2011 – 2017 kenndi ég í Árbæjarskóla í Reykjavík. Auk þess hef ég kennt í Flataskóla, hjá Barnaskóla Hjallastefnunnar, í Selásskóla og Ölduselsskóla. Meðal annarra starfa má nefna að ég útbjó kerfi sem heldur utan um auglýsingavörur hjá einni stærstu heildverslun landsins. Þá hef ég kennt fyrirtækjahópum og einstaklingum á tölvur ásamt því að semja kennslu- og handbækur. Auk þess hef ég nokkurra ára reynslu af sölu- og kynningarstörfum.

Menntun
Árið 1994 lauk ég B.ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands. Áður hafði ég auk þess lokið 100 einingum í ensku í HÍ. Veturinn 2015 – 2016 nam ég Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun HÍ og hef D level réttindi IPMA í verkefnastjórnun.

Rit, ræður og viðtöl
Skrif mín um málefni kennara hafa verið óformleg á undanförnum árum og aðallega verið á Facebook. Á undaförnum árum hef ég hins vegar skrifað margar greinar auk þess að halda ræður eða mæta í viðtöl vegna mála sem snerta baráttumál Hagsmunasamtaka heimilanna.

Upptaka af baráttufundi grunnskólakennara í Háskólabíó í nóv. 2016 (ÁLÞ hefst eftir 46 mín)

Grein/Ræða flutt á Austurvelli 1. maí 2017

Grein: Guðinn sem gerir ekki mistök

Grein: Ég ákæri landráðafólkið á Íslandi

Grein: Bankarnir í skjaldborginni með veiðileyfi á skuldara

 Viðtal: Harmageddon 9.október 2017 – Það þarf að afnema Árna Páls lögin

Viðtal: Reykjavík síðdegis 9. nóvember 2017 – Almenningur er ekki fóður fyrir bankana

Ræða flutt á sameiginlegum fundi VR, Verkalýðsfélags Akraness og HH (ÁLÞ hefst eftir1:36)

 

UPPFÆRT 7.12.2017 Halldóra – hefur dregið framboð sitt til baka. 

Vinnustaður: Leikskólinn Drafnarsteinn
Titill: Aðstoðarleikskólastjóri
Aldur: 44 ára
Menntun: B-Ed í leikskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands, er einnig búin með 30 einingar í mastersnámi í stjórnum menntastofnana.

Af hverju: Af því ég held að ég geti komið að gagni fyrir sambandið. Ég hef mikla reynslu af félagsstörfum bæði í FL og FSL, sem og hjá öðrum félögum, sem hafa snúist um skóla, menntun og samfélag. Ég hef mikla reynslu af því að vinna með ólíku fólki, sem ég tel mig frekar góða í, mér finnst það mjög gaman og áhugavert og held að það sé mjög mikilvægt fyrir þetta starf. Auk þess held ég að við séum á tímamótum mikilla breytinga, sem mér finnst spennandi.

Hvað ætla ég að gera: Mig langar að auka og efla samstarf félagana innan sambandsins. Ég hef áhuga á því að finna leiðir til að gera kennarastarfið ásóknarvert, þar þarf að vinna með ímynd og virðingu stéttarinnar. Mér finnst mikilvægt að stuðla að betri líðan kennara og nemenda í skólunum, þar þarf að vinna með starfsaðstæður, álag og aukin fjölbreytileika. Það þarf að skoða hvers vegna kennarar flykkjast í Hveragerði og ástæðu þess að börnin okkar eru mörg hver komin með kvíða og gera eitthvað í því. Ég vil leggja áherslu að að auka jafnrétti til náms á öllum skólastigum og um allt land, þar er ég að vísa í kennaraskort og mismunandi gæði skólanna, aðgengi barna í skólana, aðbúnað o.fl. - að skóli fyrir alla sé á borði eins og í orði. Það á að vera „jafn töff“ að verða pípari og lögfræðingur því menntun beggja skiptir máli. Ég mun hlusta, læra og vera dugleg að vinna í þeim málum sem starfið bíður upp á.

Ég bý í Vesturbæ Reykjarvíkur með börnunum mínum tveimur. Valþóri Reyni 17 ára, á öðru ári í Kvennaskólanum í Reykjavík og Rannveigu Ethel 11 ára, í 6. bekk í Melaskóla. Ég kýs bíllausan lífstíl, stunda heitt jóga og dansa Beyonce dansa í Kramhúsinu.

Starfsreynsla/ferill Ég hef starfað í sama leikskólanum, Dvergasteini, frá því ég útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999. Ég hef starfað á öllum deildum leikskólans, fyrst sem leikskólakennari á elstu deild, svo varð ég deildarstjóri yngstu barnanna og að lokum deildarstjóri á miðdeild þar til ég fór í ársleyfi. Í þessu leyfi leysti ég leikskólastjóra af í ungbarnaleikskólanum Ársól veturinn 2010-2011. 

Sumarið 2011 voru leikskólarnir Dvergasteinn og Drafnarborg sameinaðir og hef ég starfað síðan þá sem aðstoðarleikskólastjóri í 100% stjórnun, sameinaðs leikskóla, Drafnarsteins.

 • Verkefnisstjóri Comeniusarverkefnis í Dvergasteini 2008-2010
 • Verkefnisstjóri Grænfánaverkefnis Landverndar í Drafnarsteini.
 • Leiddi samstarfsvinnu um gerð eineltisáætlun fyrir leikskóla Vesturbæjar „Virðing í Vesturbæ“.
 • Ég útbjó „Hugmyndabanka Sleipnis“ fyrir kennara ásamt kollega mínum fyrir Vetrarævinýri Sleipnis, sem er saga eftir Gerði Kristnýju og var unnin fyrir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO að því markmiði að auka lestrargleði og lestur.
 • Sat í samstarfsnefnd í þrjú ár í Vesturgarði þvert á allar stofnanir í Vesturbæ um velferð og forvarnir fyrir börn og unglinga.
 • Sat sem áheyrnarfulltrúi í leikskólaráði Reykjavíkurborgar og svo seinna fyrir skóla- og frístundarsvið.
 • Var í vinnuhópi kennara um hvað mætti gera til að hvetja til iðnmenntunar á vegum Reykjavíkurborgar.
 • Var varamaður í skólamálaráði Menntaskólans í Kópavogi í fjögur ár.
 • Sem foreldri hef ég oft verið bekkjarfulltrúi og svo formaður foreldrafélags Hagaskóla í tvö ár.
 • Innan Kennarasambandsins felst reynsla mín í trúnaðarmannastörfum í mörg ár, sem formaður 1.deilar FL, í samninganefnd FL, varamaður í stjórn FSL og er nú í stjórn FSL og skólamálanefnd FSL.
 • Hef verið fengin af Rauða krossinum sem ráðgjafi vegna móttöku hælisleitenda í skólum og hef setið í nefnd (fyrir hönd KÍ) vegna réttinda barna í hælisleit til skólavistar.

Ég er formaður AFS á íslandi, sem eru alþjóðleg, sjálfstæð félagasamtök, sem vinna markvisst að því að tengja saman menningarheima. Samtökin bjóða upp á námstækifæri tengd menningarlæsi með það að markmiði að vinna að réttlátari og friðsamari heimi. Ég hef unnið sem sjálfboðaliði hjá AFS samtökunum meira og minna síðan ég var sjálf skiptinemi í Brasilíu árið 1991. Samtökin vinna með grunn-og framhaldsskólum landsins.
Þegar ég lauk grunnskóla var mér gefin bókargjöf fyrir félagsstörf, það greinilega hafði áhrif á mig.

 

Nafn: Heimir Björnsson

Núverandi vinnustaður: Flensborgarskólinn í Hafnarfirði

Titill: Heimspeki- og sögukennari.

Aldur: 33

Menntun: Stúdent af félagfræðisviði MA. BA í sagnfræði með almenna trúarbragðafræði sem aukafag frá HÍ. MA nám í hagnýtri siðfræði (ólokið).

Starfsreynsla / starfsferill: Kennari við Menntaskólann á Akureyri 2011-2013. Kennari við Flensborgarskólann í Hafnarfirði frá 2013. Knattspyrnuþjálfari yngri flokka hjá FH síðan 2014.

Af hverju býður þú þig fram? KÍ þarf að breytast vegna þess að kennarar þurfa breytingar. Við þurfum nýjar aðferðir og leggja þessa pólitík til hliðar.Ég vil leggja mitt af mörkum.

Á hvað munt þú leggja áherslu náir þú kjöri? Að breyta viðhorfum samfélagsins til kennara almennt. Kennarar eru á vondum launum og vinna við sífellt erfiðari aðstæður á öllum stigum. En verst finnst mér hve lítil virðing er borin fyrir störfum kennara og námi almennt á Íslandi í dag. Það skilar sér í verkföllum og vondum kjarasamningum, auknu álagi á kennara og minni starfsánægju. Í dag stöndum við frammi fyrir skorti á kennurum og áhugi á náminu er minnkandi. Þessu þarf að breyta og KÍ á að vera leiðandi í þeirri vinnu.

Annað? Ég er þriggja barna faðir í tveimur vinnum til þess að endar nái saman. Unnusta mín er grunnskólakennari og systur mínar leikskólakennarar. Ég tel mig því vera nokkuð læsan á ástandið á hverju skólastigi fyrir sig.
Það er eitthvað stórkostlega skrýtið hvernig komið er fyrir kennurum í dag. Ég hugsa að allir myndu samþykkja að menntun sé grundvöllur fyrir góðu samfélagi en sama fólk vill ekki borga nema brot af því sem þarf til að reka gott menntakerfi. Það er eins og labba inn á veitingstað og panta alla dýrustu réttina en vilja bara borga andvirði pylsu með öllu og kóks í gleri.

 

Nafn: Simon E. Cramer, framhaldsskólakennari í dönsku við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og trúnaðarmaður (Félag framhaldsskólakennara), 32 ára.

Menntun: BA-próf í dönsku frá Háskóla Íslands. Kennsluréttindi frá Háskóla Íslands. Er að leggja lokahönd á meistarapróf í mannauðsstjórnun og markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands. Ég fer oft á námskeið bæði hjá Endurmenntun HÍ og námskeið í boði HR og sem dæmi má nefna námskeið í almannatengslum og námskeið tengd kennarastarfinu.

Starfsferill: Ég hóf störf við Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 2010. Ég hef aldrei efast um að ég vildi verða kennari þar sem ég ólst upp í kennarafjölskyldu. Auk kennslunnar hef ég sinnt ýmsum verkefnum í skólanum. Ég er umsjónarkennari og hef tekið þátt í skipulagi þemadaga til margra ára. Einnig tók ég við sem trúnaðarmaður í ágúst í ár til þess að hafa áhrif í mínum skóla hvað varðar réttindarmál meðal annars. Þess utan hef ég sinnt umönnunarstarfi og einnig verið hópstjóri hjá Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili í Reykjavík. Ég hef tvisvar verið fulltrúi HÍ á erlendum vettvangi. Einnig hef ég setið í verkefnisstjórn frumkvöðlakeppninnar Gulleggið.

Simon í framboði – sterkari saman
Ég segi oft að ég sé lífsglaður Dani sem er fæddur og uppalinn í Danmörku. En ég er líka stoltur og sterkur Íslendingur frá árinu 2015 þegar ég öðlaðist íslenskan ríkisborgarrétt eftir að hafa búið hér síðan 2004.
Ég er eiginmaður Edvardas – oft á tíðum kallaður Eddi. Saman eigum við tvo Maine Coon ketti, Freyju og Sögu, sem gera lífið svo miklu skemmtilegra. Einnig er ég stoltur guðfaðir Eríku Maríu, dóttur vinahjóna okkar.

Traust og sameining
Að mínu mati er traust það hugtak sem áhersla hefur verið lögð á í þessari kosningabaráttu. Ég trúi því að hægt sé að endurheimta það traust sem aðildarfélögin hafa borið til stjórnar Kennarasambands Íslands. Orðspor og grundvöllur KÍ hefur veikst undanfarið. Fleiri framhaldsskólakennarar eru farnir að spyrja sjálfa sig hvort það sé þess virði að eiga samleið og samstarf með KÍ og þetta á ekki aðeins við um framhaldsskólakennara. Ég mun leggja áherslu á að búa til umræðugrundvöll til þess að varpa ljósi á trúnaðarbrest sem aðildarfélögin telja að hafi verið á milli sín og stjórnar KÍ. Slíkt samtal mun skapa grunn fyrir nýtt samstarf sem á að leiða til sameiningar stéttar okkar á ný. Með sameiningu sköpum við sterkari stétt sem lætur ekki bjóða sér hvað sem er af hendi hins opinbera. Mikilvægt er að efla samband aðildarfélaga og KÍ, sem byggir á trausti, heiðarleika og stöðugleika vegna þess að án þess er ekki sterkur grundvöllur fyrir starfsemi KÍ.

Við verðum að vinna saman
Ef við viljum styrkja KÍ, ef við viljum senda skýr skilaboð til samfélagsins og hins opinbera um að við munum ekki spila rússneska rúllettu, hvorki hvað varðar starf okkar né menntun barna og ungmenna, verðum við að vinna saman. Því vinna okkar og verkefni sem við sinnum eru afar mikilvæg fyrir alla í stétt okkar og landið allt. En til þess að kennarar geti sinnt starfi sínu þarf KÍ að gæta hagsmuna félagsmanna og tryggja stöðugleika. Varaformanni, sem er fulltrúi allra félagsmanna í KÍ, ber skylda til að leggja sitt af mörkum svo það sem að ofan er nefnt verði uppfyllt.

Varaformaður KÍ – saman erum við sterkari
Það er mikilvægt að varaformaður hlusti á raddir allra félagsmanna og fylgist með því sem er að gerast í skólasamfélaginu. Ég tel að það sé nauðsynlegt að koma öllum upplýsingum á framfæri svo aðilar okkar viti hvað er að gerast og á hvaða forsendum ákvarðanir eru teknar. Þannig skapast betri aðkoma fleiri aðila úr aðildarfélögum KÍ að málum stéttarinnar og þannig eflist samræðugrundvöllurinn. Að auki er mikilvægt að betrumbæta starfsumhverfi kennara sem ýtir undir vilja kennara til að halda í starf sitt. Í starfsumhverfi kennara ætti aukin vellíðan að vera í hámarki og atvinnutengdir sjúkdómar í lágmarki.

Ef leitað er eftir nýjum hugmyndum, frumkvæði og nýju hugarfari sem myndi leiða til nýrra lausna og breytinga þá á að velja frambjóðanda sem er athafnasamur, hefur orku og vilja til að berjast fyrir réttindum stéttarinnar svo eitthvað sé nefnt.

Slíkan frambjóðanda tel ég mig vera og þess vegna býð ég mig fram til varaformanns KÍ. Verði ég kosinn varaformaður KÍ mun ég styðja stefnumál nýkjörins formanns KÍ og mun ekki vera hræddur við að stíga út fyrir þægindarammann til þess að finna nýjar lausnir.

Ég veit að saman erum við sterkari og ég mun berjast fyrir alla félagsmenn – okkur öllum í hag.

Ég hvet ykkur til að hafa samband ef þið eruð með spurningar – þannig er hægt að hefja samtal okkur á milli. Hægt er að senda tölvupóst á mig á simonernestocramer@gmail.com.

Nánari upplýsingar:

 

 

UPPFÆRT 7.12.2017 Þórunn Sif hefur dregið framboð sitt til baka. 

Ég heiti Þórunn Sif Böðvarsdóttir og er grunnskólakennari. Ég kenni ensku og dönsku í 8.-10. bekk í Laugalækjarskóla, þetta er mitt þriðja kennsluár þar, en ég hef unnið við kennslu síðastliðin 14 ár.

Ég er fædd árið 1964 og hóf grunnskólagöngu mína í Svíþjóð þar sem ég bjó í rúm fjögur ár. Eftir grunnskóla hóf ég nám við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Þegar ég var 18 ára leitaði hugurinn á framandi slóðir og ég hélt til Arizona í Bandaríkjunum þar sem ég dvaldi í tæpt ár sem barnfóstra. Þegar ég kom aftur heim starfaði ég í leikskólanum Selásborg þangað til ég hóf nám í hárskurði við Iðnskólann í Reykjavík. Ég lauk meistaraprófi þaðan og starfaði við iðnina í mörg ár bæði hér heima og í Kaupmannahöfn.

Kennarastarfið hafði þó alltaf heillað mig og árið 2000 flutti ég heim til að hefja nám við Kennaraháskólann og útskrifaðist með 1. einkunn árið 2003. Ég hóf störf við Árbæjarskóla þar sem ég kenndi ensku og dönsku í 12 ár, ásamt því að vera fagstjóri erlendra mála, eða þar til ég byrjaði í Laugalækjarskóla. Samfara kennslunni vann ég í 12 ár hjá Námsmatsstofnun við yfirferð samræmdra prófa í ensku. Ég hef einnig kennt fullorðnum dönsku hjá Mími og Námsflokkum Hafnarfjarðar. Árið 2014 hóf ég svo meistaranám í kennslufræðum með áherslu á nám fullorðinna.

Á kennsluferli mínum hef ég ávallt verið í samstarfi við norræna samstarfsfélaga ásamt því að sækja fjölbreytt námskeið til Norðurlanda. Ég er “Sprogpilot” sem er samnorrænt verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem þýðir það að ég er talsmaður fyrir mikilvægi þess að kynna og læra Norðurlandamál.

Ég hef alltaf verið virk innan Kennarasambands Íslands og látið mig málefni kennara miklu varða, enda eitt af mikilvægari störfum til að undirbúa unga fólkið fyrir heiminn. Ég hef víðtæka reynslu af trúnaðarstörfum; ég var varaformaður Kennarafélags Reykjavík 2008-2011, varamaður í stjórn FG 2011-2014, ég sat í Skólamálanefnd KÍ árin 2006-2011, var trúnaðarmaður í Árbæjarskóla 2004-2011 og hef verið trúnaðarmaður í Laugalækjarskóla frá árinu 2015. Einnig hef ég verið fulltrúi kennara í Námsmatsnefnd og Öskudagsnefnd. Ég hef setið aðalfundi, ársfundi og þing á vegum KÍ og fannst það mjög áhugavekjandi. Um önnur stjórnarstörf má nefna að ég hef setið í stjórn SÁÁ frá árinu 2013 einnig var ég í stjórn Slysavarnadeildar kvenna 1989-1998.

Kennarasamband Íslands er samband kennara á öllum skólastigum – við erum í sama stéttarfélagi. Þrátt fyrir það er sorglega lítið samtal á milli skólastiga. Ég vil stuðla að því að við tökum virkari þátt í faglegri skólaumræðu á öllum stigum – bæði innan þeirra og þvert á þau. Það var til dæmis mikil óánægja inni í skólunum með framkvæmd nýs námsmats og kom fram fjöldi ályktana þar um en mér fannst skorta á að KÍ tæki skýra afstöðu. Ég hef einnig heyrt margar óánægjuraddir úr röðum framhaldsskólakennara varðandi nýja námsmatið, að það sé síst til að auðvelda þeim að meta inn í skólana. Leikskólakennarar eru að sligast undan álagi sem skapast hefur vegna manneklu. Álag á kennara hefur aukist til muna eins og sjá má á sjúkrasjóðnum okkar sem er við það að vera uppurinn. Mér finnst vanta faglegan stuðning við kennara á öllum skólastigum. Þar á KÍ að koma sterkt inn. Að kenna upprennandi kynslóðum er ábyrgðarhlutverk sem krefst sameiningar kennara, eldmóðs og fagmennsku.

Ég er sannfærð um að reynsla mín af trúnaðar- og nefndarstörfum og erlendu samstarfi muni nýtast vel í starfi varaformanns, enda er það eitt af hlutverkum hans. Ég er vel talandi og ritfær á ensku, dönsku og sænsku. Ég hef fengið að kynnast nýjum formanni, Ragnari Þór Péturssyni, í gegnum störf okkar í trúnaðarráði og er reiðubúin, við hans hlið, að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem bíða á nýjum vettvangi.

Að lokum:
Ég á eina uppkomna dóttur og tengdason, sem eru í verkfræðinámi í Horsens í Danmörku. Þeim fæddist yndislegur sonur á þessu ári og hafa ferðalög ömmunnar til Horsens aukist til muna af þeim völdum. Ég hef gaman af því að hitta fólk, taka þátt í félagsstörfum og kynnast nýjum hliðum mannlífsins. Í frítíma mínum hef ég gaman af því að ferðast, taka ljósmyndir, hlaupa og ganga á fjöll. Ég er heilsuhraust, reyklaus og reglusöm, ósérhlífin, fylgin mér og heiðarleg. Ég er reiðubúin að nota krafta mína til að vinna að því að gera veg allra kennara á Íslandi sem mestan. Við getum þetta saman.

Með vinsemd og virðingu býð ég mig fram til starfs varaformanns Kennarasambands Íslands.

Þórunn Sif Böðvarsdóttir

thorunn.sif.bodvarsdottir@rvkskolar.is

Framboðsfundur með öllum frambjóðendum verður haldinn í Gerðubergi mánudagaginn 4. desember næstkomandi klukkan 20:00. Fundarstjóri verður Þórhallur Gunnarsson fjölmiðlamaður. 

Nýr varaformaður KÍ tekur við embætti á 7. þingi Kennarasambands Íslands sem fram fer í apríl á næsta ári.  

 
 
 
 
 
 

Tengt efni