is / en / dk

30. Nóvember 2017

„Kynferðislegt öryggi fólks á vinnustað ætti að vera jafn sjálfsagt og hvert annað öryggi. Við viljum hvetja stjórnendur til að eiga samtal við kennara, starfsfólk og nemendur um kynferðislega áreitni og taka skýra afstöðu gegn slíkri hegðun. Ferli fyrir þolendur þarf að vera vel kynnt og tekið á slíkum brotum af ábyrgð og festu í hverjum skóla." 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi sem var sent skólastjórnendum á öllum skólastigum í morgun. Undir bréfið skrifa Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður fræðslunefndar KÍ og varaformaður KÍ, Ásdís Ingólfsdóttir, formaður vinnuumhverfisnefndar KÍ, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, forkona jafnréttisnefndar KÍ og varaforkona FF, og Ægir Karl Ægisson, formaður Siðaráðs KÍ. 

Markmið bréfsins er að vekja athygli skólastjórnenda í skólum landsins á þeim vanda sem blasir við. Bent er á könnun KÍ á umfangi kynferðislegrar áreitni í skólum en hún leiddi í ljós að vandinn er þar, eins og annars staðar. (sjá Könnun á einelti, áreitni og ofbeldi: Skýrslur aðildarfélaga frá því í maí 2017).

Þá segir í bréfinu að mikilvægt sé að stjórnendur horfist í augu við að nemendur verði líka fyrir kynferðislegri áreitni og vísað í því sambandi á íslenskar rannsóknir (Kynferðiseinelti í íslenskri skólamenningu eftir Rannveigu Á. Guðjónsdóttur og Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum í Læknablaðinu).

„Af þessum sökum er rík ástæða til að bregðast við með afgerandi hætti,“ segir í lok bréfsins

 

 

Tengt efni