is / en / dk

15. Nóvember 2017

Vegna fréttar á mbl.is í gær undir fyrirsögninni „Dómari hafnaði kröfu vísindasjóðs“ vill Kennarasamband Íslands árétta eftirfarandi:

a) Í fréttinni er ítrekað talað um „stjórnarformann vísindasjóðs“. Hið rétta er að um er að ræða fyrrverandi stjórnarformann sjóðsins, sem í dag er hvorki félagsmaður í Félagi framhaldsskólakennara né Kennarasambandi Íslands.

b) Í fréttinni segir; „...peningar hafi verið notaðir á veitingahúsi, í áfengiskaup og gjafir“. Engir fjármunir hafa verið greiddir úr Vísindasjóði án samþykkis formanns eða stjórnar og umræddar greiðslur voru inntar af hendi í tengslum við kveðjuhóf fyrrverandi formanns og fyrrverandi starfsmanns sjóðsins vorið 2008. Þar voru þeir kvaddir eftir áratuga starf í þágu félagsins. Gjafakaupin voru kveðjugjöf til þeirra og þakklætisvottur fyrir mikið og gott starf, og „áfengiskaup og veitingahúsagreiðslur“ voru greiðslur til þess veitingahúss þar sem starfsmennirnir voru kvaddir.

c) Fyrrverandi stjórn Vísindasjóðs kærði starfsfólk Kennarasambands Íslands til lögreglu fyrir ýmsar meintar sakir. Skoðun lögreglu leiddi ekkert saknæmt í ljós og var málið fellt niður.

Að lokum skal áréttað að úrskurður um innsetningarkröfu er ekki eins og dómur í einkamáli með bindandi réttaráhrifum. Úrskurðurinn felur því ekki í sér endanlega niðurstöðu um að aukaaðalfundurinn hafi verið ólögmætur. Dómari taldi aðeins ekki væru skilyrði fyrir beinni innsetningargerð, miðað við þau gögn sem voru lögð fram í málinu. Á þessu tvennu er eðlismunur.
 

Tengt efni