is / en / dk

15. Nóvember 2017

Stjórn KÍ staðfesti á dögunum tillögu stjórnar Sjúkrasjóðs KÍ um breytingar á reglugerð sjóðsins. Breytingarnar taka gildi 1. desember 2017.

Vakin er athygli félagsmanna á því að hafi neðangreindar meðferðir / aðgerðir farið fram á tímabilinu 1. maí 2017 til 30. nóvember 2017 þarf umsókn um styrk vegna þeirra að hafa borist til Sjúkrasjóðs KÍ eigi síðar en 30. nóvember 2017. Berist umsókn síðar verður hún ekki styrkhæf, vegna breyttra úthlutunarreglna, jafnvel þótt meðferðin hafi farið fram á síðastliðnum 12 mánuðum.

Breytingar á úthlutunarreglum
Vegna breytinga á greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands sem tóku gildi 1. maí 2017 mun Sjúkrasjóður KÍ ekki greiða styrki vegna eftirfarandi meðferða og aðgerða sem fram fara frá og með 1. maí 2017:

  • Einstaklingsmeðferðir hjá iðjuþjálfum, sjúkraþjálfurum og talmeinafræðingum.
  • Kostnaðarsamar aðgerðir og meðferðir sem gerðar eru skv. læknisráði.
  • Meðferð hjá félagsráðgjöfum, sálfræðingum eða listmeðferðarfræðingum, falli þær undir reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Hægt er að sækja um styrki vegna kostnaðar af þessu tagi til 30. apríl 2018 hafi kostnaðurinn fallið til fyrir 1. maí 2017. Ekki er þó veittur styrkur ef meira en 12 mánuðir eru frá því að meðferð var veitt / aðgerð fór fram.

Einnig er athygli félagsmanna vakin á því að meðferð hjá félagsráðgjöfum, sálfræðingum og listmeðferðarfræðingum verður áfram styrkhæf falli hún ekki undir reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Nánari upplýsingar má finna í endurskoðuðum úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs KÍ sem finna má hér.

Breytingar á greiðslu sjúkradagpeninga
Önnur stór breyting er að sá tími sem félagsmenn eiga rétt á að fá greidda sjúkradagpeninga verður skertur um 25% frá og með 1. desember 2017. Þetta þýðir að félagsmaður sem fram að þessu hefur átt rétt á greiðslu í tólf mánuði á eftir breytingu rétt til greiðslu í níu mánuði. Félagsmaður sem átti sex mánaða rétt mun eftir breytingu eiga rétt á greiðslum í fjóra og hálfan mánuð o.s.frv.

Ástæðan fyrir breytingunni er að síðustu misseri hefur orðið stöðug aukning í útgreiddum sjúkradagpeningum en útlit er fyrir að sú þróun sé ekki á enda komin. Sjóðurinn er í dag rekinn með tapi og verði ekkert að gert klárast eigið fé hans á næstu misserum. Stjórn Sjúkrasjóðs KÍ og stjórn KÍ töldu því óhjákvæmilegt að grípa inn í en hafa vísað málinu til umræðu og umfjöllunar á næsta þingi KÍ, sem fram fer í apríl á næsta ári. Ennfremur er til skoðunar að setja inn í kröfugerð í komandi kjaraviðræðum, að greiðslur inn í sjóðinn verði hækkaðar.

Óljóst er hvað veldur aukinni ásókn í sjúkradagpeninga sjóðsins, en þó er ljóst að aukið álag og þar með aukin veikindi kennara hafa þar mikið að segja.

Ofangreindar breytingar gilda aðeins um umsóknir sem berast Sjúkrasjóði KÍ frá og með 1. desember 2017.
 

Tengt efni