is / en / dk

13. Nóvember 2017

Verkefni sem trúnaðarmenn þurfa að leysa eru fleiri nú en árið 2013. Alls segjast 42 prósent trúnaðarmanna KÍ að þeir hafi fundið fyrir meira álagi skólaárið 2016-2017 en skólaárið á undan.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum tveggja kannana sem Kennarasamband Íslands lét gera meðal trúnaðarmanna, annars vegar árið 2013 og hins vegar árið 2017. Könnuð voru viðhorf trúnaðarmanna til starfsaðstæðna og til ýmissa þátta í starfi þeirra.

Capacent Gallup sá um könnunina árið 2013 og Hjördís Sigursteinsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri, um könnunina árið 2017. Svarhlutfall í báðum könnunum var gott, eða ríflega 80 prósent.

Meðal helstu niðurstaðna má nefna að trúnaðarmenn eru almennt ánægðari með aðkomu annarra að lausn verkefna en árið 2013. Þá hefur upplýsingagöf yfirmanna til trúnaðarmanna aukist á milli ára.

Tæplega 73 prósent trúnaðarmanna segja að almennt sé vel tekið í beiðni þeirra um að sækja þing, fundi, ráðstefnur og námskeið á vegum aðildarfélags eða KÍ. Þetta hlutfall var 65 prósent árið 2013.

Þá hefur þeim trúnaðarmönnum sem telja sig hafa svigrúm í vinnutíma og aðstöðu á vinnustað til að sinna starfinu fjölgað lítillega á milli áranna 2013 og 2017. Tæp 58 prósent sögðust árið 2013 hafa svigrúm og vinnuaðstöðu en tæp 63 prósent í könnuninni á þessu ári. Hlutfallslega færri trúnaðarmenn telja sig hafa góða aðstöðu á vinnustað til að sinna trúnaðarmannsstarfinu árið 2017 en 2013 – og fjölgun er á milli ári í hópi trúnaðarmanna sem segjast enga aðstöðu hafa á vinnustaðnum.

Kennarasamband Íslands hvetur trúnaðarmenn og skólastjórnendur til að kynna sér skýrslu um samanburð þessara tveggja kannana; taka hana til sameiginlegrar umræðu, skoða jákvæða þætti og það sem betur má fara. Gott samstarf og samvinna trúnaðarmanna og skólastjórnenda er mikilvæg fyrir skólastarfið og vinnustaðinn í heild.

Skýrslan í pdf-formi.
 

Tengt efni