is / en / dk

07. Nóvember 2017

Skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga, Lára Stefánsdóttir, er skólameistari ársins 2017. Svo hljóða niðurstöður könnunar sem FF lét gera á viðhorfum félagsmanna til stjórnunarhátta og fagmennsku skólameistara. 

Tilurð könnunarinnar má rekja til aðalfundar FF árið 2014 en þá var stjórn félagsins falið að hefja vinnu við framkvæmd viðhorfskönnunar. 

Lára Stefánsdóttir, skólameistari Menntaskólanum á Tröllaskaga (MTR), skarar fram úr í könnuninni. Rúmlega helmingur kennara í MTR tók þátt og mældist mesta ánægjan með stjórnun og samskipti við skólameistara í þeim skóla. 

Þátttaka í könnuninni var fremur dræm eða rétt rúm 22 prósent að meðaltali. Aðeins ellefu skólar af þrjátíu mældust með meira en 20 prósent þátttöku. „Vonir standa þó til að þátttaka fari vaxandi en stefnt er að því að könnunin fari fram árlega," segir í Epli FF – rafrænu fréttabréfi, sem kom út á mánudag. 

Menntaskólinn á Tröllaskaga í Ólafsfirði hóf starfsemi árið 2010. Lára hefur verið skólameistari frá upphafi. 

 

 

Tengt efni