is / en / dk

01. Nóvember 2017

Yfirlýsing frá Guðríði Arnardóttur vegna pistils Ragnars Þórs Péturssonar á heimasíðu KÍ.

Ég hef alveg látið það vera að ráðast á mótframbjóðendur mína í þessari kosningabaráttu til formanns KÍ. Ég vil bara leggja fram það sem ég hef að færa og þá sýn sem ég hef á starfið.

Ragnar Þór Pétursson kýs að ráðast á mig ómaklega og auk þess með ósannindum nú að morgni 1. nóvember. Hann leggur mér orð í munn sem ég aldrei mælti.

Ragnar segir í pistli sínum: „Guðríður Arnardóttir sagði í umræðum í gær að hún sæi ekkert eftir því með hvaða hætti hún stóð gegn kjarabótum grunnskólakennara meðan hún starfaði á vettvangi sveitarfélaga .... Henni hefði samt alltaf verið hlýtt til kennara.

Þessi orð eru uppspuni Ragnars og því vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Á fundi frambjóðenda síðastliðinn mánudag var ég spurð út í setu mína í stjórn Sambands Íslenskra sveitarfélaga. Þar sat ég í 4 ár frá 2010 til 2014 sem bæjarfulltrúi í Kópavogi

Ég svaraði því til að það væru auðvitað styrkur í þeirri gríðarlega miklu reynslu og þekkingu á innviðum sveitarfélaganna sem ég hef aflað mér sem sveitarstjórnarmaður. Ég sagði nú eitthvað á þá leið að ég hefði því miður ekki verið einráð þarna inni fyrir utan að við vorum tvær kennarar í stjórn Sambandsins á þeim tíma og tókum eðlilega ekki þátt í kjaraumræðu um okkur sjálfar og vikum af fundi eftir atvikum.

Þegar ég tek að mér verkefni þá sinni ég því af alúð og eldmóði. Ég hef verið í forystu framhaldsskólakennara frá vorinu 2014. Á þeim tíma hafa laun framhaldsskólakennara hækkað um 45%. Vinnutími framhaldsskólakennara er ekki bundinn og ekkert hefur verið átt við kennsluafslátt. Meðaldagvinnulaun framhaldsskólakennara eru 580 þúsund og heildarlaun 732 þúsund.

Ég er þekkt fyrir að láta athafnir fylgja orðum. Ég hef hvorki lært heimspeki eða rökfræði og skrifa því ekki langa, orðum skreytta pistla. En sem formaður KÍ mun ekki láta mitt eftir liggja að hækka laun allra félagsmanna KÍ.

Ég hvet þá sem þetta lesa til þess að hlusta á svar mitt við spurningu Ólafs Loftssonar en það er á tímanum 1:15 í upptökunni frá fundinum.

 

Tengt efni