is / en / dk

24. október 2017

Menntamál hafa ekki verið mikið til umræðu í yfirstandandi kosningabaráttu þrátt fyrir að margvísleg vandamál blasi við í skólum landsins. Kennarasamband Íslands hefur lagt nokkrar lykilspurningar fyrir stjórnmálaflokkana sem bjóða fram til þings og eru svör þeirra birt hér fyrir neðan. Með þessu vill Kennarasambandið leggja sitt af mörkum til að uppýsa kjósendur um helstu áherslur flokkanna í menntamálum.

 

1. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja að stjórnvöld standi við skuldbindingar um menntun og farsæld barna í leit að alþjóðlegri vernd samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist?
Alþýðufylkingin vill að flóttamönnum (þ.m.t. hælisleitendum) séu tryggð full mannréttindi á Íslandi, m.a. að börnum sé tryggð skólaganga og fullorðnum leyfi til að vinna vinnu við sitt hæfi. Við teljum kostnaðinn ekki verða mikinn og mundi að miklu leyti borgast með sköttum þeirra fullorðnu. En til að tryggja að hægt sé að efna skuldbindingarnar, teljum við nauðsynlegt að skapa sátt um það í samfélaginu, með því að tryggja líka mannréttindi annarra sem búa í landinu.

2. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur og foreldra um menntun og skóla fyrir alla frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla?
Alþýðufylkingin vill gera alla menntun gjaldfrjálsa, þ.m.t. framhaldsskóla og háskóla. Til að tryggja leik- og grunnskólastig teljum við nærtækast að hækka laun kennara verulega. Við getum ekki lofað að gera það fyrir kennarana -- það er sameiginlegt baráttumál; á meðan við búum í stéttasamfélagi þurfa kennarar áfram að berjast fyrir kjörum sínum, en Alþýðufylkingin styður þá baráttu.

Það þarf að endurreisa skólahald í byggðum sem standa höllum fæti, enda er það ein aðalforsendan fyrir því að fólk vilji búa einhvers staðar, að börn komist í skóla án þess að þurfa að fara í skólabíl yfir fjallvegi.

Við viljum fá kennara og aðra sérfærðinga í kennslu- og skólamálum með í lið til að bjarga framhaldsskólastiginu frá þeim skaða sem stytting framhaldsskólans hefur unnið á því.

Við viljum að skóli án aðgreiningar verði annars vegar valkvæður, eftir þörfum barns og óskum barns og foreldra, og hins vegar raunhæfur valkostur með því að veita þangað þeim peningum sem kostar að ráða nógu marga stuðningsfulltrúa, aðstoðarkennara og aðra nauðsynlega starfsmenn.

3. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja framboð og aðgengi nemenda að fjölbreyttu og vönduðu íslensku náms- og kennsluefni og að náms- og kennsluefni sé þeim og foreldrum að kostnaðarlausu?
Öll námsgögn eiga að vera gjaldfrjáls á öllum skólastigum, bæði bækur, tölvur og annað sem þarf. Það jafnar ekki bara aðstöðu barna, sem nú búa við stéttaskiptingu, heldur borgum við þetta allt saman hvort sem er, og það er hagkvæmara fyrir heildina að öll gögn séu sköffuð afhinu opinbera.

4. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur um rétt þeirra til náms- og starfsráðgjafar?
Ráða alla þá náms- og starfsráðgjafa sem þarf. Það kostar peninga og þá á ríkið að reiða fram.

5. Hvað vill þinn flokkur gera til að bæta úr brýnni nýliðunarþörf í kennslu og aðstæður kennara og skólastjórnenda til að þróa menntun og skólastarf? 
Hækka laun kennara til muna og auka þá umbun sem þeim stendur til boða fyrir að sækja sér endur- og símenntun. Þá þarf að bæta starfsaðstæður kennara (og nemenda), m.a. með meiri tíma til undirbúnings, og í því og öðru munum við leita til kennara sjálfra eftir tillögum.

6. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands lækkuðu útgjöld hins opinbera til menntamála á hvern landsmann um 13,5 prósent frá 2008 til 2016. Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að snúa þessari þróun við?
Auka þau aftur -- enda lítum við ekki á menntun sem kostnaðarlið heldur sem samfélagsleg gæði og mannréttindi, sem allir eigi að njóta. Og það eru til nógir peningar í þjóðfélaginu, það þarf bara að forgangsraða þeim í þágu fólksins.

1. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja að stjórnvöld standi við skuldbindingar um menntun og farsæld barna í leit að alþjóðlegri vernd samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist?
Í upphafi síðasta löggjafarþings lögðum við í Bjartri framtíð fram drög að frumvarpi um breytingar á lögum um útlendinga (hagsmunir barna) þar sem það er sérstakt áhyggjuefni hvað eftirfylgni við útlendingalögin hefur verið takmörkuð. Lögin voru samin af þverpólitískri þingmannanefnd ásamt sérfræðingum. Það sem snýr að börnum tók mið af Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og réttindi og hagsmunir barna voru þar áberandi. Það þarf engu að síður að endurskoða framkvæmd þessarra laga til að tryggja virkni þeirra innan þeirra stofnana sem veita hælisleitandi börnum þá þjónustu sem þeim er ætlað að veita. Það var alltaf ætlun löggjafans að mynda þverpólitíska nefnd til að fylgja innleiðingunni eftir. Fyrir því vill Björt framtíð berjast. Lögin voru skýr að okkar mati og fjölmörg ákvæði þeirra varða rétt barna í leit að alþjóðlegri vernd. Sérstaklega er kveðið á um að fjölskyldum eigi að halda saman og að taka þurfi tillit til sérþarfa umsækjenda sem teljast í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Börn sem hafa verið þolendur misnotkunar, vanrækslu, pyndinga eða grimmilegrar ómannúðlegrar eða vanvirðandi meðferðar og/eða hafa þjáðst vegna vopnaðra átaka skulu eiga kost á viðeigandi heilbrigðisþjónustu og sálgæslu og annarri nauðsynlegri þjónustu skv. Barnaverndarlögum. Þá er sérstaklega kveðið á um að börn sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi skuli eiga þess kost að stunda skyldunám í grunnskóla eða sambærilegt nám innan hins almenna skólakerfis eða á dvalarstað þess eins fljótt og unnt er.

Björt framtíð telur það einnig nauðsynlegt að samtal eigi sér stað á milli ríkis og sveitarfélaga um eftirfylgni á sviði þjónustu við börn í leit að alþjóðlegri vernd varðandi menntun, velferðar- og heilbrigðisþjónustu og að jafnræðis til þjónustu og mannúðar sé gætt hverju sinni. Þá þarf að ríkja jafnræði í þjónustu milli sveitarfélaga.

2. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur og foreldra um menntun og skóla fyrir alla frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla?
Björt Framtíð horfir til þess að Ísland verði lærdómssamfélag sem stöðugt miðar að því að hæfni allra sé byggð upp. Veita þarf öllum sem áhuga hafa á námi aðgang að því, óháð s.s. aldri, kyn, uppruna og búsetu enda er sá auður sem felst í öflugri menntun ómetanlegur fyrir hvert samfélag. Sérhver einstaklingur þarf að fá bestu námstækifæri sem völ er á og nám á að vera séð sem kjarnastarfsemi í þjóðfélaginu til að stuðla að lýðræðislegu og öflugu samfélagi. Ekki má hindra aðgengi að úrræðum út frá aldri, kyni, eða öðrum breytum. Í skólastarfi þarf að bera virðingu fyrir börnum og tryggja að þau fái notið bernsku sinnar. Fjölbreytni þarf einnig að ríkja á öllum stigum menntakerfisins og bjóða þarf upp á skóla með mismunandi áherslum (sjá öfluga lýðháskóla til viðbótar við hefðbundna bók- og verknámsskóla). Skólastarf þarf að byggja á og laga sig að áhugasviði og styrkleika barna og nemenda í þeim tilgangi að vinna með veikleika og stuðla að námsánægju þeirra. 

Björt framtíð sér vel menntaða og metnaðarfulla kennara, sem bera virðingu fyrir öllum einstaklingum, sem undirstöður alls skólastarfs. Björt framtíð leggur áherslu á stefnuna um skóla án aðgreiningar. Það þýðir að það þarf að mæta einstaklingsbundnum þörfum allra nemenda til að tryggja að þeir fái góða og innihaldsríka menntun sem geri þeim kleift að auka lífgæði sín og tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu. Við teljum að nauðsynlegt sé einnig að kennarar og skólastjórnendur hafi til hliðsjónar mannréttindasamninga eins og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem og leik- grunn- og framhaldskólalögin og námskrár þeirra.

Björt framtíð er opin fyrir því að skoða sveigjanleika í skilum á milli skólastiga út frá fjölbreyttum sjónarhornum. Í ljósi þess að nánast öll börn stunda leikskólanám í dag, má velta fyrir sér hvort innihald náms í 1. bekk á grunnskólastigi eigi að víkja og innihald náms 2. bekkjar verði fyrir 1. bekk. Einnig má velta fyrir sér hvort færa eigi nám 1. bekkjar grunnskólastigs yfir í leikskóla, hvort 10. bekkur grunnskóla færist yfir í framhaldsskóla og þar verði á ný fjögurra ára framhaldsskólanám. Björt framtíð leggur áherslu á að auka samtal milli skólastiga svo það verði samfella í menntun, frá fyrsta skólastigi til þess síðasta.

Björt framtíð telur nauðsynlegt að öll skólastig séu fjármögnuð að fullu og að þar þurfi að huga að endurskoðun á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Löggjafinn hefur gert ýmsar kröfur á skólastigin sem rekin eru af sveitarfélögunum, án þess að tryggt sé að tekjur fylgi þeim kröfum. Það þarf að endurskoða og breyta. Það er verkefni sveitarfélaganna að reka skóla og gera þá að aðlagandi viðverustöðum fyrir börn og starfsfólk en ríkisvaldinu ber að búa þannig um hnútana að sveitarfélögin geti staðið sómasamlega að verki.

3. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja framboð og aðgengi nemenda að fjölbreyttu og vönduðu íslensku náms- og kennsluefni og að náms- og kennsluefni sé þeim og foreldrum að kostnaðarlausu?
Kennsluefni og aðferðir þurfa að vera í stöðugri mótun í takt við nýja tíma og skólar vakandi fyrir nýjum áherslum, s.s. á gagnrýna hugsun, siðfræði, listir, iðnmenntun, umhverfismál, heilsu og hugleiðslu, svo sitthvað sé nefnt. Það er nákvæmlega engin hvatning fyrir höfunda að búa til nýtt vandað kennsluefni ef þeir njóta ekki afrakstrar af því. Það leiðir af sér minni sköpun og minni fjölbreytni. Námsgagnastofnun þarf að verða hluti af nútímanum og bregðast örar við nýjungum í kennsluefni og kennsluháttum. Sérstaklega þarf að horfa til eflingar á framleiðslu innlends námsefnis. Í lögum um framhaldsskóla kemur fram með skýrum hætti að mæta eigi kostnaði nemenda vegna námsgagna.

Í 51. gr. laga um framhaldsskóla frá 2008 segir: Í fjárlögum ár hvert skal tilgreind sú fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Ráðherra setur reglur um skiptingu fjárins og fyrirkomulag þessa stuðnings. Björt framtíð telur mikilvægt að farið sé eftir þeim lögum sem sett eru í landinu. Að því sögðu eigum við að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna í bæði grunn – og framhaldsskólum. Það er ekki aðeins vegna reglugerðar heldur líka vegna umhverfissjónarmiða. Mikilvægt að minna á að börn eiga aldrei að líða skort. Ein ástæða brotthvarfs úr framhaldsskólum er vegna kostnaðar, það reynist ungmennum dýrt að fara í framhaldsskóla. Á það sérstaklega við um ungmenni sem búa úti á landi og hafa ekki tök á því að sækja framhaldsskóla í eigin sveitafélagi. Ríkið á að taka ábyrgð í þessum málum og framfylgja lögum.

Hvað varðar grunnskólanna í lögum um grunnskóla ber að vitna í 31. gr. Kostnaður í skyldunámi. Kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skal veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá. Sama á við um nám grunnskólanemenda í framhaldsskólaáföngum, enda sé námið skilgreint sem hluti náms í grunnskóla. Þó er opinberum aðilum ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.

Á síðasta kjörtímabili var lagt fram frumvarp til laga um að sveitarfélögin útveguðu námsgögn og ritföng fyrir nemendur. Þingmenn Bjartrar framtíðar studdu ekki frumvarpið. Það var hins vegar ekki vegna þess að þeir styðja ekki málstaðinn heldur vegna þess að frumvarpið var ekki fullnægjandi hvað varðar fjármögnun þess þar sem það hefði leitt til ójafnræðis milli sveitarfélaga. Það er hins vegar okkar skoðun að endurskoða þurfi tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og taka þar sérstaklega tillit til náms- og kennslugagna. Þess utan hafa fjölmörg sveitarfélög nú tekið stefnuna upp og vitað um fleiri sem munu fylgja í kjölfarið.

Síðast en ekki síst viljum við setja meira fjármagn í tækniþróun á öllum skólastigum og stuðning við þróun á vönduðum íslenskum forritum. Ungt fólk hefur fyrir löngu tekið forskot varðandi notkun á snjalltækjum og mikilvægt er að þau umgangist íslenskt efni þar. Vegna þess teljum við mikilvægt að kenna forritun í grunn- og framhaldsskólum. Ungt fólk dagsins í dag ætlar að taka fullan þátt í fjórðu iðnbyltingunni. Það mun skapa og móta framtíðina. Stjórna henni jafnvel. Til þess þarf að leggja sérstaka áherslu á skapandi hugsun og tækifæri til sköpunar.

4. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur um rétt þeirra til náms- og starfsráðgjafar?
Það leikur enginn vafi á því að þörf er á að efla og fjölga náms- og starfsráðgjöfum. Hlutverk þeirra er að aðstoða nemendur við ólíka þætti, s.s. að greina áhugasvið sitt, styðja við framgang þeirra í námi, bregðast við vandkvæðum sem á námsleiðinni liggja og leita aðstoðar sérfræðiaðila þegar þess þarf. Björt framtíð vill að áfram sé unnið að stefnumótun náms- og starfsráðgjafa í skólum og það verkefni sé klárað með samtali við náms- og starfsráðgjafa.

Auka þarf vægi náms- og starfsráðgjafa til muna í grunnskólum og styðja betur við stöðu þeirra í framhaldsskólum. Styðja þarf náms- og starfsráðgjafa í skólum til verka með því að opna þverfaglegar leiðir, auka samstarf við heilsugæslu og aðra aðila sem koma að málefnum nemenda.

Eitt mikilvægasta starf náms – og starfsráðgjafa er að styðja námsmenn til að ljúka námi. Brottfall nemenda er allt of hátt og lykilstöðu náms- og starfsráðgjafa sem trúnaðarmanna nemenda má nýta í því samhengi. Greina þarf ástæður brottfalls og í kjölfarið setja fram markmiðssetta áætlun um úrbætur. Brottfall úr íslenskum skólum er skýrt dæmi um sóun á mannauði og Björt framtíð telur mikilvægt að minnka sóun í íslensku samfélagi, hver sem birtingarmynd hennar er.

5. Hvað vill þinn flokkur gera til að bæta úr brýnni nýliðunarþörf í kennslu og aðstæður kennara og skólastjórnenda til að þróa menntun og skólastarf?
Augljóst er að þörf er fyrir inngrip og jafnvel þjóðarátak í því að efla kennarastétt Íslands. Það er brýnt að koma til móts við kröfur í samfélaginu um að kennarastéttin njóti sömu launaþróunar eins og aðrir háskólamenntaðir sérfræðingar. Nauðsynlegt er að við horfum inná við og greinum vel alla þá þætti sem þarfnast endurskoðunar og lagfæringa. Það er mikilvægt til að auka aðsókn í kennaramenntun, koma í veg fyrir kulnun í starfi og til að halda kennurum í kennslu. 

Björt framtíð telur að ein þeirra leiða sem skoða mætti til að fjölga kennaranemum væri að bjóða upp á námsstyrki. Mikilvægt er ða efla betur tengsl milli skólakerfisins og kennaranáms með öflugu vettvangsnámi og rannsóknum á vegum Menntavísindasviðs HÍ. Björt framtíð telur líka mikilvægt að fjölga karlkennurum, bæta starfsaðstöðu kennara (og þar með barna), ekki síst leikskólakennara. Stuðla þarf að breyttu viðhorfi í samfélaginu gagnvart kennslustarfinu, m.a. með kynningum o.fl.

Tryggja þarf að leik- grunn og framhaldskólakennarar njóti besta grunnnáms sem völ er á með meira vettvangsnámi og betri símenntun til að tryggja að nemendur njóti alltaf bestu kennslu sem unnt er að veita og endurspeglar þarfir samtímans og samfélagsins. Starfsaðstæðum leikskólakennara þarf þó að forgangsraða framar. Leikskólakennarar hafa sótt meiri símenntun en margar aðrar stéttir en starfsaðstæðurnar þeirra hafa lítið sem ekkert breyst. Það hefur stuðlað að því að leikskólakennarar hafa margir hverjir menntað sig út úr leikskólanum sem starfsvettvangi. Þrengsli á leikskólum eru einnig viðvarandi vandamál sem hefur áhrif á vinnuumhverfi leikskólakennara og nemenda þeirra. Slíkt er óásættanlegt. 

Björt framtíð vill beita sér fyrir því að ríkið, sveitarfélögin, háskólarnir, stéttarfélögin og starfandi kennarar myndi stefnumótunar- og viðbragðsteymi sem mótar heildarstefnu í málefnum leik- grunn og framhaldsskóla í þeim tilgangi að til langrar framtíðar verði örugglega boðið upp á nám, vinnuaðstöðu og umgjörð utan um skólastarf sem stenst kröfur nútímans um góðan grunn fyrir frekara nám og lífið.

Við teljum einnig nauðsynlegt að ríkið bæti við fjármagn til skólaþróunar í gegnum sprotasjóði.

6. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands lækkuðu útgjöld hins opinbera til menntamála á hvern landsmann um 13,5 prósent frá 2008 til 2016. Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að snúa þessari þróun við?
Björt framtíð telur ekkert annað að gera enn að snúa einmitt þessari þróun við meðal annars með því að auka útgjöld þannig að þau miðist við OECD viðmið en jafnframt að við sækjumst markvisst eftir að ná framlagi hinna Norðurlandanna. Menntun er mikilvægasta verkfæri sem við höfum til þess að þróa samfélagið og efla einstaklinga til virkni og við lítum svo á að þegar skorið er niður í menntakerfinu, sé beinlínis verið að skera niður þróun í samfélaginu.

Björt framtíð vill styrkja rekstur framhaldsskóla og háskóla landsins og ná OECD viðmiðum. Við viljum búa til kerfi sem lagar sig að nemendum frekar en þeir lagi sig að vanfjármögnuðum kerfum. Reiknilíkön framhalds- og háksóla eru úr sér gengin og þarf að endurhanna þau strax.

Styttingu framhaldsskóla var ætlað að spara í menntakerfinu. Námsmenn, kennarar og ýmsir sérfræðingar hafa lýst mikilli óánægju með þá ákvörðun. Björt framtíð vill hafa þá með í ráðum við að snúa við af þessari braut.

Við viljum að fjármögnun og tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga verði einnig endurskoðuð, ekki síst varðandi leik- og grunnskóla. Ríkið þarf að leggja sveitarfélögunum til nýja eða aukna tekjustofna til að standa undir lögbundnum skyldum sínum og síauknum verkefnum á öllum skólastigum. Þá viljum við að tónlistarkennsla verði einnig fjármögnuð af alvöru.
  

Svar hefur ekki borist

Svar hefur ekki borist

1. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja að stjórnvöld standi við skuldbindingar um menntun og farsæld barna í leit að alþjóðlegri vernd samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist?
Framsókn vill standa vörð um jafnan rétt allra til náms. Þar sem Ísland er aðili að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þá gefur það auga leið að börn sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd eiga skilyrðislaust réttindi á menntun við hæfi. Barnasáttmálinn á einnig að tryggja að áhersla sé lögð á að hlúa vel að andlegri vellíðan barnanna. Þetta er stórt, umfangsmikið, vandmeðfarið og krefjandi verkefni sem Framsóknarflokkurinn telur brýnt að staðið sé vel að. Til að svo megi verða þarf meira að koma til en að kosta til skólagöngu og veita sálfræðiþjónustu eftir þörfum. Hér þurfa margar ríkisstofnanir að taka höndum saman og vinna saman að farsælu skipulagi á móttöku, aðlögun, aðhlynningu og sálfræðiaðstoð og kennslu. Hér verður að takast samstaða milli ríkis og sveitarfélaga þannig að unnt verði að samnýta ýmsa sértæka þjónustu eins og t.d. túlkaþjónustu og kennslu á móðurmáli barnanna ef þess er kostur.

2. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur og foreldra um menntun og skóla fyrir alla frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla? 
Framsókn leggur áherslu á að staðinn sé vörður um jafnan rétt fólks til menntunar. Í þeim efnum er snýr að skóla margbreytileikans vill flokkurinn koma á miðlægum stuðningi til að sinna margbreytileika í skólastarfi, þ.m.t. að ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga vinni saman að því að koma á miðlægum stuðningi við kennslu í móðurmáli. Miðlægur stuðningur í móðurmáli skilar sér þó ekki að fullu nema í góðu samstarfi við heimilin, foreldra barnanna. Þetta á ekki síst við varðandi yngstu börnin, leikskólabörn og börn á yngsta stigi grunnskólans. Auka ber áherslu á úrræði og ráðgjöf til skóla og foreldra en draga úr ofuráherslu á greiningar. Án þess að slá af kröfum um líðan og eflingu samskiptafærni á skólinn fyrst og fremst að vera vettvangur fyrir nám og kennslu þar sem einstaklingurinn fær að blómstra á eigin forsendum og njóta hæfileika sinna. Framsókn vill að þjónusta vegna heilsu og velferðar nemenda sé veitt af heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustunni en í samstarfi við skólana og innan skólanna eftir því sem við á. Auka þarf því samstarf milli velferðarráðuneytis og menntamálaráðuneytis og stofnana þeirra. Liður í þessari þjónustu getur verið að auka aðgengi skólanna og kennara að sérfræðiaðstoð, aðstoð fagaðila“inni á gólfi“, þ.e. inni í skólastofunni. Hlúa þarf enn betur að einstaklingsbundnu námi og leggja áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir sem miða að þeim mismunandi styrkleikum sem nemendur búa yfir. Þá þarf að skapa þarf næði fyrir kennara og annað starfsfólk skóla til að nota þá þekkingu sem til er innan skólanna í fjölbreyttri kennslu og skólaþróun.

3. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja framboð og aðgengi nemenda að fjölbreyttu og vönduðu íslensku náms- og kennsluefni og að náms- og kennsluefni sé þeim og foreldrum að kostnaðarlausu?
Framsókn vill stórauka stuðning við læsi á öllum skólastigum sem og að fjárfesta í íslenskri máltækni, íslenskunni og þróun hennar til stuðnings. Eðli máls samkvæmt eru námsefni og námsgögn þar í lykilhlutverki. Mikil þörf er á endurnýjun námsefnis og auknu framboði á íslensku námsefni. Fara verður í markvissa stefnumörkun um námsgagnagerð í framhalds-, grunn- og leikskólum, til dæmis með því að styrkja og útvíkka starfsemi Menntamálastofnunar og auka fjármagn til Þróunarsjóðs námsgagna. Framsókn telur að styrkja þurfi stoðir Menntamálastofnunar þannig að hún verði leiðandi afl í menntamálum þjóðarinnar. Lestur í víðum skilningi er grundvöllur menntunar og þess að geta aflað sér upplýsinga. Sem liður í að efla aðgengi að bókum til lestrar og náms vill Framsóknarflokkurinn afnema virðisaukaskatt af bókum en bóksala hefur dregist saman um 31% frá því 2008 og 2016 nam samdráttur í bóksölu 11%.

4. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur um rétt þeirra til náms- og starfsráðgjafar?
Framsókn vill efla náms- og starfsráðgjöf og alla stoðþjónustu við nemendur. Flokkurinn telur að mikilvægt sé að skilgreina hve mörg börn standi að baki hverju stöðugildi í náms- og starfsráðgjöf. Þar geti þættir eins og aldur og samsetning nemendahóps haft gildi. Náms- og starfsráðgjafar þurfa í dag að vera í stakk búnir til að sinna fjölbreyttari nemendahópi en áður og huga þarf að þeim þætti í námi og endurmenntun þeirra.Tryggja þarf að háskólar bjóði upp á fjarnám í náms- og starfsráðgjöf til að fjölga fagmenntuðu fólki.

5. Hvað vill þinn flokkur gera til að bæta úr brýnni nýliðunarþörf í kennslu og aðstæðum kennara og skólastjórnenda til að þróa menntun og skólastarf? 
Manngildi er meira virði en auðgildi og traust og gott menntakerfi leggur grundvöllinn að því samfélagi sem við viljum búa í. Miklar breytingar hafa verið gerðar á íslensku skólakerfi á undanförnum misserum og mikilvægt að staldra við og gefa fagfólki skólanna svigrúm til að innleiða þær og þróa skólastarfið.

Kennaraskorturinn sem til lengri tíma hefur verið í leikskólunum og nú í grunnskólanum er grafalvarlegt mál. Stjórnmálamenn verða að veita þessari stöðu athygli og bregðast við, áður en vandinn vex enn frekar. Menntastefnuhópur sem settur var á fót í Framsóknaflokknum í tilefni af 100 ára afmæli flokksins hefur undanfarna mánuði rætt þessi alvarlegu mál og leitað ráðgjafar sérfræðinga víða í leit flokksins að lausnum. Viðfangsefnið kallar nefnilega á fjölþætta lausn og til þess að vinna að henni þarf samtal háskólasamfélagsins, kennarafélaganna, ríkis og sveitarfélaga. Í því samtali þarf að fara yfir inntak námsins, starfsvettvang og kjör.

Meðal þeirra aðgerða sem Framsókn telur að þurfi að grípa til varðandi kennaranámið er að auka þarf kröfur í kennaranámi og endurskoða námið í takt við ákall samtímans þannig að námið verði eftirsóknarverðara. Þá þarf að samræma aðgerðir yfirvalda, háskóla og samtaka kennara til að stuðla að aukinni nýliðun kennara. Flokkurinn telur að koma beri á fót launuðu kandidatsári á 4. ári í meistaranámi kennara. Jafnframt er mikilvægt að vinna gegn kynjahalla í hópi starfsmanna skóla og þá þarf að veita markvissari og heildstæðari stuðning við kennara í starfi, m.a. með sí- og endurmenntun og starfsþróun.

Varðandi starfsumhverfið (sjá einnig svar við spurningu 2) þarf að skýra hlutverk og verkaskiptingu skóla og heimila, til að einfalda líf bæði kennara og foreldra. Skoða sérstaklega hvort báðum kynjum líði jafn vel innan veggja skólanna. Mikilvægt er að námskrár og kjarasamingar styðji sameiginlega við þróun og mótun skólastarfsins.

Varðandi Lánasjóðinn viljum við nota hann til að skapa hvata til að laða ungt vel menntað fólk til þess að setjast að á landsbyggðinni, líkt og Norðmenn gera. Framsókn vill að afborganir séu felldar niður af námslánum í fimm ár fyrir þá sem eru búsettir á skilgreindum svæðum á landsbyggðinni. Sama má gera til að bregðast við skorti á fagmenntuðu starfsfólki eins og í leik- og grunnskólum.

Að lokum þarf að bæta kjör kennara og til þess þarf samfélagslega sátt til lengri tíma um launakjör. 

6. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands lækkuðu útgjöld hins opinbera til menntamála á hvern landsmann um 13,5 prósent frá 2008 til 2016. Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að snúa þessari þróun við?
Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni. Framsókn vill setja 20 milljarða í heilbrigðis-, samgöngu- og menntamál og bregðast við brýnni þörf um uppbyggingu innviða samfélagsins. Á þeim umbreytingatímum sem við lifum sköpum við ný tækifæri með öflugu menntakerfi og fjárfestingu í hugverka- og þekkingariðnaði. Menntun, rannsóknir og nýsköpun eru undirstaða kröftugs hagvaxtar en um leið velferðar og hagsældar til framtíðar.

1. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja að stjórnvöld standi við skuldbindingar um menntun og farsæld barna í leit að alþjóðlegri vernd samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist?
Miðflokkurinn telur mikilvægt að börnum í leit að alþjóðlegri vernd sé tryggð skólavist eða sambærileg menntun eins fljótt og mögulegt er eftir að þau koma til landsins. Þetta á við um börn og ungmenni fram að 18 ára aldri sbr. einnig lög um framhaldskóla nr. 92/2008.

Miðflokkurinn telur lykilatriði að viðhafa gott samráð og samstarf við stofnanir samfélagsins og sveitarfélög um hvernig best sé tryggt að stjórnvöld standi saman við skuldbindingar sínar um menntun og farsæld barna í leit að alþjóðlegri vernd.

2. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur og foreldra um menntun og skóla fyrir alla frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla?
Lagaskyldur stjórnvalda við nemendur og foreldra um menntun fyrir alla frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla eru víðtækar og ná yfir breitt svið. Mikilvægur liður í því að tryggja framkvæmd núgildandi menntastefnu um nám án aðgreiningar, nám við hæfi, fjölbreytt námstækifæri, skapandi skólastarf og vellíðan nemenda er að styðja við fagfólk skólanna við innleiðingu og framkvæmd á menntastefnunni. Lykilatriði er að svigrúm sé til staðar fyrir alla þá sem starfa að skólamálum, á öllum skólastigum og öllum skólagerðum til að framkvæma stefnu um menntun fyrir alla. Ríki og sveitarfélög þurfa að vinna saman með skólafólki að því að bæta starfsumhverfi og skapa þetta svigrúm fyrir þróun skólastarf.

Efla þarf þverfaglegt samstarf stofnanna samfélagsins á sviði skólamála, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Styðja þarf við samstarf leik- grunn-, framhalds- og tónlistarskóla innbyrðis og við atvinnulíf með áherslu á skapandi starf og fjölbreytt nám. Fyrst og síðast leggur Miðflokkurinn áherslu á að hlusta á lausnir, skapa umgjörð og vinna með fagfólki að því að tryggja sem besta framkvæmd menntastefnunnar.

3. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja framboð og aðgengi nemenda að fjölbreyttu og vönduðu íslensku náms- og kennsluefni og að náms- og kennsluefni sé þeim og foreldrum að kostnaðarlausu?
Miðflokkurinn vill hafa samráð og samstarf við fagfólk á sviði skólamála um hvernig framboð og aðgengi að fjölbreyttu og vönduðu íslensku náms- og kennsluefni verði best tryggt. Frumkvæði sveitarfélaga að því að sjá nemendum fyrir námsgögnum og ritföngum þeim að kostnaðarlausu er mikilvægur liður í að tryggja jafnan rétt nemenda til ókeypis grunnskólamenntunar. Miðflokkurinn telur að móta þurfi framtíðarstefnu um framboð á náms- og kennsluefni og kostnaðarþátttöku stjórnvalda fyrir allar skólagerðir og að sú stefna verði hluti af menntastefnu stjórnvalda. Stefnan verði unnin í samvinnu ríkis og sveitarfélaga við Menntamálastofnun, Kennarasamband Íslands, Skólameistarafélagið og háskólasamfélagið.

4. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur um rétt þeirra til náms- og starfsráðgjafar?
Ríki og sveitarfélög þurfa í sameiningu að fylgja því eftir að nemendur njóti náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum.

5. Hvað vill þinn flokkur gera til að bæta úr brýnni nýliðunarþörf í kennslu og aðstæðum kennara og skólastjórnenda til að þróa menntun og skólastarf?
Miðflokkurinn telur að ríki og sveitarfélög þurfi að hafa forgöngu um mótun stefnu um hvernig gera megi átak í að laða okkar besta fólk í kennaranám og til starfa við allar skólagerðir. Þessi stefna þarf að vinnast í samstarfi ríkis, sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Skólameistarafélagsins og háskólasamfélagsins. Stefnan þarf m.a. að taka til starfskjara, starfsumhverfis, starfsþróunar, kennaramenntunar og hvernig auka megi virðingu fyrir kennarastarfinu og mikilvægi þess almennt.

6. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands lækkuðu útgjöld hins opinbera til menntamála á hvern landsmann um 13,5 prósent frá 2008 til 2016. Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að snúa þessari þróun við?
Miðflokkurinn ætlar að auka sérstaklega framlög ríkissjóðs til iðn- og tæknináms. Miðflokkurinn ætlar að auka stuðning við rannsóknir og vísindastarf.

 

1. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja að stjórnvöld standi við skuldbindingar um menntun og farsæld barna í leit að alþjóðlegri vernd samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist?
Menntasamfélagið; kennarar, fræðimenn og aðrir aðstandendur, þurfa ráðrúm til þess að breyta og bæta eftir því sem þekkingu okkar fer fram og umhverfi okkar breytist. Píratar vilja styrkja tekjustofna sveitarfélaga þannig að þeir geti fjármagnað leik- og grunnskóla betur. Einnig tryggja rannsóknarstarf og kennslu í háskóla og fylgja Finnum í samræmingu fræðaskóla, verkmenntaskóla (applied sciences) og til viðbótar listgreinaskóla. Píratar vilja vinna með menntasamfélaginu að stefnumörkun um menntakerfi sem mætir þörfum nemenda og samfélagi framtíðarinnar. Til þess þá þarf, samhliða; að auka gæði kennaranáms (sem hefur að nokkru leyti verið unnið að með lengingu), samstilla skólastigin og viðurkenna mikilvægi kennarastéttarinnar með launum sem samræmast þeim markmiðum sem við viljum ná í gæðum menntakerfisins.

2. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur og foreldra um menntun og skóla fyrir alla frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla?
Það er stefna Pírata að allir eigi að hafa aðgang að námi óháð búsetu, aldri og efnahag. Til þess að ná því markmiði þá þarf meðal annars að styrkja tekjustofna sveitarfélaga, meðal annars með því að tekið sé útsvar af tekjuskatti fyrirtækja og af virðisaukaskatti. Einnig þá þarf að fara í stefnumótunarvinnu sem skilar okkur ekki bara nýrri aðalnámskrá, heldur heildstæðri áætlun um hvernig á að koma henni í verk í sátt við kennara, nemendur, foreldra og aðra hagsmunaaðila.

3. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja framboð og aðgengi nemenda að fjölbreyttu og vönduðu íslensku náms- og kennsluefni og að náms- og kennsluefni sé þeim og foreldrum að kostnaðarlausu?
Námsefnisgerð er ekki auðveld, ódýr né sjálfbær vegna þess hversu markaðurinn er smár. Píratar vilja því stíga skref í að búa til námsefni sem er með opnu höfundaleyfi þar sem hver sem er getur bætt við og breytt. Ritstjórn verður að sjálfsögðu alltaf fagleg og undir ábyrgð hins opinbera. Höfundum yrði síðan greitt miðað við hlutfall þess efnis sem þeir búa til og er í notkun.

Með þessu móti gætu einstaka kennarar bætt við myndbandi, texta eða öðru. Annað hvort inn í opinbera eintakið eða í kennaraeintakið sitt fyrir sína nemendur. Nemendur gætu meira að segja búið til efni til þess að dreifa meðal samnemenda sinna eða víðar.

Gæðin eru tryggð með ábyrgri og faglegri ritstjórn. Námsefnið lifir áfram óháð einum höfundi og það er auðvelt að bæta við og breyta eftir því sem þekkingin þróast.

4. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur um rétt þeirra til náms- og starfsráðgjafar?
Það eru þegar í þróun upplýsingavefir, bæði á vegum hins opinbera og einstaka skóla. Það þarf að auka fræðslu fyrir nemendur um næstu skref í námi þeirra. Það þarf að gera með samvinnu menntastiga og atvinnulífs. Skólarnir sjá auðvitað um að uppfylla þær lagaskyldur sem eru annars skilgreindar og það þarf einfaldlega að tryggja fjármögnun.

5. Hvað vill þinn flokkur gera til að bæta úr brýnni nýliðunarþörf í kennslu og aðstæður kennara og skólastjórnenda til að þróa menntun og skólastarf?
Það er ekkert hægt að komast hjá því að líta á launin. Málið er ekki mikið flóknara en það. Starfsaðstaðan er vissulega álitamál líka. Það er alveg nóg af kennurum ef eitthvað af menntuðum kennurum fæst aftur inn í skólana. Það er hins vegar ekkert sjálfsagt mál að gerist jafnvel þó launin hækki. Við þurfum að gefa kennurum meira faglegt frelsi, meira andrými til þess að sinna starfi sínu faglega.

Það hafa verið miklar breytingar á undanförnum árum, með nýrri aðalnámskrá sem gefur skólum meira svigrúm. Svigrúmið til þess að innleiða aðalnámskránna hefur hins vegar ekki verið mikið né mikil hjálp veitt til þess. Við þurfum að vinna framtíðarstefnu saman og hjálpast að við innleiðingu þeirra breytinga sem lagt er til. Breytingar gerast ekki sjálfkrafa bara með því að búa til nýja aðalnámskrá.

6. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands lækkuðu útgjöld hins opinbera til menntamála á hvern landsmann um 13,5 prósent frá 2008 til 2016. Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að snúa þessari þróun við?
Til að byrja með að auka útgjöld til Háskóla- og framhaldsskólastigs um nær þrjá milljarða strax á næsta ári eða um 4,5%. Í kjölfarið verðum við að fara í stefnumörkun um framtíð menntakerfisins sem innifelur í sér hækkun launa kennara, gæðakröfur í kennaranámi og framboð á námsleiðum í fræðum, verkum og listum í framhaldsskóla og upp úr. Við verðum að segja metnað í menntun vegna þeirra breytinga sem við sjáum á samfélaginu á næstu árum út af tækniframförum, td. sjálfvirknivæðingu, gerfigreind, framförum í matvælaframleiðslu og orkuiðnaði. Án hágæðamenntakerfis þá verðum við skilin eftir útundan.

 

1. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja að stjórnvöld standi við skuldbindingar um menntun og farsæld barna í leit að alþjóðlegri vernd samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist?
Öll börn eiga rétt á góðri menntun og jöfnum tækifærum. Það hefur verið eitt mikilvægasta baráttumál jafnaðarmanna um allan heim í langan tíma.

Börn í leit að alþjóðlegri vernd eru sérstaklega viðkæmur hópur. Mörg þeirra hafa ekki haft aðgang að menntun árum saman eða jafnvel aldrei verið í skóla og upplifað gríðarlega áföll. Mikilvægt er þess vegna að gera sér grein fyrir að hver dagur sem þau fá aðgang að góðri menntun eins og Ísland getur boðið er dýrmætur, sama hvort þau verða áfram á Íslandi eða ekki. Börn í leit að alþjóðlegri vernd eiga rétt á að fá aðgang að menntun við hæfi strax eftir komu til landsins. Skipa þarf verkefnahóp sem þróar leiðir til að setja saman aðgerðaráætlun eða „námspakka“ sem hæfir hverju barni. Þau eru ólík og geta þurft á mismunandi stuðningi að halda. Skólinn er í lykilhlutverki í mótttöku þessara barna og mikilvægt að því sé vel sinnt.

Við teljum nauðsynlegt að öll börn í leit að alþjóðlegri vernd falli undir þjónustu sveitarfélaga, en ekki Útlendingastofnunnar. Við gerð samninga við sveitarfélögin sem þjónusta þann hóp þarf að huga að menntaþörfum barnanna.

Samfylkingin leggur einnig áherslu á að laga aðstöðumun milli kvótaflóttafólks og þeirra sem hafa fengið stöðu flóttamanna, sérstaklega með tilliti til barna, og veita þeim sambærilegan stuðning við aðlögun að íslensku samfélagi.

2. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur og foreldra um menntun og skóla fyrir alla frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla? 
Það er grundvallarstefna Samfylkingarinnar að börn eigi að hafa jafnan aðgang að skólum á Íslandi óháð búsetu eða efnahag. Þess vegna viljum við að skólagjöld og námskostnaður í leik- grunn- og framhaldsskólum verði felldur niður.

Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og betri lífskjörum. Við stöndum í anddyri tæknibyltingar þar sem starfshættir eiga eftir að breytast verulega. Miklar breytingar verða á vinnumarkaði og samfélaginu almennt sem skólarnir þurfa að búa nemendur undir með því að leggja áherslu á grunnþætti á borð við félagsfærni, sköpun og gagnrýna hugsun. Því er mikilvægt að nemendur á öllum stigum fái tækifæri til þess að þroska hæfileika sína í skapandi greinum, listum, rannsóknum og nýsköpun til að mæta nýjum áskorunum í lífi og starfi.

Upphaf leikskólagöngu þarf að þróast í takt við þarfir fjölskyldna en lykilatriði er lenging fæðingarorlofs til að eyða óvissu og óöryggi þegar foreldrar snúa aftur til vinnu að loknu orlofi. Fæðingarorlof þarf að lengja í 12 mánuði og til framtíðar litið enn lengra í samræmi við aðrar Norðurlandaþjóðir.

Við þurfum að leggja áherslu á gott samtal milli skólastiga og auka samvinnu þvert á skólastig. Miklar breytingar hafa orðið á kennarastarfinu og kennarar upplifa aukið álag í nútíma skólasamfélagi. Með bættum stuðningi felast mikil tækifæri í því að sinna einstaklingsmiðaðri kennslu einkum með auknum fjölda nemenda með annað móðurmál en íslensku. Notkun upplýsingatækni, öflug starfsþróun kennara, þróun lærdómssamfélaga sem leggja áherslu á sameiginlega ábyrgð allra sem starfa í skólum á námi barna og ungmenna og aðgangur að fjölbreyttri kennsluráðgjöf eru allt lykilatriði í skólastarfi allra skólastiga.

Við þurfum að styðja betur við fjölbreytta framhaldsskóla út um allt land og vinna gegn brottfalli með markvissum aðgerðum. Greina þarf sérstaklega þarfir þessa skólastigs þar sem margir skólar eru komnir að þolmörkum vegna aðhaldsaðgerða. Samfylkingin hafnar þeim tálmunum sem settar hafa verið á framhaldsskólanám fyrir 25 ára og eldri.

3. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja framboð og aðgengi nemenda að fjölbreyttu og vönduðu íslensku náms- og kennsluefni og að náms- og kennsluefni sé þeim og foreldrum að kostnaðarlausu?
Eins og fram kom í spurningu tvö eru jafnrétti og jafnt aðgengi að námi grunnstef í stefnu Samfylkingarinnar. Börn og ungmenni eiga að hafa jafnan aðgang að skólum óháð búsetu og efnahag. Þess vegna viljum við fella niður skólagjöld og kostnað vegna námsgagna.

Þróun kennsluefnis er mikilvægur liður í þróunarstarfi skóla. Það er mikilvægt að kennarar og aðrir sérfræðingar í skólamálum hafi aðstöðu og tækifæri til að vinna að nýjungum í þróun og gerð kennsluefnis. Við viljum tryggja nemendum bestu hugsanlegu námsaðstæður og nýta til þess markvisst gagnreyndar aðferðir í kennslu og námi. Samfylkingin vill auka samvinnu skóla og miðlun þekkingar um árangursríkar og fjölbreyttar aðferðir við kennslu.

4. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur um rétt þeirra til náms- og starfsráðgjafar?
Þann 7. desember 2016 lagði Samfylkingin fram þingsályktunartillögu um að öllum nemendum í framhaldsskólum landsins yrði tryggt aðgengi að sálfræðiþjónustu innan veggja skólanna þeim að kostnaðarlausu. Samfylkingin vill bæta við 100 sálfræðingum í skólum og heilsugæslu um allt land. Við leggjum áherslu á að Ísland verði heilsueflandi samfélag sem stuðlar að góðri geðheilsu fólks.

Á framhaldsskólaárunum eykst brottfall úr skóla og geðræn vandamál sem fólk glímir við koma gjarnan fram á þeim árum. Í dag er aðgengi ungmenna að geðheilbrigðisþjónustu ábótavant og margir hafa ekki efni á henni. Ókeypis sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum er forvörn og aðstoðar nemendur til að halda áfram námi þrátt fyrir erfiðleika. Slík þjónusta er líka mikilvæg fyrsta aðstoð í andlegum veikindum sem kunna að koma upp. Samfylkingin vill að geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga verði aðgengileg meðal annars með auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu í skólum og á heilsugæslustöðvum landsins.

Við teljum gagnlegt að horfa til Finnlands í þessum málaflokki þar sem allir nemendur á unglingastigi í grunnskóla eiga rétt á tveimur stundum í viku í einstaklingsmiðaða náms- og starfsráðgjöf. Auk þess viljum við að gjaldfrjáls sálfræðiþjónusta verði aðgengileg á heilsugæslustöðvum og í framhaldsskólum.

5. Hvað vill þinn flokkur gera til að bæta úr brýnni nýliðunarþörf í kennslu og aðstæður kennara og skólastjórnenda til að þróa menntun og skólastarf?
Fyrst og fremst vill Samfylkingin efla ímynd og auka virðingu fyrir starfi kennara. Bæta þarf starfsumhverfi og leggja áherslu á mikilvægi starfa í menntastofnunum. Það þarf að fjölga nemendum í kennaranámi og einnig er mikilvægt að skoða hvernig megi laða til kennslu þá fjölmörgu sem hafa aflað sér kennsluréttinda en valið sér annan starfsvettvang en kennslu.

Samfylkingin vill koma á fót samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga, fagfélaga, skólafólks, nemenda, foreldra og aðila vinnumarkaðarins, sem hafi það hlutverk að móta tillögur að umbótum í menntamálum með það fyrir augum að efla skólastarf og gera kennarastarfið að vel launuðum og eftirsóknarverðum starfsvettvangi. Samhliða því þarf einnig að bæta aðbúnað og tækjakost, sem og styðja við breytta kennsluhætti og þróunarstarf í skólum.

Þá þarf að leggja sérstaka áherslu á að auka hlutfall fagfólks með réttindi í leikskólum og tryggja mismunandi starfsleiðir fyrir háskólamenntað starfsfólk sem ekki er með leikskólakennaramenntun.

Sveitarfélögin sjá um rekstur leik- og grunnskóla en þau hafa ekki fengið sanngjarnan hlut í góðæri síðustu ára. Við leggjum áherslu á réttlátari skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga m.a. til að fjármagna nauðsynlegar úrbætur í skólamálum.

6. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands lækkuðu útgjöld hins opinbera til menntamála á hvern landsmann um 13,5 prósent frá 2008 til 2016. Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að snúa þessari þróun við?
Útgjöld til menntamála verða að hækka. Við teljum að öflugt menntakerfi sé fjárfesting til framtíðar og forsenda nýsköpunar. Við viljum fjárfesta í menntakerfinu en ekki skera þar niður. Það er mikilvægt að efla innra starf skólanna og bæta starfskjör kennara til að laða áfram gott fagfólk í kennslu. Við eigum að stefna að því að minnka námshópa í framhaldsskólum, bæta aðbúnað og tækjakost og ekki síst styðja við breytta kennsluhætti og þróunarstarf.

Við megum heldur ekki gleyma háskólunum okkar, en hér á Íslandi fá þeir helming þess fjármagns sem háskólar á hinum Norðurlöndunum fá. Við þurfum að efla framlög til háskólastigsins og leggja áherslu á rannsóknir. Það þarf einnig að leggja áherslu á endurmenntun því að til framtíðar litið þurfum við að halda áfram að læra og mennta okkur allt lífið.
 

1. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja að stjórnvöld standi við skuldbindingar um menntun og farsæld barna í leit að alþjóðlegri vernd samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist?

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 felst almenn stefnumörkun um rétt barna og ungmenna á skólaskyldualdri til náms. Lögin kveða skýrt á um ábyrgð sveitarfélaga um að veita öllum börnum með lögheimili í sveitarfélaginu skólavist. Útlendingastofnun ber ábyrgð á búsetuskráningu barna sem eru í þjónustu þeirra, þ.m.t. börn í leit að alþjóðlegri vernd.

Grunnskólalög kveða enn fremur á um að sveitarfélög beri ábyrgð á því að skólaskyld börn njóti skólavistar í sveitarfélaginu. Ekki eru undanþágur á þessu þegar börn í alþjóðlegri vernd eru annars vegar og Sjálfstæðisflokkurinn telur því að skólaskylda, og þar með ábyrgð sveitarfélaga, eigi jafnt við um þessi börn eins og önnur.

Það er mat Sjálfstæðisflokksins að alltaf skuli tekið mið af því hvað sé börnum sé fyrir bestu þegar málefni þeirra eru til úrlausnar. Það gildir jafnt um íslensk börn sem og börn sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd.

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur mennta- og menningarmálaráðherra hafið samstarf við velferðarráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandið og Heimili og skóla um aðgerðaráætlun í kjölfar úttektar á menntun á aðgreiningar sem fram fór árið 2016. Meðal þess sem er þar undir er hvernig sé hægt að tryggja börnum í leit að alþjóðlegri vernd sem besta þjónustu, en það samræmist stefnunni um menntun án aðgreiningar.
Sjálfstæðisflokkurinn telur rétt að áðurnefndri aðgerðaáætlun verði fylgt eftir, enda byggir stefna flokksins í málaflokknum á mannúð og mannvirðingu.

2. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur og foreldra um menntun og skóla fyrir alla frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla?

Sjálfstæðisflokkurinn telur að tímabært sé að efna til víðtæks samráðs allra hlutaðeigandi innan menntakerfisins, þ.e. nemendur, kennara, foreldra, sveitarfélög og stjórnmálamanna. Til að hægt sé að efna skuldbindingar, nýta tækifæri og ráða bót á því sem má laga þarf að skapa heildstæða framtíðarsýn um menntakerfið sem áfram byggir á fagþekkingu, skynsemi og ábyrgð.

Jafnframt er rétt að halda því til haga að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hafa framlög til fræðslumála aukist um tugi milljarða króna. Frá árinu 2013 til ársins 2016 jukust útgjöld til málaflokksins um 33,7 milljarða króna á ári, á raunvirði, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Þannig hefur verið hægt að bæta kjör starfsfólks og undirbyggja betri þjónustu við nemendur.

Á sama tíma hefur gríðarlegum fjármunum verið varið í að tryggja sjálfbærni opinbers rekstrar með niðurgreiðslu skulda og lægri fjármögnunarkostnaði ríkisins. Þannig skapast aukið svigrúm til að gera enn betur til að byggja undir grunnstoðir samfélagsins, þar á meðal menntakerfið.

Þessar staðreyndir endurspegla stefnu Sjálfstæðisflokksins um að takmörkuðum fjármunum hins opinbera beri að ráðstafa á ábyrgan hátt og forgangsraða í grunnstoðir samfélagsins, á sama tíma og ríkisfjármálin séu rekin á sjálfbæran og skynsamlegan hátt. Með þessu hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt sitt á vogarskálarnar til að gera gott menntakerfi betra.

Einungis á grundvelli þessarar stefnu er hægt að blása til áframhaldandi sóknar í menntakerfinu til langrar framtíðar. Þannig tekst okkur saman að styrkja stoðir samfélagsins og tryggja betri framtíð fyrir okkur öll.

3. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja framboð og aðgengi nemenda að fjölbreyttu og vönduðu íslensku náms- og kennsluefni og að náms- og kennsluefni sé þeim og foreldrum að kostnaðarlausu?

Það er ljóst að aðgengi grunn- og framhaldsskólanemenda að vönduðu námsefni er gríðarlega mikilvægt til að tryggja þeim viðunandi menntun og viðhalda og auka við gæði náms í skólum. Útgáfa námsgagna er fyrst og fremst á borði Menntamálastofnunar. Sjálfstæðisflokkurinn telur að leita þurfi leiða til að auka framboð á góðu námsefni, til dæmis með sjálfstæðri útgáfu. E.t.v. væri æskilegt að styrkja Námsgagnasjóð frekar til að hvetja til aukins framboðs og endurnýjunar á vönduðu námsefni. Sjálfstæðisflokkurinn telur að þetta sé einn þeirra þátta sem nauðsynlegt sé að taka til skoðunar í samráði við allt skólasamfélagið í kjölfar kosninga.

Aðgengi að náms- og kennsluefni á grunnskólastigi er á borði sveitarfélaga, en misjafnt er hvort þau bjóði þau án endurgjalds eða hvort nemendur og foreldrar þurfi sjálfir að standa straum af kostnaði vegna þeirra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt talað fyrir því að sveitarfélög forgangsraði í þágu lögbundinna verkefna og sinni grunnþjónustu með sómasamlegum hætti, en ráðstafi síður opinberu fé til veigaminni verkefna. Það hefur því miður ekki verið raunin hjá öllum sveitarfélögum til þessa.

4. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur um rétt þeirra til náms- og starfsráðgjafar?

Mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði starfshóp um stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf í maí 2014. Niðurstöður skýrslunnar lágu fyrir í maí 2015. Meðal þess sem þar kemur fram er að náms- og starfsráðgjöf sé sniðin að ólíkum þörfum einstaklinga, að tæknin sé í auknum mæli nýtt til að tryggja aðgengi að náms- og starfsráðgjöf o.fl.

Sjálfstæðisflokkurinn er sammála þeim markmiðum sem koma fram í skýrslunni og telur að hlutaðeigandi ráðuneyti og sveitarfélög ættu að vinna markvisst að því að ná þeim þannig að sú framtíðarsýn sem lýst er í skýrslunni nái fram að ganga fyrir árið 2024.


5. Hvað vill þinn flokkur gera til að bæta úr brýnni nýliðunarþörf í kennslu og aðstæður kennara og skólastjórnenda til að þróa menntun og skólastarf?

Sjálfstæðisflokkurinn vill efna til víðtæks samráðs við allt skólasamfélagið um það hvernig sé hægt að leysa þau vandamál sem steðja að menntakerfinu og á sama tíma hvernig sé hægt að gera það sem best til framtíðar. Í heimi sem breytist ört er nauðsynlegt að allir hlutaðeigandi, kennarar, nemendur, foreldrar, sveitarfélög og stjórnmálamenn komi sér saman um lausnir á vandamálum og viðbrögð við tækifærum til að tryggja að íslenskt samfélag geti haldið áfram að vera í fremstu röð.

Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hafa laun allra kennarastétta hækkað umtalsvert, sem var bæði nauðsynlegt og skynsamlegt. Sem dæmi má nefna að laun framhaldsskólakennara hafa verið hækkuð um 43% þegar fyrri hluti árs 2016 er borinn saman við fyrri hluta árs 2013. Samhliða styttingu framhaldsskólanáms hefur verið komið til móts við nýliðunarþörf, en betur má ef duga skal.

Hvað varðar grunn- og leikskólakennara þá eru málefni þeirra og kjarasamningar á borði sveitarfélaga, en kjör þessara stétta hafa einnig hækkað.

Það er mikilvægt að halda áfram á þessari braut við lausn á þessari áskorun. Með verulegri kjarabót hefur Sjálfstæðisflokkurinn sýnt vilja sinn í verki til þess að mæta nýliðunarvanda í kennarastéttinni og auka veg og virðingu hennar. Það er þó enn ljóst er að slíkar breytingar taka tíma að skila sér í auknum fjölda þeirra sem útskrifast úr kennaranámi. Það liggur í augum uppi að laun kennara þurfa að vera með þeim hætti að þau endurspegli bæði mikilvægi stéttarinnar og laði hæfileikaríkt og fjölbreytt fólk til starfa.

6. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands lækkuðu útgjöld hins opinbera til menntamála á hvern landsmann um 13,5 prósent frá 2008 til 2016. Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að snúa þessari þróun við?

Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hafa framlög til fræðslumála aukist um tugi milljarða króna. Frá árinu 2013 til ársins 2016 jukust útgjöld til málaflokksins um 33,7 milljarða króna á ári, á raunvirði, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Þannig hefur verið hægt að bæta kjör starfsfólks og undirbyggja betri þjónustu við nemendur.

Á sama tíma hefur gríðarlegum fjármunum verið varið í að tryggja sjálfbærni opinbers rekstrar með niðurgreiðslu skulda og lægri fjármögnunarkostnaði ríkisins. Þannig skapast aukið svigrúm til að gera enn betur til að byggja undir grunnstoðir samfélagsins, þar á meðal menntakerfið.

Þessar staðreyndir endurspegla stefnu Sjálfstæðisflokksins um að takmörkuðum fjármunum hins opinbera beri að ráðstafa á ábyrgan hátt og forgangsraða í grunnstoðir samfélagsins, á sama tíma og ríkisfjármálin séu rekin á sjálfbæran og skynsamlegan hátt. Með þessu hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt sitt á vogarskálarnar til að gera gott menntakerfi betra.

Einungis á grundvelli þessarar stefnu er hægt að blása til áframhaldandi sóknar í menntakerfinu til langrar framtíðar. Þannig tekst okkur saman að styrkja stoðir samfélagsins og tryggja betri framtíð fyrir okkur öll.
 

 

1. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja að stjórnvöld standi við skuldbindingar um menntun og farsæld barna í leit að alþjóðlegri vernd samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist?
Viðreisn vill leitast við að tryggja öllum börnum aðgengi að menntun, hvort heldur sem um er að ræða íslensk börn, börn hælisleitenda, eða flóttamanna í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Viðreisn leggur sérstaka áherslu á velferð barna á flótta og barðist m.a. fyrir bættum útlendingalögum á yfirstandandi kjörtímabili. Viðreisn vill að börn á flótta, hvort sem þau eru ein eða með fjölskyldum sínum, fái ávallt efnismeðferð hér á landi ef málsmeðferð hefur tekið meira en sex mánuði og að þau fái í öllum tilvikum dvalarleyfi af mannúðarástæðum hafi þau verið hér í meira en 12 mánuði. Þá telur Viðreisn að börn eigi alltaf að njóta vafans, barnaverndaryfirvöld eigi að koma inn frá fyrstu stigum máls til þess að gæta hagsmuna þeirra og að ákvarðanir miði alltaf að því sem er barninu fyrir bestu.

Viðreisn vill tryggja að öll börn sem fæðast á Íslandi fái kennitölu og eigi þar með rétt á sömu menntun og heilbrigðisþjónustu.

2. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur og foreldra um menntun og skóla fyrir alla frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla?
Viðreisn vill tryggja meiri samfellu á milli skólastiga - frá leikskóla og til loka framhaldsskóla. Öll börn, óháð námslegri getu, eiga rétt á menntun við hæfi sem tryggir þeim hæfni við útskrift til að takast a við störf í atvinnulífi og virkri þátttöku í íslensku samfélagi. Þannig þarf að auka sveigjanleika við inntöku barna í grunn- og framhaldsskóla og gefa sveitarfélögum tækifæri til að reka framhaldsskóla.

Viðreisn vill beita sér fyrir því að tryggja framkvæmd laga um aðgengi að náms- og starfsráðgjöf ásamt því að stórefla stoðþjónustu skóla (bæði sálfræðilega- og félagslega þjónustu). Viðreisn vill sömuleiðis skoða möguleika á lagabreytingum til að auðvelda sveitarfélögum samstarf við stuðning barna með sérþarfir.

3. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja framboð og aðgengi nemenda að fjölbreyttu og vönduðu íslensku náms- og kennsluefni og að náms- og kennsluefni sé þeim og foreldrum að kostnaðarlausu?
Viðreisn vill tryggja börnum á grunn- og framhaldsskólastigi námsgögn óháð efnahag. Efla þarf útgáfu á námsefni, ekki síst á framhaldsskólastigi. Horfa þarf sérstaklega til aðgengis á námsefni fyrir nemendur í iðn-og verknámi og möguleika til að nota/útbúa rafrænt og gagnvirkt námsefni.

4. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur um rétt þeirra til náms- og starfsráðgjafar?
Endurskoða þarf náms í náms- og starfsráðgjöf til að tryggja betra aðgengi að slíkri ráðgjöf á grunn- og framhaldsskólastigi. Sömuleiðis þarf að efla þátt starfsraðgjafar í náminu. Það þarf að tryggja það að í öllum skólum sé starfandi náms- og starfsráðgjafi. Í dag er staðan því miður þannig að ekki er starfandi náms- og starfráðgjafi í öllum skólum. Starfsheitið náms- og starfsráðgjafi er lögverndað og því eingöngu þeir sem hafa hlotið tilskylda menntun sem geta starfað sem slíkir.

Einnig þarf að festa niður viðmið varðandi nemendafjölda á hvern náms- og starfsráðgjafa.

5. Hvað vill þinn flokkur gera til að bæta úr brýnni nýliðunarþörf í kennslu og aðstæður kennara og skólastjórnenda til að þróa menntun og skólastarf?
Ljóst er að þörf er á umtalsverðri nýliðun í kennarastétt á komandi árum auk þess sem brottfall úr stéttinni veldur áhyggjum. Samkeppnishæf kjör og starfsskilyrði kennara skipta sköpum í þessu sambandi.

Viðreisn vill stefna að þjóðarsátt um að bæta kjör umönnunar- og uppeldisstétta í samræmi við þjóðfélagslegt mikilvægi, menntunarkröfur og sjálfsögð jafnréttissjónarmið. Til þess þarf samstillt átak ríkis, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar. Viðreisn hefur sýnt vilja sinn til að stuðla að launajafnrétti í verki, m.a. með innleiðingu jafnlaunavottunar.

Viðreisn vill beita sér fyrir endurskoðun á kennaranámi, m.a. að starfsþjálfunarhluti námsins verði lengdur og kennaranemar fái greidd laun á meðan á starfsþjálfun stendur. Þá er mikilvægt að huga vel að umgjörð starfsþróunar og endurmenntunar til þess að styðja við nýsköpun og framfara innan greinarinnar og auka starfsánægju. Endurskoða þarf launakjör kennara en Viðreisn telur ekki síður brýnt að skoða möguleika að því að búa til hvata fyrir kennara til að ílengjast í starfi, s.s. að skoða bekkjarstærðir, kennslutíma, sveigjanlegan starfstíma, möguleika til starfsþróunar og nýsköpunar í starfi. Þá er vert að taka til skoðunar hugmyndir í þá veru að beita hagrænum hvötum í gegnum námslánakerfið til þess að störf í þjóðfélagslega mikilvægum greinum meira aðlaðandi, t.d. með sérstökum endurgreiðslukjörum fyrir útskrifaða nemendur sem hefja störf í skólakerfinu eða starfi þar í ákveðinn tíma.

6. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands lækkuðu útgjöld hins opinbera til menntamála á hvern landsmann um 13,5 prósent frá 2008 til 2016. Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að snúa þessari þróun við?
Viðreisn ætlar að beita sér fyrir því að auknum fjármunum sé varið til menntamála, sérstaklega á framhalds- og háskólastigi.

Viðreisn hefur ennfremur lagt til stofnun auðlindasjóðs sem ætlaður verður til uppbyggingar innviða um allt land. Almenn innviðauppbygging mun auka svigrúm sveitarfélaga til þess að efla grunnþjónustu, m.a. leik- og grunnskóla.

Stefnt er á umtalsverða aukningu fjárframlaga á hvern nemanda bæði á framhalds- og háskólastigi. Rétt er að setja markið á að Ísland standi jafnfætis Norðurlöndunum hvað fjármögnun háskóla varðar við lok næsta kjörtímabils. Ennfremur er mikilvægt að efla rannsóknir á öllum sviðum. Þar leikur ríkisvaldið lykilhlutverk en horfa ber til náins samstarfs, háskóla, rannsóknastofnana og atvinnulífs um rannsóknir og þróunarstarf.
 

1. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja að stjórnvöld standi við skuldbindingar um menntun og farsæld barna í leit að alþjóðlegri vernd samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist?
Það skiptir miklu máli að íslenskt samfélag uppfylli skyldur sínar gagnvart hælisleitendum og sérstaklega fylgdarlausum flóttabörnum. Sú er því miður ekki raunin í dag. Vinstri græn vilja bæta aðbúnað þeirra og hafa m.a. lagt fram frumvarp um að efla rétt fylgdarlausra barna þannig að hagsmunir þeirra séu ávallt hafðir í fyrirrúmi, m.a. hvað varðar búsetu, heilbrigðisþjónustu og möguleika til menntunar. Sama gildir um börn fullorðinna hælisleitenda, sem þarf að tryggja að búi við ásættanlegar aðstæður og fái fljótt inni í skóla, á meðan mál fjölskyldunnar bíður afgreiðslu.

2. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur og foreldra um menntun og skóla fyrir alla frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla?
Vinstri græn vilja stefna að því að öll þjónusta sveitarfélaganna sem snertir börn sé fjölskyldum þeirra að kostnaðarlausu. Slíkt er grundvallarforsenda þess að öll börn hafi sömu tækifæri í samfélaginu. Sveitarfélög og ríki þurfa að vinna að því sameiginlega markmiði að við lok lengds fæðingarorlofs séu leikskólapláss í boði fyrir öll börn.
Endurskoða þarf fæðingarorlofskerfið þannig að börn eigi þess frekari kost að njóta samvista við foreldra í frumbernsku. Í því skyni þarf sérstaklega að líta til þess að lengja fæðingarorlofið, lyfta greiðsluþaki, hækka fæðingarstyrkinn og draga úr skerðingum.

3. Hvað vill þinn flokkur gera til að tryggja framboð og aðgengi nemenda að fjölbreyttu og vönduðu íslensku náms- og kennsluefni og að náms- og kennsluefni sé þeim og foreldrum að kostnaðarlausu?
Vinstri græn telja mikilvægt að gerð verði gangskör að endurnýjun námsefnis í framhaldsskólum og að opinber stuðningur við námsefnisútgáfu fyrir framhaldsskóla verði aukinn. Vinstri græn vilja að horfið verði frá áformum um aukinn einkarekstur á útgáfu námsefnis fyrir grunnskóla. Slík einkavæðing eykur líkurnar á því að gróðasjónarmið ráði útgáfunni frekar en vönduð, fagleg vinnubrögð með hagsmuni barna að leiðarljósi
Styðja þarf betur við bókaútgáfu, bæði með afnámi virðisaukaskatts á bækur og með öflugri stuðningi í gegnum sjóðakerfið. Vinstri græn fagna því að sveitarfélög séu í auknum mæli farin að bjóða börnum í grunnskóla upp á gjaldfrjáls námsgögn. Menntun barna á að vera gjaldfrjáls að öllu leyti og ekki gera upp á milli barna eftir efnahag eða aldri.

4. Hvað vill þinn flokkur gera til að uppfylla lagaskyldur við nemendur um rétt þeirra til náms- og starfsráðgjafar?
Tryggja þarf aukinn sérfræðistuðning innan skóla til að framfylgja skóla án aðgreiningar. Fara verður að lögum um náms- og starfsráðgjöf og bæta félagslega þjónustu og heilsugæslu í nærumhverfi hvers skóla.

5. Hvað vill þinn flokkur gera til að bæta úr brýnni nýliðunarþörf í kennslu og aðstæður kennara og skólastjórnenda til að þróa menntun og skólastarf?
Fyrirsjáanlegur kennaraskortur í grunn- og leikskólum landsins er áhyggjuefni. Þörf er á samhentu átaki mennta- og menningarmálaráðuneytis, sveitarfélaga, háskólasamfélagsins og samtaka kennara til að fjölga kennaranemum. Búa þarf betur að skólafólki með öflugra símenntunarkerfi og betri launakjörum. Tryggja þarf faglegt sjálfstæði kennara og sveigjanleikja í starfi.

6. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands lækkuðu útgjöld hins opinbera til menntamála á hvern landsmann um 13,5 prósent frá 2008 til 2016. Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að snúa þessari þróun við?
Endurskoða þarf tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga í ljósi breyttra aðstæðna í grunn- og leikskólum. Horfa þarf einnig til framlaga sveitarfélaga á hvern nemanda til að tryggja viðunandi stuðning í bekkjum.
Vinstri græn hafa sömu leiðis lagt áherslu á að horfið sé frá einhliða styttingu framhaldsskólans, heldur sé skólunum sé tryggt svigrúm til eigin stefnumótunar. Sá sparnaður sem varð af styttingu hefði átt að renna óskiptur til eflingar framhaldsskólastigsins, en sú varð ekki raunin. Þá er mikilvægt að fjármögnun íslenskra háskóla verði sambærileg við fjármögnun háskóla á Norðurlöndunum árið 2020 í samræmi við áætlun Vísinda- og tækniráðs.

 

 

 

 

  

 


 

 

Tengt efni