is / en / dk

19. október 2017

Á annað hundrað manns sóttu opinn fund um menntamál þar sem fulltrúum stjórnamálaflokka, sem bjóða fram á landsvísu, var boðið að taka þátt í pallborði. Kennarasamband Íslands og Menntavísindasvið Háskóla Íslands stóðu saman að fundinum sem fram fór í Skriðu, húsi Menntavísindasviðs, miðvikudaginn 18. október. Fundurinn var sendur beint út á netinu og er upptaka aðgengileg á vef Netsamfélagisns. 

Þórður Árni Hjaltested, formaður KÍ, hélt ávarp við upphaf fundarins þar sem hann benti á að útgjöld til menntamála hafa dregist saman um 13.5% á síðustu árum. Hann kallaði eftir aðgerðum í þessum efnum. Þá fjallaði hann um mikilvægi þess að allir þeir sem koma að menntamálum komi saman og geri áætlun um hvernig auka megi nýliðun í kennarastétt. Þórður sagði jafnframt að gera þurfi laun kennara samkeppnishæf við launa annarra háskólamenntaðra sérfræðinga og stórbæta þurfi starfsaðstæður kennara og skólastjórnenda.

Frambjóðendur á fundinum fluttu hver um sig þriggja mínútna framsögu. Þeir voru síðan beðnir að rita á blað hvað þeim fyndust vera eðlileg grunnlaun nýútskrifaðs kennara. Á blöðum frambjóðenda mátti sjá tölur frá 480 þúsund og upp í 700 þúsund krónur. Að því loknu hófust umræður um menntamál frá ýmsum hliðum með þátttöku gesta í sal.

Þátttakendur í pallborði voru Nichole Leigh Mosty, fyrir Bjarta framtíð, Ólafur Ísleifsson, fyrir Flokk fólksins, Kjartan Þór Ragnarsson, fyrir Framsóknarflokkinn, Kolfinna Jóhannesdóttir, fyrir Miðflokkinn, Björn Leví Gunnarsson, fyrir Pírata, Páll Valur Björnsson, fyrir Samfylkinguna, Jóhannes Stefánsson, fyrir Sjálfstæðisflokk, Katrín Jakobsdóttir, fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrir Viðreisn.

Fundarstjórn var í höndum Aðalbjörns Sigurðssonar, kynningar- og útgáfustjóra Kennarasambands Íslands. Fundurinn fór fram í Skriðu, í húsi Menntavísindasviðs við Stakkahlíð.

Horfið á fundinn hér.

 

Tengt efni