is / en / dk

11. október 2017

Stjórn Kennarasambandsins hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna þróunar útgjalda til menntamála síðust ár:

  • Á átta árum drógust opinber útgjöld til menntamála saman um 13,5%
  • Á sama tíma hafa bein útgjöld heimila til menntamála hækkað um fimm prósent
  • Stjórn KÍ hvetur stjórnvöld til að auka útgjöld til menntamála

Útgjöld hins opinbera til menntamála á hvern landsmann hafa lækkað um 13,5 prósent frá því þau náðu hámarki árið 2008. Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofu Íslands, sem komu út um miðjan september. Á sama tíma hafa framlög heimila til menntamála hækkað um fimm prósent og nema nú 9,5 prósentum af heildarútgjöldum til málaflokksins.

Hér fyrir neðan má sjá línurit sem sýna að framlög til leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hafa lækkað hratt á síðustu árum. Stjórnmálamenn bera ríka skyldu til að tryggja þeirri kynslóð sem nú vex úr grasi sem besta framtíð. Fyrir þennan hóp er ekkert mikilvægara en að hafa aðgang að öflugu menntakerfi. Samdráttur í framlögum til menntamála er því óverjandi.

Á komandi árum mun góð menntun hafa úrslitaáhrif á afkomu þeirra einstaklinga sem hér munu búa sem og þjóðarinnar í heild. Stjórnmálamenn verða að hafa framtíðarsýn því ákvarðanir dagsins í dag munu hafa áhrif á afkomu þjóðarinnar næstu áratugi. Þó stjórnmálamenn staðhæfi á tyllidögum að þeir vilji veg menntakerfisins sem mestan sýna þær tölur sem hér er vitnað til að slíkur vilji endurspeglast ekki í útgjöldum hins opinbera til menntamála. Stjórn Kennarasambands Íslands hvetur því stjórnmálamenn til góðra verka við að styrkja menntakerfið. Framtíðin er í húfi.
 

 
 

Tengt efni