is / en / dk

03. október 2017

Kennarasambandi Íslands barst í morgun eftirfarandi yfirlýsing frá Kjartani Ólafssyni, sem tilkynnti um helgina um framboð sitt til formanns Kennarasambands Íslands.

„Skjótt skipast veður í lofti. Þegar ég ákvað að bjóða mig fram til formennsku Kennarasambands Íslands, þá fann ég hjá mér hvöt til að koma skoðunum mínum og framtíðarsýn á framfæri. Nú hefur Ragnar Þór Pétursson ákveðið að taka slaginn og bjóða sig fram til formanns. Ragnar Þór hefur verið afar málefnalegur og skrif hans hafa sýnt fram á djúpan og yfirgripsmikinn skilning á störfum kennara á öllum skólastigum. Ég viðurkenni að ég sjálfur taldi það borðleggjandi að Ragnar stefndi á formann Félags grunnskólakennara og hugnaðist það mér afar vel. Nú er það svo að ég er grunnskólakennari og hef gegnt hlutverki trúnaðarmanns fyrir grunnskólakennara í Vatnsendaskóla í Kópavogi og hef því verið í hringiðu kjara- og réttindamála grunnskólakennara. Við þessi tíðindi hef ég tekið þá ákvörðun að lýsa yfir stuðningi mínum við framboð Ragnars Þórs, en lýsi því jafnframt yfir að ég mun bjóða mig fram til formanns Félags Grunnskólakennara í kosningum sem fara fram 17.-22. janúar 2018.“

Tengt efni