is / en / dk

02. október 2017

Samráðsfundur Félag stjórnenda leikskóla lýsir yfir áhyggjum af stöðu barna í leikskólum landsins; viðvera sé of löng og rými fyrir hvert barn of lítið. Þetta kemur fram í ályktun sem samráðsfundur FSL samþykkti á fundi sínum á Flúðum. Samráðsfundurinn beinir þeim tilmælum til sveitarstjórna, rekstraraðila, foreldra og atvinnulífsins að finna verði sameiginlega leiðir til að bæta aðstöðu barna nú og til framtíðar. 

 

Ályktun frá samráðsfundi Félags stjórnenda leikskóla
Flúðum 28. - 29. september 2017.

Samráðsnefnd FSL vill koma á framfæri áhyggjum sínum um stöðu barna í leikskólum landsins. Skýrsla OECD sýnir að börn á Íslandi hafa lengsta viðveru hvern dag og flesta leikskóladaga á ári. 

Rými fyrir hvert barn í leikskólum á Íslandi er of lítið með tilliti til fjölda barna og dvalartíma. Mikið álag er fyrir ungt barn að vera í stórum hópi í litlu rými svo langan dag. Viðvera barna hefur aukist síðustu ár og dvelja þau í leikskóla að meðaltali yfir átta klukkustundir á dag.

Áhyggjur okkar beinast að því að börn geti orðið fyrir röskun á geðtengslamyndun sem getur leitt til kvíða og einbeitingarskorts. Viðvarandi starfsmannavelta eykur einnig á þennan vanda. Við viljum beina orðum okkar til foreldra, sveitastjórna/rekstraraðila leikskóla og til atvinnulífsins alls.

Stöndum saman að velferð barna og finnum leiðir til að bæta aðstöðu þeirra nú og til framtíðar.

Samráðsnefnd Félags stjórnenda leikskóla
 

Tengt efni