is / en / dk

25. September 2017

Kennarasambandið hvetur kennara til að halda upp á Alþjóðadag kennara. Efnt verður til Skólamálaþings og úrslit í smásagnasamkeppninni verða gerð kunn. 

Alþjóðadagur kennara, eða kennaradagurinn eins og hann er líka kallaður, verður haldinn hátíðlegur hér á landi og um heim allan 5. október

Skólamálaþing 2017

Efnt verður til Skólamálaþings á kennaradeginum þar sem fjallað verður um skólastarf framtíðar. Skólamálaþingið er samstarfsverkefni Kennarasambands Íslands og Skólameistarafélag Íslands. Yfirskrift Skólamálaþings er: Innfædd á internetinu; breyttur heimur, snjallari nemendur. Aðalfyrirlesari verður hinn virti fræðimaður Zachary Walker.

Skólamálaþingið fer fram í Silfurbergi Hörpu, 5. október, og stendur frá 9.30 til 15.00. Miðasala er á tix.is

 

Úrslit í Smásagnasamkeppni KÍ, Heimilis og skóla og Samtaka móðurmálskennara

Bestu smásagnahöfundar í leik-, grunn- og framhaldsskólum verða verðlaunaðir á Alþjóðadegi kennara. Athöfnin fer fram á Skólamálaþingi KÍ og Skólameistarafélags Íslands. Ríflega hundrað smásögur bárust í keppnina að þessu sinni og er þetta þriðja árið sem keppnin er haldin. 

 

Kennarasambandið hvetur kennara, skólastjórnendur og starfsfólk skólanna til að taka þátt í Alþjóðadegi kennara; nota tækifærið og vekja athygli á kennarastéttinni og efna til viðburða í skólunum. Myllumerki dagsins er #kennaradagurinn hér á landi en þeir sem vilja blanda sér í alþjóðlega umræðu dagsins get notað #worldteacherday.

 

Alþjóðadagur kennara er heimsviðburður

Yfirskrift Alþjóðadagsins á heimsvísu er að þessu sinni er Faglegt frelsi – styrkjum stöðu kennara.

Stofnað var til Alþjóðadags kennara að frumkvæði UNESCO og Alþjóðasamtaka kennara (Education International) árið 1994. Markmiðið með deginum hefur ávallt verið að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem kennarar gegna í heiminum – en líka að efla samtakamátt kennara og huga að hvernig menntun barna verður best háttað í framtíðinni.

Í fréttatilkynningu frá Alþjóðasamtökum kennara segir að kennarar starfi við erfiðar aðstæður víða um heim. Annars vegar sé ástand sums staðar ótryggt og einkennist af ofbeldi og átökum og hins vegar sé faglegu sjálfstæði kennara víða ábótavant. „Þessari neikvæðu þróun verður að snúa við. Yfirvöld bera skyldu til þess að tryggja að störf kennara séu metin að verðleikum og þeir njóti virðingar.“ Þá segir jafnframt í tilkynningu samtakanna að tryggja verði kennurum viðunandi starfsaðstæður, öruggt og heilbrigt starfsumhverfi, faglegt frelsi og tækifæri til starfsþróunar. Kennarasamband Íslands mun sem fyrr fagna kennaradeginum með ýmsum hætti. 


 

Tengt efni