is / en / dk

06. September 2017

Löngu tímabært er að ráðast í aðgerðir til að auka framboð á vönduðum og fjölbreyttum náms- og kennslugögnum. Náms- og kennslugögn eiga að vera nemendum að kostnaðarlausu frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla og í tónlistarskólum til að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag og aðstæðum.

þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem samþykkt var á málþingi skólamálaráðs KÍ sem fram fór í húskynnum Endurmenntunar HÍ í gær. Yfirskrift málþingsins var: Skóli framtíðar – námsgögn fortíðar? Eru náms- og kennslugögn í takt við þarfir nemenda og kennara? 

Í ályktun fundarins er lagt fast að mennta- og menningarmálaráðherra að hafa forgöngu um aðgerðir til að auka framboð á vönduðu námsefni, og að því sé unnið í samstarfi við Alþingi, Menntamálastofnun, sveitarfélögin, kennarasamtökin og faggreinafélög kennara.

Meðal aðgerða sem fundurinn leggur til er að aðgengi nemenda að tölvum og tæknibúnaði verði bætt, skattur á bækur verði afnuminn og að gerð verði úttekt á þörfum nemenda og kennara fyrir vönduð náms- og kennslugögn.

 

Ályktun fundarins hjóðar svo í heild: 

Ályktun málþings skólamálaráðs Kennarasambands Íslands um náms- og kennslugögn haldið 5. september 2017 í Endurmenntun HÍ, Dunhaga 7, Reykjavík. 
Skóli framtíðar – námsgögn fortíðar? Eru náms- og kennslugögn í takt við þarfir nemenda og kennara?

Fundurinn hefur kynnt sér stöðuna á náms- og kennslugögnum í skólakerfinu út frá framboði, aðgengi, gæðum, fjölbreytileika og kostnaði.

Fundurinn telur löngu tímabært að ráðist verði í aðgerðir til að auka framboð á vönduðum og fjölbreyttum náms- og kennslugögnum sem haldast í hendur við markmið um menntun við hæfi og styðja við starf kennara og þróun náms og kennslu.

Fundurinn leggur fast að mennta- og menningarmálaráðherra að hafa forgöngu um þetta í samstarfi við Alþingi, Menntamálastofnun, sveitarfélög, kennarasamtökin og faggreinafélög kennara.

Fundurinn undirstrikar eftirfarandi aðgerðir í þessu skyni:

  • Að náms- og kennslugögn verði nemendum að kostnaðarlausu frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla og í tónlistarskólum til að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag og aðstæðum.
  • Að virkjuð verði heimild í lögum um Menntamálastofnun um gerð og miðlun náms- og kennslugagna fyrir öll skólastig.
  • Að bæta aðgengi nemenda að tölvum og tæknibúnaði í skólunum.
  • Að skattur á bækur verði afnuminn.
  • Að gerð verði úttekt á stöðu náms- og kennslugagna í skólakerfinu og á þörfum nemenda, kennara og skóla fyrir vönduð og fjölbreytt náms- og kennslugögn.
  • Að úttekt verði gerð á Þróunarsjóði námsgagna og Námsgagnasjóði grunnskóla með það að markmiði að sjóðirnir geti sem best sinnt þörfum nemenda, kennara og skóla á öllum skólastigum fyrir vönduð og fjölbreytt náms- og kennslugögn.
  • Að kannaðar verði fyrirmyndir hjá öðrum löndum sem standa framarlega á sviði náms- og kennslugagnagerðar fyrir nemendur og kennara út frá framboði, aðgengi, gæðum, fjölbreytileika og gjaldfrelsi nemenda og foreldra.
  • Að unnið verði að úrbótum á grundvelli ofangreindra úttekta og kannana og stefna sett um útgáfu náms- og kennslugagna fyrir skólakerfið og aðgerðaáætlun með skilgreindum fjárframlögum með áherslu á framboð, aðgengi, gæði, fjölbreytileika og gjaldfrelsi nemenda og foreldra.
  • Að framboð á starfsþróun fyrir kennara verði aukið til að efla þróun náms og kennslu og aðstæður bættar til að sinna starfsþróun á starfstíma skóla og utan. 

Menntamálastofnun gegnir mjög mikilvægu hlutverki í gerð og miðlun náms- og kennslugagna sem alls ekki má rýra. Ríkið þarf að styðja vel við starfsemi stofnunarinnar svo hún geti sem best sinnt þörfum allra skólastiga fyrir vandað og fjölbreytt efni.

 

Ályktun fundarins í pdf. 

Myndbandsupptaka af málþinginu. 

 

 

 

Tengt efni