is / en / dk

15. Ágúst 2017

Stjórn Félags leikskólakennara lýsir yfir þungum áhyggjum af þeim vanda sem blasir við í leikskólum er kemur að því að fá fólk til starfa. Stjórn FL telur þennan vanda djúpstæðan, hann komi upp nánast á hverju hausti. Ljóst sé að samfélagið þurfi að gera betur í að hlúa að leikskólakennurum og auka nýliðun í stéttinni. 

„Nauðsynlegt er að bregðast strax við og vinna markvisst að því að bæta starfsumhverfi í leikskólunum. Það sem skiptir mestu máli er að fækka börnum í hverju rými og á hvern kennara, auka afleysingu, fjölga undirbúningstímum umtalsvert og færa starfsumhverfið nær því sem þekkist á öðrum skólastigum hvað varðar vinnu- og starfstíma. Þessir þættir eru allir líklegir til að bæta starfsumhverfið og vinna gegn álagi og kulnun í starfi,“ segir meðal annars í ályktuninni. 

Ályktun stjórnar Félags leikskólakennara, 15. ágúst 2017, hljóðar svo: 

„Stjórn Félags leikskólakennara hefur þungar áhyggjur af þeim vanda sem margir leikskólar standa nú frammi fyrir, að ekki fæst fólk til starfa í leikskólunum.
Vandinn er djúpstæður og kemur upp nánast á hverju hausti. Rót vandans er sú að það vantar um 1.300 leikskólakennara til að uppfylla lög 87/2008 um menntun og ráðningu kennara sem kveður á um að 2/3 hlutar þeirra sem sinna uppeldi og menntun í leikskólum eigi að hafa leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi. Leikskólar hafa því á hverju hausti þurft að manna stöður leikskólakennara með leiðbeinendum.

Það er ljóst að samfélagið þarf að gera betur til að hlúa að leikskólakennurum og auka nýliðun í stéttinni. Draga þarf úr álagi en í gögnum VIRK eru vísbendingar um að leikskólakennarar búi við áberandi mikið álag í starfi.

Nauðsynlegt er að bregðast strax við og vinna markvisst að því að bæta starfsumhverfi í leikskólunum. Það sem skiptir mestu máli er að fækka börnum í hverju rými og á hvern kennara, auka afleysingu, fjölga undirbúningstímum umtalsvert og færa starfsumhverfið nær því sem þekkist á öðrum skólastigum hvað varðar vinnu- og starfstíma. Þessir þættir eru allir líklegir til að bæta starfsumhverfið og vinna gegn álagi og kulnun í starfi.

Vísbendingar eru í opinberum launagögnum um að grunnlaun leikskólakennara séu að ná meðaltali grunnlauna annarra sérfræðinga sem starfa hjá sveitarfélögunum. Byrjunarlaun nýútskrifaðs leikskólakennara eru nú 465.155 kr. og 490.238 kr. ef viðkomandi sinnir deildarstjórn.

Laun leikskólakennara þurfa og eiga að vera hærri. Það er því miður svo að menntun á Íslandi er almennt ekki metin nægilega vel til launa. Launagögn frá 2015 sýna að ríkið er að greiða sínum sérfræðingum hærri laun en sveitarfélögin og svo er almenni markaðurinn að greiða sínum sérfræðingum hærri laun en ríkið.

Sveitarfélögin þurfa að horfa til framtíðar og vinna að því að finna varanlega lausn á þeim vanda sem þau standa frammi fyrir á hverju hausti. Ef sveitarfélögin eru tilbúin að halda áfram og auka slagkraftinn í að bregðast við vandanum má snúa þessari þróun við og koma í veg fyrir erfiðleika við að ráða fólk til starfa á haustin.“

 

Ályktunin í pdf-formi.
 

 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42