is / en / dk

19. Júní 2017

Ársfundur Félags stjórnenda leikskóla 2017 sendi frá sér ályktun þar sem rekstraraðilar leikskólanna og Samtök atvinnulífsins eru hvött til að huga vel að starfsumhverfi leikskólanna. Í ályktuninni segir meðal annars að nú sé lag til að setja hagsmuni barna efst í forgangsröðina og „gera starfsumhverfi leikskóla öruggt og heilsusamlegt fyrir alla sem þar leika, læra og starfa“. 

Ályktunin hljóðar svo í heild: 

Ársfundur Félags stjórnenda leikskóla 2017 hvetur rekstraraðila leikskóla og Samtök atvinnulífsins til að huga vel að starfsumhverfi leikskólastjórnenda, sem og annars starfsfólks og barna í leikskólum landsins.

Leikskólastjórnendur bera ábyrgð á faglegri og rekstrarlegri starfsemi leikskólans. Til þess að leikskólinn virki sem lærdómssamfélag þarf að búa börnunum, starfsfólki og foreldrum umhverfi þar sem hugað er að andlegri og líkamlegri heilsu.

Veikindi starfsfólks í leikskólum eru samfélaginu dýrkeypt. Leita verður allra leiða til að sem minnstur kostnaður hljótist af veikindum og álagi, sérstaklega af völdum streitu. Vinna þarf markvisst að styttingu vinnuvikunnar, lengra fæðingarorlofi og styttri viðverutíma barna. Þá þarf að stuðla að heilsusamlegra umhverfi; til dæmis með því að börnin séu hæfilega mörg miðað við rými og fjölda starfsmanna.

Vinnudagur leikskólabarna er alltof langur en algengt er að börn dvelji í átta til níu klukkustundir á dag í leikskólanum, í 48 vikur á ári. Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og við þurfum að vinna saman að því að búa ungum börnum og fjölskyldum þeirra streituminna samfélag þar sem foreldrar, mæður og feður, eru aðalumönnunaraðili barna og leikskólinn uppbyggileg viðbót í uppeldi þeirra.

Samtök atvinnulífsins og rekstraraðilar leikskóla eiga það sameiginlegt með Félagi stjórnenda leikskóla að vilja hag barna sem bestan. Nú er lag til þess að setja hagsmuni barna efst í forgangsröðina og gera starfsumhverfi leikskóla öruggt og heilsusamlegt fyrir alla sem þar leika, læra og starfa. 

 

Ársfundur Félags stjórnenda leikskóla fór fram á Hótel Centrum Reykjavík 8. júní 2017. 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42