is / en / dk

16. Júní 2017

Um 62 prósent kennara og starfsfólks í grunn- og leikskólum upplifir hávaða í starfi. Sami hópur telur hljóðvist í skólabyggingum ófullnægjandi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum úttektar Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna og Umhverfisstofnun gerðu í kjölfar þess að Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga sendu erindi þar sem hvatt er samstarfs Vinnueftirlits og Heilbrigðiseftirlits í þessum málaflokki. 

Markmið verkefnisins var að gera almenna úttekt á hávaða í leik- og grunnskólum landsins með því að kanna huglægt mat kennara og starfsfólks á hávaða og hljóðvist í skólabyggingum. Lögð var fyrir spurningakönnun og voru 86 leikskólar og 36 grunnskólar skoðaðir á öllum heilbrigðiseftirlitssvæðum landsins.

Kannað var hvar svarendur í könnuninni telja sig helst verða fyrir óþægindum vegna hávaða eða glymjanda. Um 27 prósent svarenda segjast helst verða fyrir hávaða í kennslustofu eða í deild, um fjórðungur nefndi matsal og um 48 prósent nefndu aðra staði í skólabyggingum.

Fjórðungur svarenda telja hljóðvist í rými ófullnægjandi, annar fjórðungur taldi of mörg börn að jafnaði í sama rými og um fimmtungur sagði börn of hávaðasöm. Vert er að geta þess að yfir 90 prósent kennara eða starfsmanna upplifa að börn heyri vel í sér í samveru eða kennslu.

Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða í leik- og grunnskólum til að draga úr hávaða og segjast 88 prósent þeirra, sem tóku þátt í könnuninni, þekkja til markvissra aðgerða á vinnustað. Að auki sögðust 75 prósent aðspurðra hafa beitt mótvægisaðgerðum til að draga úr hávaða.

„Flestir notuðu virka stýringu barna og bættu hljóðvist til dæmis með því að skipta hópum í minni einingar, kenna notkun inniraddar, fræðslu og agastjórnun. Einnig höfðu mottur og teppi á gólf verið notuð til hljóðdempunar, auk þess sem notast hafði verið við hljóðdempun á stóla,“ segir í skýrslunni.

Könnunin leiðir í ljós að notkun ýmissa tækja og tóla til að auka hljóðvernd er minni en ástæða þykir til. Þannig kemur fram að aðeins 66 prósent hurða eru með pumpu sem dregur úr hávaða og 45 prósent hurða hafa ekki þéttilista.

Fram kemur í skýrslunni að næstu skref séu meðal annars þau að kannað verði hvort fylgja eigi könnuninni eftir með ómtímamælingum á hávaða og einnig að skoðaður verði grundvöllur fyrir breytingum á byggingareglugerð. Þá verði einnig athugað hvort hægt sé að koma betur á framfæri aðgerðum til að bæta hljóðvist, svo sem með gerð tékklista og samantekt aðgerða sem hafa reynst vel.

Skýrslan í pdf-formi.


 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42