is / en / dk

22. Maí 2017

Ákvörðun menntamálaráðuneytis, frá því í september 2015, um að fella einhliða niður styrki til sjálfstæðrar starfsemi faggreinafélaga kennara er harðlega gagnrýnd í ályktun sem fundur framkvæmdastjórnar skólamálaráðs KÍ og faggreinafélaga sendi frá sér 18. maí síðstliðinn. 

Fram kemur í ályktuninni að árlegur styrkur til faggreinafélaganna hafi numið 150 þúsund krónum undanfarin ár. „Þetta er ekki há fjárhæð en hún hefur engu að síður nýst mjög vel til að efla samstarf og faglega starfsemi félaganna,“ segir á ályktun fundarins. 

Þá segir að verkefni félaganna hafi verið fjölmörg og þau hafi alltaf lagt sig fram um að eiga gott samstarf við yfirvöld menntamála um „málefni sem á hverjum tíma þarfnast umræðu, faglegrar rýni og úrvinnslu,“ eins og segir orðrétt í ályktunni. Faggreinafélögin þurfi að hafa fjárhagslegt svigrúm ti að vinna sem gagnrýnir og sjálfstæðir fagaðilar enda feli starf þeirra í sér mikilvægt faglegt framlag til skólastarfs í landinu. 

Fundurinn telur ákvörðun ráðuneytisins lýsa mikilli skammsýni og lagt er fast að menntamálaráðherra að endurskoða ákvörðun um hætta styrkveitingum til sjálfstæðrar starfsemi faggreinafélaga kennara. 

 

Ályktunin í heild:

Fundur Kennarasambands Íslands og faggreinafélaga kennara 18. maí 2017:

Ályktun um ákvörðun menntamálaráðuneytis um að fella niður styrki til sjálfstæðrar starfsemi faggreinafélaga kennara

„Fundur framkvæmdastjórnar skólamálaráðs Kennarasambands Íslands og faggreinafélaga kennara í leikskólum, grunnskólum, tónlistarskólum og framhaldsskólum haldinn 18. maí 2017 í EHÍ gagnrýnir harðlega þá ákvörðun menntamálaráðuneytis að fella einhliða niður styrki til sjálfstæðrar starfsemi faggreinafélaga kennara sem tilkynnt var félögunum í bréfi 15. september 2015.

Ákvörðun um niðurfellingu styrkjanna felur að mati fundarins ekki í sér breytingar á verklagi ráðuneytisins við veitingu þeirra heldur þvert á móti niðurfellingu árlegra styrkja. Fundurinn bendir á með tilvísun til bréfs ráðuneytisins að áform um að óska eftir sérfræðivinnu frá félögunum falla undir samninga um vinnukaup og uppfylla engan veginn þörf þeirra fyrir nauðsynlegt svigrúm til sjálfstæðrar faglegrar starfsemi.

Árlegur styrkur til faggreinafélaga kennara hefur verið 150.000 kr. undanfarin ár. Þetta er ekki há fjárhæð en hún hefur engu að síður nýst mjög vel til að efla samstarf og faglega starfsemi félaganna. Verkefni félaganna eru fjölmörg, fundir, námskeið, fræðsluverkefni af ýmsu tagi, skólaheimsóknir, ráðstefnur, kennsluhættir, námsmat, námsgagnagerð, námskrárvinna, útgáfustarfsemi, evrópskt og norrænt samstarf og síðast en ekki síst eru félögin mjög mikilvægur vettvangur fyrir kennara til að hittast, ræða sameiginleg fagleg mál, skiptast á hugmyndum og deila og miðla reynslu.

Faggreinafélögin hafa alltaf lagt sig fram um að eiga gott samstarf við yfirvöld menntamála um málefni sem á hverjum tíma þarfnast umræðu, faglegrar rýni og úrvinnslu. Faggreinafélögin þurfa á hinn bóginn að hafa fjárhagslegt svigrúm til að vinna sem gagnrýnir og sjálfstæðir fagaðilar. Starf félaganna felur í sér mjög mikilvægt faglegt framlag til skólastarfsins í landinu neðan háskóla.

Fundurinn telur ákvörðun ráðuneytisins lýsa mikilli skammsýni, sem hefur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir sjálfstæða starfsemi félaganna til hins verra.

Fundurinn leggur fast að menntamálaráðherra að endurskoða ákvörðun um að hætta styrkveitingum til sjálfstæðrar starfsemi faggreinafélaga kennara.

Fundurinn hvetur ráðherra til að efna hið fyrsta til viðræðna við Kennarasamband Íslands um árlega styrki til sjálfstæðrar starfsemi faggreinafélaganna.“

 

Ályktunin í pdf. 

 

 

 


 

 

 

 


 

 

 

 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42