is / en / dk

11. Maí 2017

Kennarasamband Íslands, Rauði krossinn, UNICEF á Íslandi, Umboðsmaður barna og Barnaheill hafa sent dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra bréf þar sem þungum áhyggjum er lýst af stöðu barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi. Bréfið var sent ráðherrunum tveimur í lok apríl en þar er bent á að börn sem sækja hér um alþjóðlega vernd njóti sömu mannréttinda og önnur börn hér á landi. Sá réttur sé bundinn í lög sem og í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem íslensk stjórnvöld lögfestu árið 2013.

„Því miður er pottur brotinn hvað varðar ofangreind réttindi barna í hælisleit hér á landi,“ segir í bréfinu. „Sem dæmi má nefna að sum þeirra barna á grunnskólaaldri sem sóttu um vernd síðastliðið ár og enn dvelja hér hafa verið utan skóla í meira en hálft ár á íslandi. Samkvæmt upplýsingum Rauða krossins frá því í mars nutu um 70 börn sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki menntunar af neinu tagi."

Athygli er vakin á að slíkt geti haft haft mikil áhrif á börnin. „Ein afleiðing þess að börn fá ekki notið menntunar við hæfi er hætta á skaðlegu aðgerðaleysi sem getur ekki aðeins haft djúpstæð og neikvæð áhrif á þau börn sem um ræðir heldur einnig foreldra þeirra. Sú staða verður almennt verri eftir því sem lengri tími líður og getur leitt til depurðar, þunglyndis og sálræns álags og jafnvel ofurálags sem getur reynst erfitt viðureignar fyrir börn og foreldra þeirra og skert framtíðarmöguleika þeirra til menntunar og velferðar.“

Stjórnvöld eru í bréfinu hvött til að tryggja réttindi barna í leit að vernd til menntunar óháð aðstæðum foreldra þeirra. „Að mati undirritaðra þurfa hérlend stjórnvöld að tryggja að öll börn í hælisleit njóti réttinda óháð því hvort Útlendingastofnun eða sveitarfélög beri ábyrgð á þjónustu við þau.“

Undir bréfið rita Þórður Á. Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, og Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á íslandi.

Bréfið í heild má finna hér.
 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42