is / en / dk

09. Maí 2017

Ársfundur Félags grunnskólakennara, sem var haldinn á Flúðum dagana 4. og 5. maí 2017, sendi frá sér annars vegar ályktun um kennaraskort og hins vegar um breytingar á lögum um lífeyrissjóði. 

Ríki og sveitarfélög eru hvött til að bregðast við þeim alvarlega kennaraskorti sem blasir við í grunnskólum landsins á næstu árum, verði ekki gripið til aðgerða. Í ályktun ársfundarins segir að jafnvel þótt kennaranemum verði fjölgað margfalt þá dugi það ekki til. „Varað er við fráleitum hugmyndum um styttingu kennaranáms úr fimm árum í þrjú sem lausn á yfirvofandi vanda,“ segir meðal annars í ályktuninni. Þar segir jafnframt að það sé eitt meginverkefni ríkis og sveitarfélaga að tryggja að þeir sem mennta sig til kennslu í grunnskóla haldist í starfi  

„Það þarf ekki margar nefndir til að komast að því til hvaða aðgerða þarf að grípa. Gera þarf laun grunnskólakennara samkeppnishæf við laun annarra sérfræðinga og laga stórlega starfsaðstæður þeirra. Með þessum hætti má snúa við hinni alvarlegu þróun og yfirvofandi kennaraskorti," segir í ályktun ársfundarins. 

Þá sendi ársfundurinn frá sér ályktun þar sem ákvörðun Alþingis um breytingar á lögum um lífeyrissjóði er hörmuð. Þar hafi verið samþykktar lagabreytingar sem séu í andstöðu við samkomulag frá því í september 2016. „Megininntak þess samkomulags var að öll áunnin réttindi sjóðfélaga skyldu að fullu tryggð og að launajöfnun ætti sér stað milli opinbera og almenna markaðarins fyrir samsvarandi störf. Með samþykkt Alþingis er ekki víst að áunnin réttindi séu tryggð að fullu og skorar ársfundurinn á Alþingi að leiðrétta þennan gjörning í samræmi við samkomulag þar um,“ segir í ályktuninni. 

 

Ályktanir ársfundar Félags grunnskólakennara 2017 eru svohljóðandi: 


Bregðast þarf strax við kennaraskorti

Ársfundur Félags grunnskólakennara (FG) hvetur ríki og sveitarfélög til að bregðast strax við þeim alvarlega kennaraskorti sem blasir við í grunnskólum landsins á næstu árum verði ekkert að gert. Fram kemur bæði í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem og nýlegum rannsóknum að sterkar vísbendingar séu um alvarlegan kennaraskort innan fárra ára. Jafnvel þótt kennaranemum muni fjölga margfalt þá dugir það ekki til. Varað er við fráleitum hugmyndum um styttingu kennaranáms úr fimm árum í þrjú sem lausn á yfirvofandi vanda.

Um þessar mundir eru um 10.000 menntaðir grunnskólakennarar á Íslandi. Tæplega helmingur þeirra, um 4.600 grunnskólakennarar, starfa við kennslu í grunnskóla. Hinir starfa víðs vegar í samfélaginu við önnur störf. Langflestir þessara 10.000 menntuðu grunnskólakennara hafa lokið þriggja ára kennaranámi og sú staðreynd hefur ekki orðið til þess að nægur fjöldi þeirra velji kennslu sem ævistarf. Nýliðun meðal grunnskólakennara er lítil, brottfall úr starfi er mikið, meðalaldur hækkar og undanþágum til kennslu fjölgar ár frá ári.

Eitt af meginverkefni ríkis og sveitarfélaga verður að vera að tryggja að þeir sem mennta sig til kennslu í grunnskóla hefji þar störf og haldist í starfi. Eins þarf að laða til starfs þá sem nú þegar hafa réttindi til kennslu, en hafa valið sér annan vettvang, ef ekki á illa að fara. Það þarf ekki margar nefndir til að komast að því til hvaða aðgerða þarf að grípa. Gera þarf laun grunnskólakennara samkeppnishæf við laun annarra sérfræðinga og laga stórlega starfsaðstæður þeirra. Með þessum hætti má snúa við hinni alvarlegu þróun og yfirvofandi kennaraskorti. Málið þolir enga bið.

 

Ákvörðun Alþingis um breytingar á lögum um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna hörmuð

Ársfundur Félags grunnskólakennara (FG) harmar þá ákvörðun Alþingis Íslendinga að samþykkja breytingar á lögum um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna í andstöðu við samkomulag þar um frá því í september 2016. Megininntak þess samkomulags var að öll áunnin réttindi sjóðfélaga skyldu að fullu tryggð og að launajöfnun ætti sér stað milli opinbera og almenna markaðarins fyrir samsvarandi störf. Með samþykkt Alþingis er ekki víst að áunnin réttindi séu tryggð að fullu og skorar ársfundurinn á Alþingi að leiðrétta þennan gjörning í samræmi við samkomulag þar um. 

Ársfundur FG styður stjórn Kennarasambands Íslands heils hugar í að leita til dómstóla, verði þess þörf, til að tryggja að áunnin réttindi skerðist ekki. 
Ársfundurinn kallar jafnframt eftir því að strax hefjist markviss vinna við útfærslu á því með hvaða hætti og á hve löngum tíma launajöfnun milli markaða verði náð. 

 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42