is / en / dk

07. Janúar 2017

Fimmtudaginn 22. desember síðastliðinn sendi samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga frá sér yfirlýsingu um stöðuna í kjaraviðræðum þeirra við Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum. Í yfirlýsingunni (sem sjá má neðst hér í fréttinni) eru ýmsar fullyrðingar sem Kennarasamband Íslands gerir athugasemdir við. Fullyrðingar sambandsins og athugasemdir KÍ eru sem hér segir:

„Hið rétta er að FT hefur ítrekað verið boðinn kjarasamningur sem tryggir tónlistarkennurum sömu grunnlaun“
Þegar Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) talar um „grunnlaun“ í þessu samhengi er vísað í dagvinnulaun ungra byrjenda í kennslu. Dagvinnulaun dæmigerðs 45 ára einstaklings með 15 ára starfsreynslu verða eftir sem áður skv. boði SNS mun lægri við tónlistarkennslu heldur en við kennslu í öðrum skólagerðum.

„...sambærilegum starfsheitum innan annarra kennarafélaga“
Ágreiningur er á milli SNS og FT um hvaða starfsheiti eru sambærileg innan annarra kennarafélaga. FT hefur haldið því fram að störf tónlistarskólakennara séu sambærileg við störf umsjónarkennara í grunnskólum og tekið saman gögn um störfin sem staðfesta það. SNS hefur frekar talið að störf tónlistarskólakennara séu sambærileg við störf grunnskólakennara (án umsjónar). Launamunurinn á milli starfsheitanna í grunnskólunum er nú um 5,5%.

„Staðreyndir málsins eru að grunnlaun tónlistarkennara eru þau sömu og annarra kennara“
Þegar SNS talar um „grunnlaun“ í þessu samhengi er vísað í dagvinnulaun ungra byrjenda í kennslu eins og þau yrðu samkvæmt ítrekuðu boði SNS. Ástæða þess að dagvinnulaun ungra byrjenda yrðu sambærileg (en ekki dagvinnulaun reynslumeiri kennara) er að gert er ráð fyrir því að aldurtengd launaþrep í launatöflu FT falli brott sem kæmi ungum kennurum vel en breytti engu um laun flestra tónlistarskólakennara.

„...en önnur launamyndun innan kjarasamninga kennarafélaganna er mismunandi“
Með „annarri launamyndun“ er hér væntanlega verið að vísa annars vegar til launamyndunar vegna starfsþróunar og hins vegar til launamyndunar vegna framhaldsmenntunar (umfram 3ja ára háskólapróf). Munurinn milli kennarafélaganna hvað varðar starfþróunina kemur einkum fram í því að launamyndunin í tónlistarskólunum er aldurstengd en er meiri og tengd starfsaldri í grunn- og leikskólum. Hvað varðar framhaldsmenntunina kemur munurinn helst fram í mati á 4. og 5. ári framhaldsmenntunar í tónlistarskólum til launa (7. og 8. ár háskólamenntunar) sem ekki er um að ræða í grunn- og leikskólum. Í kjaraviðræðum aðila hefur FT lagt til að skoðaðir verði kostir og gallar á því að samræma frekar á næstu árum þessi atriði í kjarasamningum kennarafélaganna

„Það jafnast þó engu að síður út þar sem meðaldagvinnulaun tónlistarkennara eru hin sömu og í tilfelli grunn- og leikskólakennara. SNS hefur ítrekað lagt fram gögn við samningaborðið sem staðfesta þetta.“
Gögn um meðaldagvinnulaun tónlistarskólakennara hafa ekki verið nægjanlega góð fram til þessa að mati FT. Aðilar hafa hvorki farið sameiginlega yfir slík gögn né komið sér saman um ásættanlega aðferðarfræði við öflun slíkra gagna eða túlkun á niðurstöðunum. Þegar SNS fullyrðir í þessu samhengi að hafa ítrekað lagt fram gögn við samningaborðið er því væntanlega aðeins verið að vísa til einhliða túlkana á niðurstöðum úr launakönnun sem unnin er af öðrum samningsaðilanum.

„Eins og gefur að skilja getur Samband íslenskra sveitarfélaga ekki gert mismunandi kjarasamninga við þessi tvö stéttarfélög sem hefði þær afleiðingar að til yrði óásættanlegur launamunur á milli kennara sem starfa hlið við hlið í tónlistarskólum landsins.“
Staðan er sú að um nokkurra ára bil hefur verið óásættanlegur launamunur milli kennara sem starfa í tónlistarskólum og annarra kennara. Dæmi eru til um kennara sem starfa bæði í tónlistarskóla og grunnskóla hjá sama sveitarfélagi en þiggja ólík laun fyrir svo nemur tugum prósenta. Lögð hafa verið fram gögn við samningaborðið sem staðfesta þetta.

„Staðreyndin er sú að kröfur FT ganga út á það að tónlistarkennarar og stjórnendur innan FT njóti hærri kjara en sambærileg störf innan Félags grunnskólakennara, Félags leikskólakennara og Félags íslenskra hljómlistarmanna.“
Þetta er fjarri því að vera túlkun FT á þeim kröfum sem lagðar hafa verið fram. Kröfur FT hafa miðað að jöfnun launakjara kennara og stjórnenda innan aðildarfélaga KÍ sem semja við sveitarfélögin. Ástæðan fyrir mismunandi túlkun aðila á kröfum FT skýrist væntanlega að einhverju leyti af ólíkum skilningi á því hvað teljist sambærileg störf innan annarra aðildarfélaga KÍ (sbr. lið 2 hér að framan).

„Forysta FT hafnaði nú síðdegis samningstilboði SNS frá því fyrr í dag. SNS harmar að ekki sé hægt að koma réttmætum og löngu tímabærum launahækkunum til þessa eina hóps launþega sem enn er ósamið er við hjá sveitarfélögunum.“
Forysta SNS hafnaði sama dag (22. des. 2016) samningstilboði FT. Allir aðilar hljóta að taka undir harm SNS um að ekki sé hægt að koma á réttmætum og löngu tímabærum launahækkunum til þessa eina hóps launþega sem enn er ósamið við hjá sveitarfélögunum.

 

Yfirlýsing frá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (frá 22. desember)

Því hefur verið haldið fram á opinberum vettvangi af hálfu starfandi formanns Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) beiti aflsmunar til að halda niðri launum tónlistarkennara. Hið rétta er að FT hefur ítrekað verið boðinn kjarasamningur sem tryggir tónlistarkennurum sömu grunnlaun og sambærilegum starfsheitum innan annarra kennarafélaga sem semja við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Staðreyndir málsins eru að grunnlaun tónlistarkennara eru þau sömu og annarra kennara en önnur launamyndun innan kjarasamninga kennarafélaganna er mismunandi. Það jafnast þó engu að síður út þar sem meðaldagvinnulaun tónlistarkennara eru hin sömu og í tilfelli grunn- og leikskólakennara. SNS hefur ítrekað lagt fram gögn við samningaborðið sem staðfesta þetta.

Þá ber að geta þess að Samband íslenskra sveitarfélaga er með kjarasamninga við tvö stéttarfélög tónlistarkennara og stjórnenda í tónlistarskólum. Annarsvegar er um að ræða FT og hinsvegar Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH). Kjarasamingur var gerður við FÍH í febrúar sl. og var hann samþykktur með yfir 92% greiddra atkvæða. Eins og gefur að skilja getur Samband íslenskra sveitarfélaga ekki gert mismunandi kjarasamninga við þessi tvö stéttarfélög sem hefði þær afleiðingar að til yrði óásættanlegur launamunur á milli kennara sem starfa hlið við hlið í tónlistarskólum landsins.

Staðreyndin er sú að kröfur FT ganga út á það að tónlistarkennarar og stjórnendur innan FT njóti hærri kjara en sambærileg störf innan Félags grunnskólakennara, Félags leikskólakennara og Félags íslenskra hljómlistarmanna. Á það getur samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga ekki fallist.

Forysta FT hafnaði nú síðdegis samningstilboði SNS frá því fyrr í dag. SNS harmar að ekki sé hægt að koma réttmætum og löngu tímabærum launahækkunum til þessa eina hóps launþega sem enn er ósamið er við hjá sveitarfélögunum.
 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42