is / en / dk

02. Nóvember 2016

Stjórn og varastjórn Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) spyr í sameiginlegri yfirlýsingu hvort ekki sé mál að linni – en samningar félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga hafa nú verið lausir í heilt ár. Í yfirlýsingunni segir meðal annars að félagsmenn FT fari fram á að menntun, reynslu og sérhæfðum störfum þeirra sé sýnd verðskuldug virðing og að þess sjáist merki í sambærilegum launum og kennarar og stjórnendur annarra skólagerða njóta. Yfirlýsingin í heild er svohljóðandi:

„Tónlistarkennarar og stjórnendur í tónlistarskólum hafa verið samningslausir í heilt ár – er ekki mál að linni? Hvað er það við tónlistarkennarastarfið sem ráðamenn sjá ofsjónum yfir á útborgunardegi en hampa á hátíðum?

Galdraformúlan: Alveg eins „bara öðruvísi"
Kennsla í tónlistarskóla er ekki eins og í öðrum skólagerðum, hún getur ekki orðið það. En starfslýsing kennarahópa, hlutverk, markmið, réttindi og skyldur innibera að efninu til það sama. Allir kennarar eru gerendur í miklu ævintýri, þeir stuðla að þroska og hæfni nemenda – einstaklinga sem munu móta framtíðarlandið.

Menntun tónlistarskólakennara, sem oftar en ekki hefur staðið yfir frá barnsaldri, felur í sér gríðarlega uppsöfnun á sérþekkingu, leikni og hæfni. Kennslusviðið spannar allan aldur og öll námsstig í menntakerfinu – engin önnur kennarastétt kennir þvert á öll skólastig. Í starfinu felst bæði gríðarleg sérhæfing og mikil kennslufræðileg breidd. Tónlistarskólakennarar eru sérfræðingar á sínu sviði – enginn getur komið í þeirra stað.

Það vill stundum gleymast að hljóðfæranám er fullgilt nám sem kennt er af langskólagengnum og metnaðarfullum tónlistarskólakennurum sem drifnir eru áfram af nær óslökkvandi eldmóði. Tónlistarnám er ekki frístundadútl og tónlistarkennarastarfið ekki heldur. Kennt er eftir aðalnámskrá sem gefin er út af menntamálaráðuneytinu og tónlistarnemendur taka samræmd áfangapróf sem sérþjálfaðir prófdómarar frá Prófanefnd tónlistarskóla annast mat á. Þar er hvergi slegið af kröfum, enda eiga íslenskir tónlistarnemar greiða leið inn í tónlistarháskóla út um allan heim. Tónlistarnemandi getur fengið tónlistarnámið metið sem hluta af námi sínu í grunn- og framhaldsskóla, enda mikil ástundun og tímasókn að baki hvers stigs í tónlistarnámi.

„Tónvitið“ verður í askana látið
Uppgangur tónlistarskólanna í landinu þá rúmu öld sem liðin er frá því að fyrsti tónlistarskólinn var stofnaður á Ísafirði 1911 hefur verið ævintýri líkastur og vekur hvarvetna ómælda aðdáun. Hvaða eldur var það sem brann svo heitt í þjóðarsálinni að tónlistin náði að festa hér rætur svo um munaði? Fengu menn fegurðarþrá sinni fullnægt í tónlistinni? Var hún ljósið í grámyglulegum hvunndegi? Þessi samruni tónlistarinnar og þjóðarsálarinnar hefur verið gjöfull, hróður íslenskra tónlistarmanna hefur sjaldan eða aldrei náð meiri hæðum en einmitt nú og ber gæðum tónlistarskólanna fagurt vitni.

Hvað er að og hvað þarf að gera?
Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) missti úr eina samningalotu í tengslum við efnahagshrunið 2008 og krafa stéttarinnar felst í því að það misgengi sem þar átti sér stað verði leiðrétt. Þessu hefur verið erfitt að ná í gegn hjá ráðandi öflum.

Þrátt fyrir mótbyr við samningaborðið undanfarin ár halda tónlistarkennarar og stjórnendur tónlistarskóla tryggð við hugsjónir sínar. Þeir fara fram á að menntun, reynslu og sérhæfðum störfum þeirra sé sýnd verðskuldug virðing og að þess sjáist merki í sambærilegum launum og kennarar og stjórnendur annarra skólagerða njóta.

Tónlistarkennarar og stjórnendur í tónlistarskólum hafa verið samningslausir í heilt ár – er ekki mál að linni? Það er sanngjörn krafa að launaþróun stéttarinnar sé sambærileg launaþróun kolleganna í Kennarasambandi Íslands. Minna má það ekki vera!

Stjórn og varastjórn FT

Sigrún Grendal formaður. Tónlistarkennari í Tónlistarskóla Kópavogs
Dagrún Hjartardóttir, sérfræðingur á skrifstofu FT
Ingunn Ósk Sturludóttir, varaformaður FT, skólastjóri Tónlistarskólans á Ísafirði
Sigríður Aðalsteinsdóttir, skólastjóri, Tónlistarskóla Rangæinga
Þórarinn Stefánsson, tónlistarkennari Tónlistarskóla Eyjafjarðar
Árni Sigurbjarnarson. Skólastjóri Tónlistarskóla Húsavíkur
Vilberg Viggósson, skólastjóri Tónskólans Do Re Mí
Örlygur Benediktsson, tónlistarkennari Tónlistarskóla Árnesinga

 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42