is / en / dk

05. október 2016

Úrslit í smásagnasamkeppni KÍ og Heimilis og skóla voru gerð kunn við hátíðlega athöfn í Kennarahúsinu í morgun.

Þetta er í annað skipti sem Kennarasambandið, í samstarfi við Heimili og skóla, efna til keppni af þessu tagi en tilefnið er Alþjóðadagur kennara sem fagnað er í dag, 5. október.

Þátttaka í smásagnasamkeppninni var mjög góð en tæplega tvö hundruð smásögur bárust frá börnum og ungmennum í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Keppnisflokkarnir voru fimm, einum fleiri en í fyrra, og skiptust svona; leikskólinn, grunnskólinn 1. til 4. bekkur, grunnskólinn 5. til 7. bekkur, grunnskólinn 8. til 10. bekkur og framhaldsskólinn. Án þess á nokkurn sé hallað þá er vert að geta þess að krakkar í 5. til 7. bekk voru langduglegastir að senda inn sögur, og átti þessi hópur nærfellt helming sagnanna.

Verðlaunahafarnir eru þessir:
Leikskólinn
Börnin í Hulduheimum í leikskólanum Fífuborg í Grafarvogi fyrir söguna Mannasaga.

Grunnskólinn (1. til 4. bekkur)
Guðlaugur Heiðar Davíðsson, nemandi í 4. bekk Hamraskóla í Reykjavík, fyrir söguna Kennarabófi.

Grunnskólinn (5. til 7. bekkur)
Eyþór Ingi Brynjarsson, nemandi í 6.–EÓS í Holtaskóla í Reykjanesbæ fyrir söguna Nýi kennarinn í Litlahól.

Grunnskólinn (8. til 10. bekkur)
Guðný Salvör Hannesdóttir, nemandi í 8. bekk Laugalandsskóla í Holtum, fyrir söguna Áhugaverður álfakennari.

Framhaldsskólinn
Bryndís Bolladóttir, nemandi í Borgarholtsskóla, fyrir söguna Hún kenndi mér allt sem ég kann – sigursaga þyrnidansara í þunglyndi.

Verðlaunasögurnar verða birtar í Skólavörðunni. Dómnefnd skipuðu Kristín Ómarsdóttir skáld, Kristján Jóhann Jónsson, dósent á Menntavísindasviði HÍ, og Bryndís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK. Verðlaunahafarnir fengu Kindle-lestölvu auk blóma og viðurkenningarskjals. 

Kennarasambandið og Heimili og skóli óska verðlaunahöfum innilega til hamingju og þakkar um leið öllum þeim sem sendu smásögu í keppnina.

Myndaalbúm frá athöfnni á Facebook. 

 

 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42