is / en / dk

04. Júlí 2016

Yfirskrift Alþjóðadags kennara á þessu ári er: Metum kennara að verðleikum – styrkjum stöðu þeirra. Alþjóðadagur kennara er haldinn hátíðlegur um heim allan 5. október ár hvert. Þessum merkilega degi verður fagnað í 22. skipti á hausti komanda og sem fyrr verða málefni kennarastéttarinnar í brennidepli. 

Í fréttatilkynningu Education International (EI) – Alþjóðasambands kennara – segir að umræða um faglega stöðu kennara og bætt vinnuskilyrði sé afar brýn enda hafi þessum þáttum víða farið aftur á liðnum árum. Að mati EI er ýmislegt sem veldur því að staðan gætin verið mun betri, svo sem faglegu sjálfstæði og akademísku frelsi kennara sé víða ábótavant, brotið sé á samningsbundnum réttindum kennara og sums staðar séu jafnvel mannréttindabrot. Þá skorti oft á að kennarar hljóti nægilega menntun og þjálfun. Þá eru nefnd til bág starfskjör sem fela meðal annars í sér að kennarar eru á lægri launum en sérfræðingar sem státa af sambærilegri háskólamenntun. Hið síðastnefnda þekkist hérlendis en það hefur lengi verið keppikefli KÍ að kennarar njóti sömu kjara og sérfræðingar með sambærilega menntun að baki. 

EI hvetur kennara um allan heim til dáða í þessum efnum enda eigi stéttin að njóta virðingar fyrir störf sín, vinnuumhverfi eigi að vera gott, faglegt sjálfstæði til staðar og ungu fólki eigi að gefast kostur á að stunda hágæða kennaranám. Þá sé mikilvægt að kennarar geti sinnt starfsþróun út starfsævina. „Raddir kennarar þurfa að óma á Alþjóðadegi kennara þannig að stjórnvöld og ráðamenn séu rækilega minntir á skyldur sínar í garð kennara,“ segir í frétt EI. 

Kennarasamband Íslands mun sem fyrr fagna Alþjóðadegi kennara, 5. október. Efnt verður til smásagnasamkeppni í leik-, grunn- og framhaldsskólum um land allt þar sem þemað verður „kennarinn minn“. Samkeppni af þessu tagi fór fram í fyrsta skipti í fyrra og þótti takast afar vel. 

Þá verður efnt til Skólamálaþings KÍ á Alþjóðadegi kennara, 5. október næstkomandi. Á þinginu verður fjallað um faglega forystu kennara og verður aðalfyrirlesari dr. David Frost, prófessor og fræðimaður við Cambridge-háskóla. Skráning á skólamálaþingið ef hafin og hægt er að kynna sér efni þess og dagskrá hér

Kennarasambandið hvetur félagsmenn á öllum skólastigum til að taka þátt í Alþjóðadegi kennara; nota tækifærið og vekja athygli á störfum kennara, efna til viðburða í skólunum og svo framvegis. Myllumerki dagsins er #kennaradagurinn hér á landi en þeir sem vilja blanda sér í alþjóðlega umræðu dagsins geta notað #worldteacherday

 

 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42