is / en / dk

15. Apríl 2016

Ársfundur Kennarasambands Íslands var settur á Grand Hóteli Reykjavík klukkan 10 í morgun. Yfirskrift fundarins er „tökum málin í okkar hendur“ og eru ársfundarfulltrúar um eitt hundrað talsins. 

Þórður Hjaltested, formaður KÍ, setti fundinn formlega. Þórður fór yfir starfsemi Kennarasambandsins á liðnu ári. Hann sagði forystusveit KÍ hafa unnið ötullega að kjarasamningagerð, fræðslumálum, útgáfumálum, skólamálum og samstarfi við opinbera aðila svo sem forsætis-, velferðar-, fjármála- og menntamálaráðuneyti sem og fulltrúa sveitarfélaga. 

„Það verður þó að segjast að samstarf við ráðherra þessarar ríkisstjórnar mætti vera betra. Nefna má sem dæmi að forsætisráðuneyti hefur ítrekað verið sent erindi um að finna þurfi lausn á húsnæðismálum KÍ án þess að við fáum formleg svör, en ríkið setti kvöð í afsal við afhendingu þess til Kennarasambandsins á sínum tíma. Sagt er að málið sé nú statt í fjármálaráðuneyti og hef ég átt samtal við ráðuneytisstjóra þess, sem er meðvitaður um málið en hefur engin svör,“ sagði Þórður meðal annars í ávarpi sínu.

Þórður sagði nokkurn drátt hafa orðið á að aðildarfélög KÍ, sem voru með lausa samninga á síðasta ári, næðu samningum. „Það fyrsta sem nefni og dreg hér fram eru samningar framhaldsskólans og grunnskólans um breytingar á vinnutímaskilgreiningum kennara. Á báðum skólastigum var samið um nýtt kerfi sem kallað er „vinnumat“, en þó sama heiti sé notað og grunnþættir séu svipaðir þá er nálgunin og útfærslan ólík. Við samþykkt þessarar nýju nálgunar fór af stað mikið kynningarferli og var ljóst að sitt sýndist hverjum um ágæti þessa nýja kerfis. Í þessu felst töluverð breyting og öllu breytingaferli getur fylgt óánægja og óöryggi. Mikilvægt er að þessu sé gefinn tími til að þróast og þroskast og fræðin segja okkur að allar stærri breytingar taki minnst þrjú ár að innleiða,“ sagði Þórður.

Þórður sagði niðurstöðu átaka á vinnumarkaði á liðnu ári vera þá að fjölmennustu hópar launamanna í landinu hafi gert kjarasamninga sem gilda út árið 2018. Nefndi hann samninga FL, FSL og SÍ í þessu tilliti.

„Enn er ósamið við FT og er það alvarlegt mál. Mikilvægt er að félagsmenn KÍ í FT njóti launahækkana sem eru í takt við launahækkanir annarra kennara. Ég skora hér á samninganefnd sveitarfélaganna til að koma til móts við kröfur FT þannig að hægt sé að ljúka kjarasamningagerð við félagið hið fyrsta,“ sagði Þórður.

Ársfundurinn stendur til klukkan 16 og hægt er að kynna sér efni fundarins hér og undir myllumerkinu #kennarasamband á Twitter
 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42