is / en / dk

25. Janúar 2016

Dagur leikskólans verður haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í níunda sinn – 5. febrúar næstkomandi. Hinn eiginlegi Dagur leikskólans er reyndar 6. febrúar en á þeim degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Markmið dagins er að beina sjónum að leikskólanum og því kraftmikla starfi sem þar fer fram á degi hverjum.

Viðurkenningin Orðsporið er veitt á Degi leikskólans og hefur svo verið undanliðin þrjú ár. Orðsporið eru hvatningarverðlaun sem veitt er þeim sem þykja hafa skarað fram úr við að efla orðspor leikskólastarfs og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla leikskólabarna.

Ákveðið hefur verið að Orðsporið 2016 verði veitt þeim sem þykir hafa skarað fram úr við að fjölga körlum í hópi leikskólakennara. 

Orðsporið 2016 verður veitt við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís á Degi leikskólans, 5. febrúar 2016 klukkan 13.30.
 

Bestu tónlistarmyndböndin

Veitt verða verðlaun fyrir bestu tónlistarmyndböndin í Bíó Paradís á Degi leikskólans. Tæplega þrjátíu myndbönd bárust í keppnina og kemur það hlut dómnefndar að velja verðlaunahafana. Dómnefndin er skipuð Bibba í Skálmöld, Sölku Sól og Sögu Garðarsdóttur. 

#dagurleikskolans2016

Félagar í FL og FSL eru hvattir til að halda upp á Dag leikskólans með því að brydda upp á einhverju skemmtilegu í sínum leikskóla. Viðburður hefur verið stofnaður á Facebook og er tilvalið að setja inn myndir og fréttir sem tengjast deginum. Myllumerkið #dagurleikskolans2016 notum við á Facebook og Twitter. 

Samstarfshóp um Dag leikskólans skipa fulltrúar Félag stjórnenda leikskóla, Félag leikskólakennara, Samband íslenskra sveitarfélaga, menntamálaráðuneytið og Heimili og skóli – landssamtök foreldra.  

Myndir frá Degi leikskólans 2015. 

Nánar um Orðsporið síðustu ár. 

 

 

 

 

 

Tengt efni