is / en / dk

14. Janúar 2016

Elín Torfadóttir, fyrrverandi formaður Fóstrufélags Íslands, lést á Hrafnistu í Reykjavík laugardaginn 9. janúar síðastliðinn, 88 ára að aldri. Með Elínu er gengin ötul baráttukona í málefnum leikskólans.

Elín fæddist í Reykjavík 22. september 1927. Hún lauk gagnfræðaprófi frá Miðbæjarskólanum og prófi frá Uppeldisskóla Sumargjafar árið 1947. Að námi loknu hóf hún störf á leikskólanum Tjarnarborg. Næstu 20 árin starfaði Elín einnig á leikskólunum Laufásborg, Grænuborg, Hraunkoti og Lindarborg. Hún stundaði nám í leikskólafræðum í Kaupmannahöfn frá 1964-1965 og í Stokkhólmi 1972. Árið 1970 stofnaði hún eigin leikskóla á heimili sínu, Leikskóla Elínar, og rak hann næstu þrjú árin.

Elín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1978 og í kjölfarið lauk hún kennsluréttindanámi frá Kennaraháskólanum. Hún kenndi tjáningu, félags-, uppeldis- og siðfræði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti í fimmtán ár eða þar til hún settist í helgan stein um sjötugsaldur.

Elín tók þátt í félagsstörfum og var í hópi þeirra sem stóðu að stofnun stéttarfélags leikskólakennara árið 1950. Elín var formaður félagsins 1951-1952 og 1955-1958 auk þess að leiða samninganefnd félagsins.

Elín var gift Guðmundi J. Guðmundssyni, formanni verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar, en hann lést árið 1997. Elín og Guðmundur eignuðust fjögur börn.

Elín og Guðmundur voru áberandi í íslensku þjóðlífi. Hún skrifaði margar greinar um uppeldis- og menntamál á ferlinum. Hún var baráttujaxl þegar kom að eflingu leikskólans og leitaði sífellt leiða til að efla starfið. Hún var í hópi þeirra fyrstu sem sáu að gott samstarf við foreldra væri mikilvægt í starfi leikskólans og einnig barðist hún fyrir því að börn fengju að vera í aðlögun fyrstu dagana í leikskóla.

Árið 2004 kom út ævisaga Elínar, Átakadagar, skráð af Kolbrúnu Bergsþórsdóttur.

Útför Elínar verður gerð frá Háteigskirkju fimmtudaginn 21. janúar klukkan 13.
 

Tengt efni