is / en / dk

19. Janúar 2016

Samstarfssamningur milli Kennarasambands Íslands og Listaháskóla Íslands var undirritaður í gær. Samningurinn felur í sér að stofnuð verður nefnd sem hefur samstarf um málefni kennaramenntunar og fagleg málefni sem tengjast störfum félagsmanna KÍ í skólum. Samstarfsnefndin mun leggja sérstaka áherslu á að auka veg og virðingu kennaramenntunar. 

Markmið samstarfsnefndarinnar eru eftirfarandi: 

  • Efla kennaramenntun og kennarastarf. 
  • Að taka þátt í faglegri umræðu um kennaramenntun og kennarastarf á hverum tíma, ræða meðal annars um breytingar á lögum og reglugerðum og skyld mál, fjalla um skipulag og úrbætur og eiga frumkvæði að umræðu um nýjunar. 
  • Að tryggja gagnkvæmt flæði upplýsinga milli KÍ og LHÍ og sinna fræðslu- og kynningaverkefnum er þessu tengjast. 

KÍ og LHÍ skipa hvor um sig tvo fulltrúa í nefndina og er henni ætlað að koma saman eigi sjaldnar en tvisvar á misseri. 

Sigrún Grendal, formaður FT, segir ánægjulegt að samstarf KÍ og LHÍ sé nú formgert með þessum hætti. „Stærsta sameiginlega hagsmunamálið, meistaranám hljóðfæra- og söngkennara, hefur verið sem rauður þráður í samstarfi aðila mörg undanfarin ár og ég vona að samstarfssamningurinn megi verða til þess að betur takist til við að fá stuðning menntayfirvalda við þetta brýna málefni tónlistarkennara og stjórnenda,“ segir Sigrún.

Þær Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður KÍ, og Sigrún Grendal, formaður FT undirrituðu samkomulagið fyrir hönd Kennarasambandsins og þau Kristín Valsdóttir og Tryggvi M. Baldvinsson, deildarforsetar listkennslu- og tónlistardeildar, fyrir hönd Listaháskólans. 

 

 

Tengt efni