is / en / dk

14. Janúar 2016

Frestur til að skila myndböndum í samkeppnina um besta tónlistarmyndbandið hefur verið framlengdur til klukkan 16 þriðjudaginn 20. janúar næstkomandi. 

Tónlistarmyndbandakeppnin er liður í hátíðarhöldum á Degi leikskólans 5. febrúar 2016. Markmið keppninnar er að vekja athygli á starfi leikskólanna um allt land. Efnisval er frjálst en myndband má þó ekki vera lengra en sem nemur þremur mínútum. 

Það er einfalt að senda myndböndin inn – best er að hlaða þeim upp á Vimeo eða YouTube en gæta verður þess að hafa aðganginn læstan og senda síðan tölvupóst með upplýsingum um sendanda, slóð og aðgangsorði. Einnig er hægt að senda myndband sem Mp4-skrá til KÍ og eða koma myndbandinu á minnislykli í Kennarahúsið. Netfangið er utgafa@ki.is

Vegleg verðlaun frá Krumma.is

Veitt verða þrenn verðlaun og mun dómnefndin, sem er skipuð þeim Bibba í Skálmöld, Sögu Garðarsdóttur og Sölku Sól, velja úr innsendum myndböndum. Verðlaunin eru glæsileg og koma öll frá hinu rótgróna leikfangafyrirtæki Krumma.is

1. verðlaun – besta myndbandið
Ljósakubbur frá Roylco sem eykur skemmtun og glæðir kennsluna ævintýrablæ. 

2. verðlaun – frumlegasta myndbandið
LEGO story tales kubbar – kennslugögn í DUPLO ásamt kennslu fyrir leikskólakennara. 

3. verðlaun – skemmtilegasta myndbandið
Hljóðaspil – Lottó. Kennslugagn eftir Guðrúnu Sigursteinsdóttur sem kemur út á Degi leikskólans. 

Verðlaunamyndböndin verða sýnd í Bíó Paradís á Degi leikskólans. Félagar í FL og FSL eru hvattir til að taka þátt í keppninni. 

 

 


 

Tengt efni