is / en / dk

05. október 2015

Verðlaun fyrir bestu sögurnar í Smásagnasamkeppni Kennarasambandsins og Heimilis og skóla voru veitt við hátíðlega athöfn í Kennarahúsinu um hádegisbil í dag, á Alþjóðadegi kennara.

Þetta er í fyrsta skipti sem efnt er til smásagnasamkeppni af þessu tagi en tilefnið er Alþjóðadagur kennara sem fagnað er 5. október ár hvert. Þátttaka í smásagnasamkeppninni var góð en um 140 smásögur bárust frá nemendum. Keppnisflokkar voru fjórir; leikskólinn, grunnskólinn – 1. til 6. bekkur, grunnskólinn 7. til 10. bekkur og framhaldsskólinn. Þemað að þessi sinni var „kennarinn“.

Verðlaunahafarnir eru þessir:

Leikskólinn

  • Kjartan Kurt Gunnarsson, nemandi í leikskólanum Barnabóli á Þórshöfn, fyrir söguna Kennari minn.

Grunnskólinn (yngri hópur)

  • Ásdís Einarsdóttir, nemandi í Öxarfjarðarskóla, fyrir söguna Kennaradraugarnir.

Grunnskólinn (eldri hópur)

  • Marta Ellertsdóttir, nemandi í Garðaskóla, fyrir söguna Emelía og kennarinn.

Framhaldsskólinn

  • Dagný Gréta Hermannsdóttir, nemandi í Menntaskólanum í Kópavogi, fyrir söguna Bananabrauð.

Verðlaunasögurnar verða birtar í Skólavörðunni. Dómnefnd var skipuð Brynhildi Þórarinsdóttur, rithöfundur og dósent, Kristján Jóhann Jónsson, dósent á Menntavísindasviði HÍ, og Bryndís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK.

Verðlaunahafarnir fengu vandaða lestölvu frá BeBook og rafbók að eigin vali. 

Kennarasambandið og Heimili og skóli óskar verðlaunahöfunum til hamingju og þakkar um leið öllum sem sendu inn smásögu. 

 

Þórður Hjaltested, formaður KÍ, afhendir Kjartani Kurt Gunnarssyni verðlaun fyrir bestu smásöguna í leikskólaflokknum. Kjartan Kurt er fjögurra ára. 
 
Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og formaður dómnefndar, ávarpaði samkomuna og sagði störf dómnefndar hafa verið ánægjuleg enda mikið af góðum sögum sem bárust. 
 
Krakkar sem kunna að segja sögur; Marta Ellertsdóttir, Ásdís Einarsdóttir, Kjartan Kurt Gunnarsson og Dagný Gréta Hermannsdóttir. Þau fengu vandaða lestölvu frá BeBook í verðlaun. 
 
Úrslitin gerð kunn í Kennarahúsinu á Alþjóðadegi kennara. Formaður dómnefndar, Brynhildur Þórarinsdóttir, las upp nöfn þeirra sem báru sigur úr býtum í Smásagnasamkeppni KÍ og Heimilis og skóla. 
 
 

 

Tengt efni