is / en / dk

31. Ágúst 2015

Eftirfarandi ályktun var samþykkt 28. ágúst 2015:

Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík tekur undir gagnrýni sem fram hefur komið og varða breyttar forsendur vinnumats framhaldsskólakennara.

Á vefsíðu verkefnisstjórnar um vinnumat [sett inn 21. ág. 2015; sótt 27. ág. 2015] er breytingin orðuð svo: „Í ljós hefur komið skekkja við útreikning á 20% álagi fyrir 29. og 30. nemandann í námshópi með 25 nemenda fjöldaviðmið skv. reiknilíkani (samanber bls. 4 í skýrslu verkefnisstjórnar frá 4. feb. 2015). Einnig ofreiknaðist álagið vegna nemenda umfram hámarksviðmið í hópum t.d. fyrir nemendur umfram 30. Villan felst í því að reikniverkið bætti í flestum tilvikum 2,5 klukkustundum aukalega við vinnumatið vegna hvers umframnemanda.“

Villur þessar hafa verið frá fyrstu kynningu vinnumats og þar með í þeirri útgáfu sem notuð var til grundvallar fyrir kosningu um það. Kennarar litu til þeirrar gerðar sem í gildi var er þeir greiddu atkvæði 13. og 14 apríl síðast liðinn. Mun það hafa veið 8. útgáfa reikniverksins en nú er verið að sýsla með 12 útgáfu.

Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík bendir á að það stangast á við grundvallarhugmyndir lýðræðis að breyta orðalagi samninga sem þegar hafa verið samþykktir í almennri kosningu, óháð því hverjum þær eru til hagsbóta. Með minnstu breytingu á vinnumati framhaldsskólakennara eru forsendur brostnar fyrir innleiðingu þess og kjósa verður að nýju.

Tengt efni