is / en / dk

27. Ágúst 2015

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi formanna svæðafélaga innan Skólastjórafélags Íslands 7. ágúst.

Nú við upphaf nýs skólaárs lýsir fundur formanna allra svæðafélaga innan Skólastjórafélags Íslands yfir þungum áhyggjum af stöðunni í samningaviðræðum félagsins við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þrátt fyrir að viðræður hafi staðið yfir frá hausti 2014 hefur ekki náðst að setja saman nýjan kjarasamning fyrir félagsmenn í Skólastjórafélagi Íslands.

Með nýjum samningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara urðu umtalsverðar breytingar á launum og starfsumhverfi grunnskólakennara. Sá samningur er þannig úr garði gerður að í sumum tilvikum eru kennarar nú með hærri grunnlaun en skólastjórnendur sem ætlað er að innleiða og stýra nýju starfsumhverfi kennara. Það er með öllu óásættanlegt og verður að leiðrétta.

Þetta ásamt fjölmörgum öðrum breytingum sem orðið hafa á starfsumhverfi skólastjórnenda á síðustu árum kallar á að komið verði til móts við kröfur SÍ um launahækkanir svo laun þeirra endurspegli aukið álag og kröfur um ábyrgð sem fylgir störfum þeirra.
Mikilvægt er að gengið verði strax til samninga við skólastjórnendur þannig að þeir geti einbeitt sér að því að byggja upp faglegt og árangursríkt skólastarf.
 

Tengt efni