is / en / dk

26. Ágúst 2015

Skólaþing er kennsluver Alþingis um löggjafarstarfið ætlað nemendum í 8.–10. bekk grunnskóla. Þar gefst nemendum kostur á að kynnast starfsháttum Alþingis af eigin raun með því að bregða sér í hlutverk þingmanna og taka fyrir mál á þingflokks-, nefndar- og þingfundum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá upplýsinga- og útgáfusviði Alþingis. Þar segir ennfremur að  níunda starfsár Skólaþings sé nú að hefjast.

"Frá því það tók til starfa í nóvember 2007 hafa liðlega 11 þúsund nemendur heimsótt það, flestir úr 10. bekk. Kennarar og nemendur hafa lýst Skólaþinginu sem fræðandi og skemmtilegu. Skólaþing er til húsa við Austurvöll, Austurstræti 8–10. Heimsókn í Skólaþing tekur tvær og hálfa til þrjár klukkustundir og miðað er við að einn bekkur taki þátt í leiknum í einu, 12 til 32 nemendur. Ekkert gjald er tekið fyrir heimsóknina. Nánari upplýsingar um Skólaþing er að finna á vefsíðunni www.skolathing.is. Kennarar eru hvattir til að bóka heimsókn í tíma. Tekið er við bókunum og fyrirspurnum svarað í síma 563 0500 eða á netfangið skolathing@skolathing.is" segir að lokum í tilkynningu upplýsinga- og útgáfusviðs Alþingis. 

Tengt efni