is / en / dk

08. Júlí 2015

Þarftu á innblæstri að halda? Vantar þig nýjar hugmyndir og kraft í starf þitt sem kórstjóri?

Dagana 19. og 20. ágúst verður haldið námskeið í skapandi kórstjórnun á sal Nýja Tónlistarskólans í Reykjavík. Kennd verða ýmis ferli sem gera kórstjórum kleift að stýra skapandi ferlum með kórum, (sem endað geta með nýjum verkum) sem í kjölfarið mun styrkja samhljóm, samskipti og traust kórmeðlima og stjórnanda.

Kórstjórar læra leiðir til að stýra samstilltu skapandi ferli sem henta stórum sem smáum kórum, skipuðum ungum sem öldnum!! Ekki er um að ræða 'aðferð' heldur frekar 'nálgun' sem ekki er bundin við ákveðinn tónlistarstíl né aldur þátttakenda.

Námskeiðið hentar jafnt þeim sem starfa með barnakórum sem og þeim sem starfa með áhugamannakórum og getur einnig verið mjög áhugavert fyrir kennara sem vinna með söng í sínu starfi t.d. við tónmenntakennslu í grunnskólum, með forskólum eða við tónfræðikennslu.

Leiðbeinandi verður Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths sem rekur Mastersdeild við Guildhall School of Music and Drama, undir nafninu Masters in Leadership.

Námskeiðið fer fram eftirfarandi tvö kvöld:

 

  • Miðvikudaginn 19. ágúst kl. 19.00 til 22.00
  • Fimmtudaginn 20. ágúst kl. 19.00 til 22.00


Námskeiðsgjald er kr. 15.000 og fæst gjaldið endurgreitt frá endurmenntunarsjóðum stéttarfélaga. 

Skráning fer fram á tölvupósti á netfanginu sigrunsae@yahoo.co.uk

Áhugasamir eru hvattir til að tryggja sér pláss hið fyrsta þar sem fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

 

Nánar um Sigrúnu

Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths útskrifaðist úr blásarakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavik vorið 1997. Þaðan lá leið hennar til London þar sem hún stundaði nám við Guildhall School of Music and Drama. Fyrsta árið nam hún básúnuleik hjá Eric Creese en þá tók við Postgraduate nám í Skapandi Tónlistarmiðlun. Hún útskrifaðist árið 2000 og hefur síðan þá stýrt skapandi tónlistarferlum og kennt vinnuaðferðir tengdu sínu fagi bæði starfandi hljóðfæraleikurum og kennurum í Englandi, sem og víða um Evrópu og í Asíu.

Á sjálfstæðum ferli sínum sem stjórnandi skapandi ferla hefur Sigrún starfað fyrir sinfóníuhljómsveitir á borð við Royal Philharmonic Orchestra, London Symphony Orchestra, Britten Symphonia, London Sinfonietta, Philharmonia Orchestra og aðrar listastofnanir s.s. Bath International Music Festival, The Southbank Centre, English National Ballet, BBC, ITV og Listahátíð í Reykjavik.

Sigrún hefur haldið fyrirlestra fyrir nemendur Kobe Collage og Tokyo Collage of Music og var í vetur boðið að halda erindi á ráðstefnu The European Music Council í Varsjá, Póllandi. Sigrún kennir árlega Skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands.

Sigrún hefur undanfarin 6 ár stýrt Mastersdeild í sínu fagi við Guildhall School of Music and Drama sem ber nafnið Master in Leadership, auk þess sem hún kennir á „undergraduate“ og „postgraduate“ stigum við skólann innan annarra deilda.

Sigrún er einn stofnenda og frumkvöðla Guildhall Connect sem er hið margrómaða samfélagsverkefni Guildhall skólans en verkefni þetta vann til The Queen´s Anniversary Award árið 2005.   

Tengt efni