is / en / dk

03. Júlí 2015

Þörf er á auknum fjárframlögum í gerð náms- og kennslugagna og aðgerðir til að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi að mati Kennarasambandsins.

Námsgagnasjóður, Þróunarsjóður námsgagna og Sprotasjóður rísa ekki undir hlutverkum sínum þar sem fjárveitingar fylgdu ekki í samræmi við markmið og vegna niðurskurðar í kjölfar hrunsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu Kennarasambandsins á markmiðum menntastefnu um réttindi og velferð nemenda, kennsluhætti og námsumhverfi. Þar segir ennfremur að frá því að Sprotasjóður og Þróunarsjóður námsgagna tóku til starfa hefur árleg heildarupphæð umsókna í þá verið margfalt hærri en úthlutunarfé sjóðanna.

Ljóst er af umsóknafjölda að svörun stjórnvalda hefur engan veginn verið í samræmi við aðsókn í sjóðina. Fjárframlög til Þróunarsjóðs námsgagna og til Námsgagnasjóðs voru skorin niður árið 2011 og áður höfðu fjárframlög til Námsgagnasjóðs verið skorin niður um helming árið 2009. Grunnskólar nota úthlutanir úr Námsgagnasjóði að stærstum hluta til að kaupa kennslubækur og áskriftir að ýmsum vefsíðum og vefsvæðum. Upplýsingar um sjóðina sýna að mikil þörf er á stórauknum fjárframlögum stjórnvalda í raunverulegar aðgerðir á sviði náms- og kennslugagna og aðgerðir til að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi á öllum skólastigum.

Námsgagnasjóður
Greiðsla frá Námsgagnasjóði fyrir hvern grunnskóla innt af hendi til rekstraraðila þeirra hvert ár og tekur greiðsla fyrir hvern skóla mið af fjölda skráðra nemenda í hverjum grunnskóla skólaárið á undan. Grunnskólar nota úthlutanir úr Námsgagnasjóði að stærstum hluta til að kaupa kennslubækur og áskriftir að ýmsum vefsíðum. Fjárframlög til Námsgagnasjóðs voru skorin niður um helming árið 2009 í kjölfar efnahagshrunsins og aftur um 33% árið 2011. Árið 2013 voru 168 grunnskólar starfræktir í landinu, þar af voru 158 grunnskólar á vegum sveitarfélaga, um 35% grunnskóla voru með frá 151–450 nemendur árið 2013, og 32% grunnskóla höfðu 100 nemendur eða færri

Námsgagnasjóður
Ár Framlag í milljónir króna
2007 100
2008 100
2009 50
2010 60
2011 40
2012 40
2013 40
2014 54

 

Þróunarsjóður námsgagna og Sprotasjóður

Frá stofnun Þróunarsjóðs námsgagna og Sprotasjóðs hefur árleg heildarupphæð umsókna verið margfalt hærri en úthlutunarfé sjóðanna. Ljóst er af umsóknafjölda að svörun stjórnvalda hefur engan veginn verið í samræmi við aðsókn í sjóðina.

Þróunarsjóður námsgagna
Ár Fjöldi umsókna Heildarupphæð sem
sótt var um
Úthlutunarupphæð Fjöldi
verkefna
2008 131 159 milljónir króna 56,3 milljónir króna 66
2009 134 200 milljónir króna 61,44 milljónir króna 56
2010 175 254 milljónir króna 66,38 milljónir króna 79
2011 150 125 milljónir króna 40,26 milljónir króna 64
2012 140 123 milljónir króna 44,45 milljónir króna 47
2013 144 190 milljónir króna 43,84 milljónir króna 35
2014 162 216 milljónir króna 48,08 milljónir króna 38
2015 124 164 milljónir króna 48,34 milljónir króna 35

 

Sprotasjóður
Ár Fjöldi umsókna Heildarupphæð sem
sótt var um
Úthlutunarupphæð Fjöldi
verkefna
2009 143 250 milljónir króna 44 milljónir króna 44
2010 128 252 milljónir króna 44,78 milljónir króna 47
2011 127 305 milljónir króna 44 milljónir króna 34
2012 189 400 milljónir króna 43 milljónir króna 46
2013 115 227 milljónir króna 45 milljónir króna 40
2014 124 259 milljónir króna 50 milljónir króna 37
2015 172 360 milljónir króna 49 milljónir króna 45

 

Nánar um sjóðina:

  • Þróunarsjóður námsgagna starfar samkvæmt lögum um námsgögn nr. 71/2007 og reglugerð um sjóðinn nr. 1268/2007. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsgagna fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla til að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla.
  • Sprotasjóður er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrár, samkvæmt 15. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla, 34. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og 53. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Kveðið er á um hlutverk sjóðsins í reglugerð nr. 242/2009.
  • Námsgagnasjóður hefur það hlutverk að leggja grunnskólum til viðbótarfé til námsgagnakaupa samkvæmt lögum um námsgögn nr. 71/2007 og reglugerð um sjóðinn nr. 1111/2007. Með tilkomu sjóðsins er grunnskólum tryggt aukið svigrúm til námsgagnakaupa til viðbótar við úrval Námsgagnastofnunar.

 

 

Tengt efni