is / en / dk

02. Júlí 2015

Fyrir sjö árum voru stigin mikilvæg skref við að samhæfa skólastarf með sameiginlegri menntastefnu sem hefur börn og ungmenni í forgrunni, nám þeirra, þroska, skólagöngu, hagsmuni, velferð og réttindi.
Niðurstöður greiningar Kennarasambandsins á markmiðum menntastefnu um réttindi og velferð nemenda, kennsluhætti og námsumhverfi og hvernig gangi að nýta innra og ytra mat sem umbóta- og þróunaraðferð í skólastarfi gefa til kynna að hægt miði.

Helstu niðurstöður greinargerðarinnar (sem finna má í heild hér) eru þessar:

1. Réttarstaða nemenda
Niðurstöður gefa meðal annars til kynna að auka þurfi áhrif barna og ungmenna á námið, viðfangsefni og skólastarf og að vinna þurfi í sérkennslumálum, málefnum barna og ungmenna með sérþarfir og náms- og starfsráðgjöf.

2. Námskrárbreytingar
Niðurstöður gefa til kynna að breitt bil sé á milli markmiða menntastefnu um kennsluhætti og námsaðstæður barna og ungmenna og veruleikans í skólastarfinu. Einnig kemur fram að nýta þurfi í auknum mæli nýja miðla í námi og kennslu. Jafnframt er bent á að leita þurfi leiða til að fjölga leikskólakennurum, en könnun ráðuneytis á framkvæmd leikskólalaga sýnir að tæplega fjórðungur leikskóla uppfyllir ákvæði laganna um að 2/3 starfsmanna skuli hafa leyfisbréf til kennslu í leikskóla, og að algengast er að hlutfall starfsmanna með leyfisbréf sé 21-35%.

3. Innra mat
Niðurstöður gefa til kynna að innra mat sem umbótaaðferð í skólastarfi þurfi að efla með þátttöku allra aðila skólasamfélagsins, skilgreina betur mælikvarða, efla kynningu og mat á niðurstöðum og eftirfylgni með þeim

4. Eftirfylgni
Í lögum skólastiganna segir að ráðuneyti og sveitarfélög fylgi eftir innra og ytra mati þannig að slíkt mat leiði til umbóta í skólastarfi. Í samræðum framkvæmdastjórnar skólamálaráðs KÍ við sérfræðinga um mat og úttektir kom fram að stuðning vanti frá ráðuneyti og sveitarfélögum við skóla og kennara til að fylgja eftir niðurstöðum í umbóta- og þróunarstarfi. Eftirfylgni þarf að felast í stuðningi, fræðslu og ráðgjöf við skóla og kennara og vera hvati til frekari skólaþróunar.

5. Mat KÍ á framkvæmd innleiðingar
Kennarasamband Íslands metur framkvæmd innleiðingar menntamálaráðuneytis á áætlun um innleiðingu skólastarfsbreytinga samkvæmt aðalnámskrám skólastiganna þannig að hún hafi einkum falist í útgáfu á ýmis konar efni, svo sem námskrám, þemaheftum, kynningarefni, efni á vef, gerð viðmiða og kerfa en mun síður í stuðningi við skóla og kennara við að innleiða breytingar í skólastarfinu. Skoðun KÍ á námskeiðinu „Leiðtogi í heimabyggð“ sem ráðuneytið hélt á vorönn 2013 um áherslur í stefnumótun í skólanámskrárgerð er að það hafi farið of seint af stað og að meiri eftirfylgni hefði þurft að koma frá ráðuneytinu í kjölfarið til að byggja upp samfélag leiðtoga á svæðum og stuðning við þá.

6. Fjármagn til skólastarfs
Kreppan í kjölfar hrunsins 2008 hafði víðtæk áhrif á skólastarfið sem engan veginn eru gengin til baka. Námsgagnasjóður, Þróunarsjóður námsgagna og Sprotasjóður rísa ekki undir hlutverkum sínum þar sem fjárveitingar fylgdu ekki í samræmi við markmið og vegna niðurskurðar í kjölfar hrunsins. Frá því að Sprotasjóður og Þróunarsjóður námsgagna tóku til starfa hefur árleg heildarupphæð umsókna í þá verið margfalt hærri en úthlutunarfé sjóðanna. Ljóst er af umsóknafjölda að svörun stjórnvalda hefur engan veginn verið í samræmi við aðsókn í sjóðina. Fjárframlög til Þróunarsjóðs námsgagna og til Námsgagnasjóðs voru skorin niður árið 2011 og áður höfðu fjárframlög til Námsgagnasjóðs verið skorin niður um helming árið 2009. Grunnskólar nota úthlutanir úr Námsgagnasjóði að stærstum hluta til að kaupa kennslubækur og áskriftir að ýmsum vefsíðum og vefsvæðum. Upplýsingar um sjóðina sýna að mikil þörf er á stórauknum fjárframlögum stjórnvalda í raunverulegar aðgerðir á sviði náms- og kennslugagna og aðgerðir til að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi á öllum skólastigum.

Tengt efni