is / en / dk

Félagsmenn bera mikið traust til KÍ

Meirihluti félagsmanna í Kennarasambandi Íslands er ánægður með þjónustu starfsmanna KÍ. Þá bera félagar í KÍ mikið traust til sambandsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum viðhorfskönnunar sem Capacent gerði fyrir KÍ í nóvember og desember á síðasta ári.

Fyrstu drög að niðurstöðum könnunarinnar liggja nú fyrir og verður fjallað um fáeina þætti hennar hér á eftir, en heildarniðurstöður hennar verða birtar félagsmönnum á næstu vikum. Enn fremur munu stjórn og starfsmenn KÍ fara yfir könnunina á næstu vikum auk þess sem niðurstöðurnar verða ræddar á ársfundi sambandsins í apríl næstkomandi.

Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, segir gerð könnunarinnar í samræmi við samþykkt frá sjötta þingi KÍ sem fram fór í apríl 2014.

„Heilt yfir er ég ánægður með niðurstöður, en það má alltaf gera betur. Það sem ég er ánægðastur með er hversu vel félagsmenn treysta KÍ og starfsmönnum þess. Það á eftir að rýna betur í niðurstöður og fara yfir með starfsmönnum KÍ með það að markmiði að bæta þjónustu,“ segir Þórður Hjaltested.

Um var að ræða netkönnun sem var send 1.474 manna lagskiptu tilviljunarúrtaki úr félagaskrá Kennarasambandsins. Þátttökuhlutfall í könnuninni var 60,9%, 897 tóku þátt en 577 svöruðu ekki. Síðast var gerð svipuð könnun árið 2006.

Mikil ánægja með þjónustu KÍ 

Alls segjast 60,5 prósent svarenda ánægð þegar eftirfarandi spurning var lögð fyrir: Á heildina litið ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með þjónustu Kennarasambands Íslands? í þessum hópi segjast 12 prósent mjög ánægð og 48 prósent frekar ánægð. Mjög ónægð eru 4 prósent og 7 prósent frekar óánægð.

Þeir sem segjast ánægðir með þjónustu KÍ eru ívið fleiri en í síðustu viðhorfskönnun frá árinu 2006 þegar 55 prósent svarenda sögðust ánægð.

Þegar svörin eru greind frekar kemur í ljós að þeir sem hafa haft mest samskipti við Kennarasambandið eru ánægðastir. Alls eru 76 prósent þeirra sem hafa haft mikil samskipti við sambandið á síðustu tólf mánuðum ánægðir með þjónustuna. Meirihluti þeirra sem hafa haft lítil samskipti við KÍ eru ánægð, eða 54 prósent, en ef svör þeirra sem engin samskipti hafa haft þá eru aðeins 40 prósent ánægð. 

Meirihluti sáttur við hagsmunagæslu í réttindamálum

Rúmlega helmingur félagsmanna KÍ er ánægður með hagsmunagæslu í réttindamálum, eða 53,7 prósent. Alls svara 27 prósent spurningunni með „hvorki né“ og 19,3 prósent eru ónægð með hagsmunagæsluna.

Ánægjan er minni nú en í könnuninni frá 2006, en þá sögðust 70 prósent vera ánægð með hagsmunagæslu í réttindamálum. Í fyrri könnun kváðust 23 prósent vera mjög ánægð með hagsmunagæslu í réttindamálum en nú eru 15 prósent mjög ánægð. Eins og í spurningunni um þjónustu KÍ, sem getið er hér á undan, ríkir mest ánægja hjá þeim sem mest samskipti hafa haft við starfsfólk Kennarasambandsins. Af þeim sem hafa haft mikil samskipti við KÍ eru 76 prósent mjög ánægð eða frekar ánægð með hagsmunagæsluna.

 

 

 

 

 

Treysta þjónustu KÍ

Áreiðanleiki í þjónustu Kennarasambandsins var meðal þess sem svarendur í könnuninni voru beðnir að meta. Spurningin hljóðaði svo: Á heildina litið, hversu áreiðanlega eða óáreiðanlega telur þú þjónustu Kennarasambands Íslands vera? Í skýringu með spurningunni er bent á að með „áreiðanleika“ sé átt við hvort félagsmenn telji sig alltaf fá réttar upplýsingar hjá KÍ.

Niðurstöðurnar leiða í ljós að félagsmenn KÍ bera mikið traust til þjónustu KÍ en alls telja 83,9 prósent þjónustuna áreiðanlega; og þar af segja 28 prósent hana mjög áreiðanlega og 56 prósent frekar áreiðanlega. „Hvorki né“ er svar 12 prósenta þátttakenda og 4,1 prósent telja þjónustuna óáreiðanlega.

Þeir sem lesa eru ánægðir

Meirihluti félagsmanna Kennarasambandsins er ánægður með Skólavörðuna, tímarit Kennarasambandsins. Spurt var hvort viðkomandi væri ánægður eða óánægður með Skólavörðuna. Alls sögðust 52 prósent aðspurðra vera ánægðir með Skólavörðuna, en 42,2 prósent svöruðu með „hvorki né“ og 5,6 prósent lýstu yfir óánægju með blaðið. Mun fleiri voru ánægðir með Skólavörðuna þegar niðurstöður könnunarinnar frá 2006 eru skoðaðar, en þá sögðust 72 prósent þátttakenda vera ánægð með blaðið.

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar með tilliti til þess hvernig lestri félagsmanna á Skólavörðunni er háttað kemur í ljós að þeir sem lesa blaðið „alltaf eða oftast“ eru ánægðastir. Þannig segjast 83 prósent þeirra sem lesa Skólavörðuna „alltaf eða oftast“ vera ánægðir með blaðið.

Aðalbjörn Sigurðsson, útgáfu- og kynningarstjóri KÍ, segir að það séu óneitanlega vonbrigði hversu ánægjan með Skólavörðuna hafi minnkað frá árinu 2006.

„Það vekur athygli að þeir sem lesa blaðið eru ánægðir, sem ég túlka þannig að ritstjórnarlega séum við á réttri leið. Þeir sem ekki lesa eru ósáttir sem þýðir að óánægjan snýst um form en ekki innihald. Um það leyti sem fyrri könnun var gerð kom Skólavarðan út allt að átta sinnum á ári og var dreift mun víðar en í dag. Blöðunum fækkaði niður í tvö árið 2011 sem hefur ugglaust haft áhrif á lestur og ánægju. Við vorum síðan í haust að byrja útgáfu á nýju formi, þar sem blaðið er gefið út rafrænt og mun þéttar en áður. Það er ekki komin reynsla á það form ennþá en við þurfum greinilega að gera nýja könnun innan fárra missera og sjá hvar við stöndum og meta framhaldið út frá því. Við viljum þjónusta félagsmenn sem best og ef við metum það sem svo að með því að breyta útgáfunni batni þjónustan, þá gerum við breytingar. Það stendur þó ekki til strax,“ segir Aðalbjörn Sigurðsson. 

 

Þessi grein birtist í Skólavörðunni, tímariti Kennarasambands Íslands. Lestu blaðið í heild:

Skólavarðan á Apple-Store Skólavarðan á Google Play Skólavarðan á netinu

 

Tengt efni