is / en / dk

30. október 2014

Samninganefndir Félags tónlistarskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga setjast aftur að samningaborðinu í Karphúsinu í dag. Síðasti fundur deiluaðila var á þriðjudag í þessari viku. Verkfall Félags tónlistarskólakennara hefur nú staðið í rúma viku og því miður virðist enn langt í land. 

Sigrún Grendal, formaður Félag tónlistarskóla, segir í samtali við mbl.is að tilboði saminganefndar sveitarfélaganna, sem lagt var fram á síðasta fundi, hafi verið hafnað. „Það má segja að við stöndum frammi fyrir því að okkur eru settir afarkostir sem ég veit ekki til að að önnur stéttarfélög hafi þurft að standa frammi fyrir," sagði Sigrún í viðtalinu á mbl.is.

Hún segir samninganefnd FT með engu móti geta skrifað upp á miðlægan kjarasamning sem feli í sér að vinnuvika tónlistarkennara sé einhliða ákvörðun rekstraraðila og geti þannig orðið 53 stundir eða jafnvel meira. Þá segir Sigrún að samninganefnd FT hafi lagt fram tillögu um að félagsmenn fái greitt eftir sömu launatöflu og kennarar í leik- og grunnskólum en það hafi ekki hlotið hljómgrunn. „Við leggjum fram hugmyndir og það er okkar hlutverk að vera lausnaraðili og leita leiða," segir Sigrún jafnframt í viðtalinu á mbl.is.

Tengt efni