is / en / dk

21. Nóvember 2019

Heimsþing Alþjóðlegu kennarasamtakanna (Education International) er langstærsti vettvangur stéttarfélaga sem tengjast menntamálum. Síðsumars fór heimsþingið fram í áttunda skipti. Þangað mættu um 1400 fulltrúar frá flestum ríkjum heims til að leggja mat á stöðu menntamála víða um heim og marka stefnuna fram á við. Rík hefð er fyrir því að Kennarasamband Íslands, eins og önnur stéttarfélög menntunarstétta, taki upp málefni þingsins og geri að sínum. Kennarasambandið á þrjá þingfulltrúa sem að þessu sinni voru auk formanns þær Þorgerður Laufey Diðriksdóttir og Sigrún Lilja Guðbjörnsdóttir. Nú hafa ályktanir þess verið gerðar opinberar.

Hér fyrir neðan hef ég dregið fram nokkur meginatriði sem liggja eins og rauður þráður gegnum ályktanir þingsins – sem um leið varpar ljósi á margar af stærstu áskorunum sem samfélög heimsins standa frammi fyrir um þessar mundir:

 1. Á síðustu árum hefur hið pólitíska landslag víða um heim tekið á sig skuggalegar myndir. Í mörgum aðildarríkjum hefur orðið bakslag í vernd mannréttinda. Einangrunarstefna lætur víða á sér kræla og lýðskrum er alvarlegur vandi. Menntakerfi, nemendur, kennarar og skólar eru í mörgum tilfellum skotmörk alræðissinna. Alþjóðasamtök kennara skora á leiðtoga víða um heim að taka af skarið, standa vörð um grundvallaratriði og varða aðrar og betri leiðir fyrir samfélög sín.
   
 2. Við stöndum nú frammi fyrir slíkum áskorunum í loftslagsmálum að brýnna aðgerða er þörf. Fyrsta loftslagsflóttafólkið eru orðnir að veruleika. Hamförum og hörmungum mun fjölga og þær munu grafa undan menntakerfum samfélaga eins og öðrum innviðum. Þær munu einnig bitna frekar á konum og stúlkum en öðrum. Menntun og menntakerfi ríkjanna eru enn fremur augljós verkfæri til að gera okkur færari um að átta okkur á vandanum og bregðast við honum.
   
 3. Málefni flóttafólks eru enn mjög aðkallandi og verða að vera í forgrunni næstu árin. Rúmur helmingur flóttafólks á heimsvísu eru börn og þar af eru 7,4 milljónir á skólaaldri. Um fjórar milljónir ganga ekki í skóla þrátt fyrir að vera á skólaaldri. Ríkisstjórnir heims verða að setja þessi mál í forgrunn og tryggja að fjármagn og stuðningur sé til staðar fyrir þennan viðkvæma hóp. Þá er skorað á ríkisstjórnir að standa við markmið um þróunaraðstoð.
   
 4. Standa þarf gegn tilhneigingu á markaðstorgi menntunar sem gerir lítið úr hlutverki kennarans og hinum mannlegu samskiptum skólastarfs. Einfaldar markaðslausnir haldast víða í hönd við hugmyndina um ágóðadrifið menntakerfi og aukinn einkarekstur. Með nýtingu gervigreindar stöndum við frammi fyrir áskorunum sem geta, ef vaktin er ekki staðin, haft veruleg skaðleg á inntak menntunar og almenna undirstöðumenntun.
   
 5. Alþjóðasamtök kennara skora á aðildarfélög sín og stjórnvöld að skilgreina og standa vörð um faglegan staðal kennarastarfsins og standa við þann staðal sem unninn var með Unesco.
   
 6. Stéttarfélög þarf að styðja og styrkja í starfsemi sinni. Ýmsar breytingar eru að verða að hagkerfum heimsins sem geta grafið undan hagstjórn og velsæld. Því þarf að mæta með sveigjanleika en um leið öflugu aðhaldi og valdeflingu stéttarfélaga
   
 7. Tryggja þarf jafnt og öflugt aðgengi að menntun og góðum námsgögnum, bæði á heimsvísu og innan samfélaga. Löggjöf um hugverkarétt þarf að vera hófstillt og í jafnvægi og ekki til þess fallin að mismuna nemendum eftir efnahag.
   
 8. Um 130 milljón stúlkur ganga ekki í skóla og þeim hefur fjölgað um 6% sem ekki njóta grunnskólagöngu. Standa verður vörð um réttindi stúlkna og kvenna til virkrar þátttöku í samfélögum heimsins.
   
 9. Stjórnmálaástand heimsins gerir þá kröfu á okkur að herða róðurinn í baráttunni gegn allri kerfisbundinni mismunun, hvort sem hún er á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, fötlunar eða annarra þátta. Þá þarf að uppræta ofbeldi og áreiti sem grundvallast á sambærilegum þáttum.
   
 10. Tryggja þarf geðrækt í skólastarfi og standa vörð um geðheilsu allra í lærdómssamfélaginu. Nemendur verða að fá nauðsynlegan stuðning – og fyrirbyggja þarf að kennarar sitji uppi með vandamál sem þeir hafa ekki forsendur til að leysa úr.
   
 11. Styrkja þarf stöðu stuðningsfulltrúa og annars samstarfsfólks kennara í skólakerfinu. Lagt er til að 16. maí verði tileinkaður þessu fólki. 
   
 12. Tryggja þarf jafnan aðgang að gæðamenntun yngri barna.
   
 13. Lagt er til að stéttarfélög og ríkisstjórnir verði einhuga um að staðið sé við heimsmarkmið SÞ.


 

 

 

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ.


 

Tengt efni