is / en / dk

15. Nóvember 2019

Enn er íslenskt samfélag statt í erfiðum kjaraviðræðum. Þegar þetta er skrifað stendur yfir annað verkfall blaðamanna auk þess sem eftir er að ganga frá kjarasamningum margra tuga stéttarfélaga, einkum á opinberum markaði. Mikil spenna einkenndi kjarasamninga á almennum markaði í upphafi ársins og óljóst er hvort öll kurl eru komin til grafar hvað þá varðar.

Hvernig íslenskur vinnumarkaður virkar (ekki)
Það hefur einkennt íslenskan vinnumarkað að línur hafa verið lagðar í samningum á almennum markaði og svo hefur sá opinbera fylgt á eftir. Fyrir þessu eru bæði söguleg rök og aðrar ástæður. Frá 1915 til 1962 höfðu opinberir starfsmenn alls engan samningsrétt. Kjör þeirra voru ákvörðuð einhliða af vinnuveitandanum. Í samfélagsumróti eftirstríðsáranna varð endanlega ljóst að slíkt fyrirkomulag gengi ekki upp og árið 1962 fengu opinberir starfsmenn í fyrsta sinn samningarétt. Fljótt varð þó ljóst að það er ekki nóg að mega semja um kjör sín ef útilokað er að fylgja kröfunum eftir. Samningsrétti hafði fylgt kjaradómsfyrirkomulag. Kæmust samningsaðilar ekki að niðurstöðu var hægt að vísa málum til dómsins til úrskurðar. En þar sem kjaradómur dæmdi út frá forsendum sem hið opinbera lagði fyrir hann varð ljóst að ekki var um að ræða óvilhallan aðila – heldur miklu fremur framlengingu af ríkisvaldinu. Það fór enda svo að traust á kjaradómi þvarr hratt og barátta opinberra starfsmanna fyrir verkfallsrétti var sett á oddinn.

Verkfallsréttur opinberra starfsmanna fékkst inn í lög árið 1976. Hálft í hvoru, í gríni og alvöru, má segja að opinberir starfsmenn hafi verið í verkföllum síðan.

Átök á 4,6 ára fresti
Frá 1977 og fram til dagsins í dag hafa opinberir starfsmenn, sem eru um fimmtungur vinnumarkaður, átt um helming allra verkfallsdaga. Verkföll eru nánast jarðhræringar íslensks vinnumarkaðar og að meðaltali hafa liðið 4,6 ár á milli stórra verkfallsára í íslensku samfélagi síðustu fjörutíu ár. Síðasta stóra verkfallsárið var 2014 en stóð fram á árið á eftir. Miðað við hefðina hefði mátt reikna með stóru verkfallsári á tímabilinu 2018 til 2022, líklegast 2019 eða 2020.

Verkföllum hefur þó fækkað verulega – og þau heyra til undantekninga á þessari öld (þó enn komi stóru átakaárin).

Ólík verkföll á almennum og opinberum markaði
Greinilegur munur er á beitingu verkfalla á almennum markaði og opinberum. Hafa ber hugfast að verkfallsvopnið hefur verið notað miklu lengur á almennum markaði – og þess sjást nokkur merki að opinberir starfsmenn séu enn að brýna það og finna bestu leiðirnar til að beita því. Verkföll eru til að mynda ekkert sérstaklega góð vopn í baráttunni fyrir „leiðréttingu launa“. Frá 1989 hafa laun í landinu hækkað meira en sexfalt. Við höfum búið við eilífan eltingaleik launa, vaxta og verðlags. Að beita verkfalli til að hækka laun sín getur hæglega leitt til þess að launin hækki nokkuð í fyrstu en fari síðan að dragast aftur úr nánast um leið. Þar sem verkföll hafa alltaf fórnarkostnað í för með sér er alls ekki tryggt að yfir lengra tímabil dugi verkföll til svo halda megi í við launaþróun. Á almennum markaði hefur tilhneigingin orðið sú að beita verkfallsvopninu frekar til að tryggja varanleg gæði. Á opinberum markaði er oft enn verið að beita verkföllum með almennari hætti, til launaleiðréttinga eða jafnvel í óljósri réttlætisbaráttu.

Að græða á verkföllum
Sú hætta stafar af verkföllum á opinberum markaði að vinnuveitandinn getur hæglega grætt peninga. Þess eru jafnvel dæmi að löng verkföll sem á endanum skiluðu umtalsverðum kjarabótum hafi á endanum kostað launþegana álíka mikið og þann sem verkfallið beindist gegn. Í grófum dráttum þarf eins mánaðar verkfall að skila rúmum 8% ofan á síðasta tilboð vinnuveitanda til þess að borga sig upp á einu ári. Verkfallsvilji stjórnvalda kann því að vera allnokkur. Eins eru opinberir starfsmenn líklegri til að velja verkfall af þeirri ástæðu að þeir eru ólíklegri til að greiða fyrir verkfallið með atvinnumissi. Loks má nefna að verkfallsvopnið er að því leyti beittara og hættulegra á opinberum markaði en almennum að boðuðu verkfalli á opinberum markaði er ekki hægt að fresta þegar búið er að boða það á annað borð. Annað hvort þarf að semja eða fara í verkfall. Það er ekki hægt að þrýsta fram meiri gang í viðræður eins og oft er gert á almennum markaði.

Fyrsta verkfall kennara var strax árið 1977. Það stóð í 19 daga og megintilgangur þess var að knýja fram kaupmáttartryggingu.

Staða hins opinbera
Af framangreindu er ljóst að staða hins opinbera þegar kemur að kjarabaráttu opinberra starfsmanna er heldur sérstök. Í sögulegu tilliti hafði það allt vald yfir kjaramálum starfsmanna sinna, jafnvel eftir að samningsréttur opinberra starfsmanna varð til. Það er einnig í annarri stöðu gagnvart verkföllum en vinnuveitendur á almennum markaði. Höggstaðir á hinu opinbera eru færri – og því má færa rök fyrir því að það eigi auðveldar með að fara fram með valdi og starfi frekar í ósátt við starfsmenn sína. Við þekkjum öll hrunadansinn sem fer í gang á hverju ári þar sem opinberar stofnanir berjast fyrir tilvist sinni og fjármagni. Við þekkjum líka þann pólitíska hráskinnaleik, af allra hálfu, sem þá fer oft í gang. Hið opinbera lætur enda frekar sannfærast af pólitískum rökum en faglegum (það væri margt betra á Íslandi ef því væri öfugt farið). Þess vegna nýtir hið opinbera sér gjarnan tækifærið þegar samið er á almennum markaði og reynir að mála upp pólitíska mynd, sem getur heitið þjóðarsátt eða stöðugleikasáttmáli eða lífskjarasamningar, sem nota má sem hemil í kjaraviðræðum hins opinbera við sína starfsmenn. Hið sama gera auðvitað atvinnurekendur á almennum markaði sjálfir í samningum við minni stéttarfélögin. Verkfall blaðamanna nú snýst um það hvort samningar við þá megi „ógna“ lífskjarasamningnum.

Í gærkvöldi mátti í fréttum skilja sem svo að forystumenn blaðamanna litu svo á að samningarnir væru innan þess ramma sem samið var um snemma á árinu – á meðan fulltrúi atvinnurekenda sagði það fráleitt.

Feluleikir og vantraust
Staðreyndin er nefnilega sú að „prinsippin“ sem staðinn er vörður um eru býsna sveigjanleg og það er löngu orðið þjóðaríþrótt á íslandi að flækja kjarasamninga, ýmist til að fegra þá eða fela eitthvað í þeim. Slíkt er í fullum gangi núna eins og oftast áður. Sumir hópar á íslenskum vinnumarkaði taka t.a.m. há laun gegnum séreignarsparnað eða ýmiskonar kaupauka. Sumar opinberar stéttir taka nærri helming tekna sinna inn í gegnum yfirvinnu á meðan aðrar eru með litla sem enga yfirvinnu. Þetta andrúmsloft feluleikja gerir það að verkum að illmögulegt er að ráðast gegn óheyrilegum fórnarkostnaði í slælegum vinnubrögðum við kjarasamninga. Meðan hægt er að fela og ljúga má fastlega reikna með því að þeir sem fáist til að ganga fram af ábyrgð og með heildarhagsmuni í huga verði undir í baráttunni við hina sem með klækjum skara eld að eigin köku.

Raunar hafa erlendir sérfræðingar í vinnumarkaðsmálum greint vantraust sem einn meginvanda íslensks vinnumarkaðar.

80 milljarða afskiptaleysi ríkisins
Í öllu þessu neti er staða ríkisins býsna flókin. Ég nefndi áðan hinar sögulegu ástæður þess að almenni markaðurinn hefur lagt línurnar með þeim afleiðingum að hið opinbera reynir að taka sér varnarstöðu í kjölfarið. Fleira kemur þó til. Mjög margir eru þeirrar skoðunar að það sé skylda hins opinbera að halda sig til hlés við kjarasamningsgerðina framan af. Samningar á almennum markaði séu hinn eiginlegi mælikvarði á bolmagn samfélagsins til launahækkana eða annarra breytinga á kjörum og að það væri nánast misbeiting á hlutverki hins opinbera að hafa áhrif á samningagerðina eða taka af skarið.

Í ljósi þessa voru síðustu kjarasamningar býsna umhugsunarverðir. Færa má rök fyrir því að lífskjarasamningarnir hafi fyrst og fremst verið á milli stéttarfélaga á almennum markaði og hins opinbera. Ríkið sjálft mat framlag sitt vegna þeirra á 80 milljarða króna! Hafi þau rök einhvern tíma verið tekin alvarlega að hið opinbera megi ekki taka af skarið í kjaramálum er ljóst að þau eru fokin út í hafsauga.

En gaf ríkið í alvöru 80 milljarða til lífskjarasamninganna?

Tja, þar er stundum erfitt að sjá hvar framlög til kjarasamninga enda og uppfylling kosningaloforða byrjar. Hún er raunar umhugsunarverð tilhneiging stjórnvalda til að stilla skylduverkefnum sínum eða kosningaloforðum upp sem innleggi í samninga við samtök launþega. Hið opinbera skuldar kjósendum sínum slíkar efndir – ekki hagsmunaaðilum á vinnumarkaði.

Loforð hins opinbera
Sum fyrirheit hins opinbera eiga þó við um launþegahreyfinguna. Við þekkjum öll söguna af því hvernig slök kjör opinberra starfsmanna voru réttlætt með auknum réttindum þeirra, sérstaklega hvað varðar lífeyrissjóði. Þar var þó auðvitað fiskur undir steini eins og í ýmsu öðru. Með samspili almannatryggingakerfisins og lífeyriskerfisins hefur hið opinbera veitt skattfé í miklu meira mæli til lífeyrisþega af almennum markaði en opinberum. Allt að einu, þá liggur nú fyrir loforð ríkis og sveitarfélaga um að útrýma kerfislægum og ómálefnalegum launamun milli opinberra starfsmanna og starfsfólks á almennum markaði. Það loforð er tímasett og því á að vera lokið 2026.

Þessi launamunur er til og hann er verulegur. Þar sem núverandi kjarasamningum er ætlað að duga til 2022 eða 2023 er ljóst að ganga þarf frá þessu í þessari lotu. Takist það ekki má reikna með ósköpum.

Fyrri tilraunir
Áðan sagði ég að hið opinbera notaði gjarnan þjóðarsátt, stöðugleikasáttmála eða lífskjarasamninga til að skapa sér varnarstöðu gagnvart eigin starfsfólki. Það er alveg rétt – en hitt er líka rétt að stundum hefur hugur fylgt máli og skref verið stigin til að stuðla að sanngirni, ábyrgð og jafnvægi á vinnumarkaði. Á það að einhverju leyti við alla þessa áfanga þrjá sem ég nefndi. Þó hefur oft vantað herslumuninn til að hlutirnir gangi upp. Að minnsta kosti hafa átakaárin alltaf skilað sér með virktum.

Það þarf þó ekki endilega að koma á óvart. Þegar grundvallarskortur er á gagnsæi og trausti er erfitt að byggja nokkuð varanlegt.

Í aðdraganda þess að opinberir starfsmenn fengu verkfallsrétt hafði mistekist tilraun til að jafna laun kynjanna á íslenskum vinnumarkaði. Hún fór út um þúfur vegna þess að löggjöfin ein og sér dugði ekki til að tryggja að konur sæktu á. Á vinnumarkaðnum var einfaldlega valtað yfir konurnar aftur. Ójöfn staða kynja er enn í dag ein meginástæða launamunar á milli opinbera og almenna markaðarins – og sem slík ein af meinsemdunum sem tærir vinnumarkaðinn okkar að innan. Hann verður aldrei stöðugur fyrr en á þessu kerfisbundna ranglæti er tekið.

Eftir síðasta stóra verkfallsár var reynt að koma hlutunum í betri farveg með því að gera samkomulag um að laun hækkuðu jafnt og þétt á samningstímanum. Slíkar tilraunir afhjúpuðu stærsta vandann við að koma á norrænu vinnumarkaðslíkani á Íslandi. Það er ómögulegt að velja upphafspunkt. Hin baráttudrifna kjarabarátta á opinberum markaði þýðir að kjör batna hratt en rýrna líka hratt. Að velja upphafspunkt sem ekki hentar einum hópi sérlega vel en öðrum illa er útilokað. Það verður alltaf að ræða launasetninguna sjálfa. Það hefur verið afar óvinsælt hingað til.

Tækifærið nú
Nú er hins vegar tækifæri. Tækifæri sem ekki hefur gefist áður – og ekki er víst að gefist aftur.

Það góða við lífskjarasamningana var að þeir drógu athyglina að tveimur atriðum: launasetningu tiltekinna hópa og heildarhagsmunum á vinnumarkaði. Þar var ráðist gegn þeirri þjóðarskömm sem við höfðum umborið sem fólst í kjörum erlends verkafólks, m.a. í ferðaiðnaði. Enn fremur var lögð áhersla á bætt lífskjör og lága vexti. Nú höfum við líka loforð stjórnvalda um að uppræta kerfislægan og ómálefnalegan launamun milli markaða. Í því felst tækifæri til að mynda varfærið traust starfsmanna hins opinbera í garð vinnuveitanda síns. Í loforðinu fólst áhætta. Ef hið opinbera svíkur gefið heit verður það trúnaðarbrestur af slíkri stærðargráðu að reikna má með átökum á skala sem við höfum ekki séð í áratugi. En hið opinbera þarf öll tækifæri sem það fær til að byggja upp traust. Eitt aðildarfélag BHM felldi til að mynda samning á dögunum með þeim rökum að það „treysti ekki ríkinu“. Aðildarfélagið var félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins!

Það hjálpar að búið er að koma á fót kjaratölfræðinefnd sem getur, ef hún beitir sér rétt, dregið úr feluleik á íslenskum vinnumarkaði hvað varðar kaup og kjör. Slíkt gagnsæi getur dregið úr vantrausti. Loks hefur þjóðhagsráð tekið til starfa – sem er formlegur samráðsvettvangur ýmissa haghafa. Ef hlutverk þess er tekið alvarlega getur það tekið „freku kallana“ frá stýrinu á þjóðarskútunni og orðið grundvöllur meiri sátta.

Það er samt ærið verkefni fyrir höndum og sporin hræða. Hlutirnir þurfa nú að smella saman og uppræta þarf áratugalanga hefð af vantrausti, klækjum og valdníðslu. Það verður ekki einfalt – og það er undirliggjandi heilmikil spenna. Margt getur farið úrskeiðis enn.

Næstu vikur munu þó væntanlega leiða í ljóst hvorn veginn hinn opinberi vinnumarkaður er að fara að ganga: Í átt til metnaðarfullrar tilraunar til að auka sanngirni og bæta vinnubrögð á vinnumarkaði eða mögulega inn í stórt átakaár 2020, sem gæti þá jafnvel verið endurtekið 2024 og 2029 og 2033 og svo framvegis.
 

 

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ.


 

Tengt efni