is / en / dk

05. október 2019

Ungir kennarar og framtíð kennarastarfsins er að þessu sinni þema Alþjóðadags kennara sem er haldinn hátíðlegur 5. október ár hvert. Ein af meginstoðum hverrar þjóðar er öflugt menntakerfi. Sameiginlegt verkefni skólasamfélagsins og menntamálayfirvalda er að búa svo um hnútana að kennarastarfið sé aðlaðandi.

Í skilaboðum sem alþjóðasamtök kennara, Unicef og fleiri samtök senda aðildarfélögum sínum í tilefni dagsins er þekkingu, orku og ástríðu kennara um allan heim fagnað og tekið fram að kennarar eru hornsteinar menntakerfa framtíðarinnar. Í yfirlýsingu þessara samtaka kemur fram að nýliðun í kennarastétt er mjög nauðsynleg og ef ekki verður breyting á mun vanta 69 milljónir kennara í heiminum árið 2030. Verði þetta raunin hefur það í för með sér aukin ójöfnuð, fátæk lönd og dreifðari byggðir munu ekki fá kennara til starfa. Þó vandamálið sé ekki jafn alvarlegt á Íslandi vantar okkur einnig kennara til starfa.

Því miður hefur kennsla ekki þótt sérlega aðlaðandi ævistarf undanfarin ár og nú er svo komið að aðeins 6.5% af félagsmönnum í KÍ er undir 30 ára aldri. En nú vinnum við saman að snúa vörn í sókn. Þökk sé samstilltum aðgerðum menntamálayfirvalda og háskóla sem mennta kennara og Kennarasambandsins eru teikn um betri tíma á lofti. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur unnið mjög gott starf að málefnum kennara síðan hún tók við ráðuneytinu. Málflutningur hennar um mikilvægi stéttarinnar er til fyrirmyndar og hefur nú þegar haft nokkur áhrif.

Samfélagið breytist af meiri hraða en við höfum reynt og upplifað nokkru sinni fyrr. Það hefur að einhverju leyti áhrif á skólana eins og aðra vinnustaði. Menntunarstig og gæði menntunar skipta máli og meira máli mun skipta en áður að öll börn fái menntun sem þeim hentar. Við kennararnir sjálfir þurfum líka að tala fyrir mikilvægi skólastarfs í framtíðinni. Ungum kennurum og þeim sem nú læra til þess að verða kennarar munu mæta áskoranir sem ekki er algerlega vitað hverjar verða. Umræða um fjórðu iðnbyltinguna hefur farið víða undanfarin ár. Samkvæmt skýrslu um fjórðu iðnbyltinguna sem forsætisráðuneytið gaf út á þessu ári munu samfélagsbreytingar af völdum tækni kalla á breyttar áherslur þegar kemur að færni. Árið 2020 skiptir mestu máli að hafa færni í að leysa flókin verkefni, gagnrýna og skapandi hugsun. Ef við viljum sjá samfélag sem einkennist af mannréttindum, félagslegu réttlæti og áherslu á umhverfismál er nauðsynlegt að styðja unga kennara og veita þeim bæði svigrúm og markvissa leiðsögn þegar þeir feta sín fyrstu spor í kennslu.

Mikilvægi kennarastarfsins fer því ekki minnkandi. Hvar eiga börnin sem eru að hefja skólagöngu nú og verða væntanlega í fullu fjöri árið 2100 að læra allt sem þau þurfa á að halda í framtíðinni. Hver á að kenna þeim fordómaleysi, skapandi og jafnframt gagnrýna hugsun, að takast á við sérhvert verkefni með fjölbreyttum aðferðum að leiðarljósi? Hvar eiga þau að temja sér seiglu, æfa sig í samvinnu ef ekki undir leiðsögn kennara.

Þannig að hlutverk kennara mun síst minnka í framtíðinni heldur verður það áfram mikilvægasta starfið. En það má ekki gleymast að skólakerfið þarf að þróa í samvinnu við kennarana. Það gengur ekki að að kalla aðeins á þá við stefnumótun en gleyma þeim svo þegar raunverulegar ákvarðanir eru teknar. Þá ná breytingarnar og framfarirnar sem þær áttu að skila aldrei inn í skólastofuna sjálfa.

Í lokin er vert að nefna eitt. Að um leið og skólakerfið leiðir til jafnaðar leiðir það til ójafnaðar. Þeir sem hafa lent utanveltu í samfélaginu segja oft að það hafi byrjað þegar þeir lentu utanveltu í skólakerfinu og fengu ekki nám við hæfi. Menntakerfið mætti ekki þörfum þeirra. Við verðum að mæta þörfum allra barna. Þegar allt kemur til alls hafa áskoranir ekki breyst svo mikið og eru bæði sígildar og allra tíma. Kennarastarf framtíðarinnar snýst um að hafa áhrif á fólk og hreyfa við því. Við fagfólkið sem í skólunum störfum verðum að vera þess meðvituð að menntun snýst um þá hugmynd að nám þroski nemendur og gefi þeim verkfæri til að takast á við framtíðina. Verkefni okkar er því að skapa samstöðu. 

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands. 

 

 

 

 

Tengt efni