is / en / dk

24. September 2019

Í síðasta pistli mínum, Ný lög um menntun og ráðningu kennara, rakti ég í grófum dráttum aðdraganda laga númer 95/2019. Lögin leysa af hólmi eldri lög um menntun og ráðningu kennara og stjórnenda á skólastigunum

Hver er stóra breyting laganna?

Hin eiginlega grundvallarbreyting laganna sést strax í fyrirsögninni. Eldri lögin hnituðust um menntun og ráðningar í skólum. Hin nýju lög fjalla um menntun, hæfni og ráðningar. Hér er verið að skrifa nýja vídd inn í löggjöf um kennaramenntun og kennarastarfið.

Hvers vegna óttast sumir slíkar breytingar?

Í sumar var haldið heimsþing kennarasamtaka. Þar átti sér stað nokkur umræða um skilgreindar hæfnikröfur til kennara. Sum óttast slíkar skilgreiningar. Byggja þau það á því viðhorfi að kennsla sé illskilgreinanleg – og að skilgreiningar hafi tilhneigingu til þrengingar. Önnur, þar á meðal stjórn hinna alþjóðlegu kennarasamtaka, telja að upptaka skilgreindra hæfniviðmiða væri grundvallarforsenda þess að kennarastarfið lifi af sem faglegt starf í veruleika dagsins í dag. Að endingu fór það svo að heimsþingið hvatti öll kennarasamtök heimsins til að berjast fyrir upptöku slíkra viðmiða yfirgnæfandi stuðningi.

Er menntastefna varnar- eða sóknarbarátta?

Við höfum stundum tilhneigingu til að telja menntun stöðugra og rótgrónara fyrirbæri en hún er. Íslenska menntakerfið er ágætt dæmi um mikla deiglu og örar breytingar. Skömmu fyrir fullveldi landsins varð sprenging í hlutverki skólanna. Námsgreinum fjölgaði mjög á stuttum tíma, fyrst og fremst vegna þeirrar hugmyndafræði að sá munur væri á fullvalda þjóð og nýlendu að sú fyrrnefnda þyrfti að hafa á sinni könnu margt það sem áður hafði verið séð um í útlöndum. Í marga áratugi einkenndist skólaþróun hér á landi af slíkum metnaði – sem birtist m.a. í breyttum mannskilningi: Það byggi miklu meira í hverju barni en hingað til hefði fengið útrás.

Þessu fylgdi stofnun háskóla og efling verknáms. Brátt fóru að vakna áleitnar spurningar um jafnrétti til náms og einstaklingsmiðun. Á eftirstríðsárunum var slíkum spurningum svarað með upptöku landsprófs (en það átti að gefa réttlátan mælikvarða á námsgetu óháð ætt og uppruna). Í lok sjöunda áratugarins og við upphaf þess áttunda skall af fullum þunga á landinu hin nýja róttæka hugmyndafræði sem þá var að leggja undir sig hinn vestræna heim. Landspróf gekk sér til húðar enda var ekki lengur greinanlegur munur á því og gagnfræðaprófi og samræmd próf voru tekin upp. Nýr lagarammi var tekinn upp sem lagði áherslu á að skólakerfið væri fyrir öll börn. Eitt stærsta jafnréttis- og framfaramál íslensku menntasögunnar, upptaka almenns leikskóla, hlaut framgang og sjóndeildarhringur íslenska menntakerfisins var víkkaður verulega út í samræmi við þá alþjóðavæðingu hugarfarsins sem einkenndi þessa tíma.

Um miðjan níunda áratuginn veittu íhaldssöm öfl verulega mótspyrnu. Kennarar (og raunar allt menntavísindafólk) var af valdamiklum aðilum talið tæringarafl í samfélaginu. Samskipti stjórnvalda við hinar vinnandi stéttir var stirt og harkaleg átök einkenndu íslenskan vinnumarkað. Deila sumra ráðamanna og fjölmiðla við skólafólk risti þó dýpra. Alið var á vantrausti í garð skólanna og kennaranna (og kannski sérstaklega háskólanna). Minnkandi áhersla á þjóðrækni og aukin áhersla á víðsýni var höfð til marks um að menntakerfið hefði týnt sjónum af markmiði sínu: Að „framleiða“ „góða“ Íslendinga.

Þetta er afar umhugsunarverð þróun. Á leið sinni til fullveldis einkenndist metnaður þjóðarinnar af virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs og fræða – og einlægri löngun til að fanga erlenda strauma og stefnur og virkja í þágu þjóðarinnar. Þegar fullveldinu var náð urðu þau sjónarmið sífellt sterkari að það sem áður var sóknarbarátta ætti nú að verða varnarbarátta.

Kennarar sameinast í andstreyminu – og berjast fyrir tilvist sinni

Það var eftir þessi átök sem kennarar sáu þörf fyrir að sameinast í baráttu sinni fyrir faglegri stöðu og kjörum. Eitt af stóru baráttumálunum var krafan um löggildingu kennarastarfsins. Hún mætti mikilli andstöðu frá fyrsta degi – bæði vegna tortryggni í garð kennara sem risti djúpt víða í stjórnkerfinu og þess að hugmyndin um fagmenntaðan kennara var hvorki skýr né óumdeild.

Morgunblaðið leiddi baráttuna gegn löggildingarkröfum kennara af miklum móð. Þess ber að geta að í upphafi var krafan sú að kennaraheitið sjálft yrði lögverndað, þ.e. að hér á landi væri aðeins ein kennarastétt, óháð aldri nemenda. Þetta þótti hrokafull krafa með eindæmum – enda væri sögnin „að kenna“ almenningseign. Það þyrfti ekki að læra að kenna. Sú hugmynd, að kennsluhæfni fælist í einhverskonar náðarvaldi og væri sumum gefin en öðrum ekki, var áberandi. Því var haldið fram – og sumt skólafólk tók þar undir – að fyrir „alvöru“ sérfræðinga væri beinlínis lítillækkandi og spillandi að setjast á skólabekk í uppeldis- og menntunarfræðum.

Löggilding kennarastarfsins (þar sem málamiðlunin var sú að löggilda hvert skólastig fyrir sig) kom í áföngum og í fyrstu sem tilraun til að liðka fyrir samningum í andrúmslofti mikilla átaka.

Skólaumbótaplágan nemur land

Rétt fyrir aldamót var áréttuð á heimsvísu sú stefna að skólinn skyldi vera fyrir alla. Á Íslandi hafði svipuð hugmyndafræði þá verið lögbundin í tuttugu ár. Árin 1994 og 1995 má þó segja að tímabil skóla án aðgreiningar hefjist fyrir alvöru. Óhætt er að segja að tímabilið hafi reynst krefjandi fyrir íslenskt menntakerfi. Hefur sumt gengið vel en annað alls ekki. Verulega vantar enn upp á ýmis grundvallaratriði eins og lesa má um í skýrslu Evrópumiðstöðvar

Undir lok fyrsta áratugar þessarar aldar fór svo hin alþjóðlega skólaumbótaplága (e. GERM) að bæra á sér. Á margan hátt var hún afsprengi sömu hugmyndafræði og einkenndi þau átök sem urðu hér á landi á níunda áratugnum. Hún grundvallast á djúpstæðu vantrausti í garð kennara og menntavísinda og einlægri löngun til að einfalda og þrengja hlutverk almennrar menntunar. Í þeim tilgangi er barist fyrir aukinni stöðlun og mælingum sem og áherslu á tiltölulega fáar námsgreinar og einfaldar, reyndar kennsluaðferðir.

Styrkleikar og veikleikar umbótaplágunnar

Skólaumbótaplágan er afar skilvirk óværa. Styrkur hennar felst í einfaldleikanum. Hún nærist á kreppum. Boðorð hennar verða aðlaðandi lausnarorð í samfélögum sem glíma við vanda. Ónæmi gegn henni vex með sjálfstrausti og styrk.

Hlutar Bretlands og Bandaríkjanna gáfu sig fljótt umbótaplágunni á vald. Þar þreifst hún vel í skjóli félagslegrar misskiptingar. Í samfélagi þar sem ákveðnir hópar barna verða kerfisbundið undir er auðvelt fyrir umbótapláguna að skjóta rótum í dulargervi ábyrgðarkenndar.

Félagsleg misskipting er þó ekki eina æti plágunnar. Hér á landi hefur hún fyrst og fremst gert sér mat úr minnkandi læsi (en þó að einhverju leyti vanda við innleiðingu skóla án aðgreiningar).

Vandi skólaumbótaplágunnar er auðvitað sá að þau svör sem hún gefur duga á endanum ekki til að leysa þann vanda sem henni er beitt á. Í Bandaríkjunum hefur verið flett ofan af hverju „framfarakraftaverkinu“ á fætur öðru og í Bretlandi hafa bestu kennararnir verið kerfisbundið fældir í burtu.

Þá hefur það veitt ákveðið ónæmi gagnvart plágunni að sum af „fremstu“ menntakerfum heims, t.d. hið finnska, byggja í grundvallaratriðum á öndverðri hugmyndafræði auk þess sem andstæðingar hennar hafa haft sig mikið í frammi.

Stökkbreytt plágan tekur tæknina í sína þjónustu

Ástæða þess að skilgreining hæfniviðmiða var eitt af stærstu málum nýliðins heimsþings kennara eru verulegar áhyggjur sem vaknað hafa varðandi horfur í mörgum menntakerfum. Fyrir nokkrum árum greindi Pasi Sahlberg, sem mörgum Íslendingum er að góðu kunnur, eitt af höfuðeinkennum skólaumbótaplágunnar þannig:

„Fjórða alþjóðlega skólaumbótatilhneigingin er notkun stjórnarhátta fyrirtækja til menntaumbóta. Í þessum ferlum er menntastefna og hugmyndir fengnar að láni úr viðskiptalífinu og byggja oft á forræði ríkisins eða gróðasjónarmiðum í stað þess að byggja á siðferðilegum markmiðum um mannlegan þroska. Trú á breytingar í menntakerfinu gegnum nýsköpun sem keypt er utan frá grefur undan tveim mikilvægum grundvallaratriðum í vel heppnuðum menntaumbótum: Í fyrsta lagi þrengir það oft möguleika til staðbundinnar stefnumörkunar í menntamálum og horfir fram hjá styrkleikum sem viðkomandi menntakerfi hefur sjálft til að bera til endursköpunar [...] og í öðru lagi þá lamar það tilraunir kennara og skóla til að læra af fortíðinni og hverjum öðrum.“

Með öðrum orðum: Menntaumbótaplágan sér hlutverk kennara oft þannig að þeir sjái um að afgreiða nemendur í stað þess að bera frumábyrgð á menntun þeirra. Við það glati menntakerfið þróunarstyrk sínum og menntabreytingar geta þá orðið eins og hver önnur vara á markaði.

Það er þessi angi umbótaplágunnar sem hin alþjóðlegu samtök kennara óttast nú einna mest. Þess eru fjölmörg dæmi að alþjóðleg stórfyrirtæki sæki inn á „markaði“ vanþróaðra menntakerfa og bjóði upp á menntunarlausnir. Það liggur líka fyrir að með vexti gervigreindar og aukinna samskipamöguleika við tækni mun slíkt verða enn ágengara en fyrr.

Þetta ætti að vera okkur raunverulegt áhyggjuefni. Þetta hefur stundum verið orðað þannig að kennarar sem reyna að keppa við tækni í styrkleikum tækninnar geti ekki sigrað og muni smám saman hverfa. Kennarar verða að hugsa hlutverk sitt upp á nýtt.

Skólaumbótaplágunni settar skorður

Með upptöku hæfniviðmiða í lög um kennarastarfið er verið að afmarka svið kennarastarfsins og eftir atvikum setja þeim mörk eða hasla þeim völl. Hér liggur grundvallaratriði hinna nýju laga.

Segja má að í lögunum felist endanleg viðurkenning á því að í hugtakinu „kennari“ felist fagleg vídd sem réttlætir löggildingu þess á grundvelli tiltekinnar hæfni. Með því að afmarka með þessum hætti hlutverk kennara eru skólaumbótaplágunni settar skorður. Hér eftir er það bundið í lög að það er kennarinn sem er faglegur leiðtogi skólastarfs sem m.a. leggur mat á stöðu og framfarir nemenda og skapar þeim námsumhverfi við hæfi og vinnur út frá landslögum og námskrám.

Hvað eru önnur ríki að gera?

Eins og ég rakti í síðasta pistli eru hæfniviðmiðin afrakstur töluverðrar vinnu sem staðið hefur í nokkurn tíma. Í þessu tilliti er Ísland ekkert eyland. Í Ástralíu er til að mynda gerður greinarmunur á kennaramenntuðum einstaklingi og hæfum kennara. Þar er ætlast til þess að kennari nái reglulegum framförum í starfi og taki að sér sífellt stærra hlutverk í lærdómssamfélaginu. Enn fremur eru kennurum gefin margvísleg hjálpartæki og stuðningur til að stuðla að starfsþróun sinni. Áhugavert er að bera hinn ástralska staðal saman við hin íslensku hæfniviðmið. Álíka viðmið má t.a.m. finna í Skotlandi þar sem kennurum er ætlað að leiða starfsþróun sína mið hliðsjón af skilgreindum viðmiðum. Svipuð leið hefur verið farin í Kanada.

Eins og áður sagði hafa hin alþjóðlegu kennarasamtök lagt til að þetta verði gert um allan heim. Fyrst og fremst í því skyni að uppræta þá eðlisbreytingu sem orðin er að veruleika sums staðar og gæti blasað við víðar þar sem markaðsvæðing menntunar og tækniframfarir ýta hlutverki kennaranna út á jaðar skólaumbóta.

Hvað svo?

Forgangsatriðið nú er að hæfniviðmiðum kennara verði fylgt eftir með stuðningi og starfsþróun. Það er ekki nóg að skrifa lög ef þeim er ekki fylgt eftir. Þannig þarf bæði að vernda frelsi kennara til að sinna hlutverki sínu sem og veita þeim þann stuðning sem þarf til að þeir geti staðið undir því. Af skýrslu Evrópumiðstöðvar um skóla án aðgreiningar getum við lært að við þurfum verulega að bæta vinnubrögð okkar frá því sem verið hefur.

Stærsta einstaka ógnin við þær breytingar sem nú eru í farvatninu er að fátt breytist í raun. Þannig stendur fyrir dyrum að stofna svokallað kennararáð sem fylgir eftir hugmyndinni um hæfniviðmið kennara. Um það sagði í umsögn Menntamálastofnunar snemma í ferlinu:

„Að mati Menntamálastofnunar væri vænlegra að útfæra hlutverk kennararáðs í samræmi við þá stjórnsýslu og skipulag sem nú er til staðar.“

Það er ákveðin hreinskilni í þessu. Og vissulega færir stofnunin rök fyrir máli sínu. Það er eitt að reka kennararáð í milljónasamfélagi og annað að koma því á vegna rúmlega 10 þúsund kennara. Og raunar er Menntamálastofnun ekki ein um þessi viðbrögð. Mestu deilurnar í málinu snerust um það með hvaða hætti útbúa mætti lögin þannig að það skipulag sem þegar er til staðar viðhéldi sér.

Það er hins vegar ekki markmiðið.

Kostir og ógnir

Nýju lögin setja kennurum mikla ábyrgð á herðar. Eða réttara sagt: Í þeim felst viðurkenning á hinni miklu ábyrgð sem kennarar þurfa stöðugt að standa undir. Við þurfum að gera ríkulegar kröfur til okkar sjálfra og hvers annars. Með lögunum er opnað á ákveðinn sveigjanleika – sem kennarar sjálfir geta misnotað.

Stóri kostur laganna er sú afgerandi stefnumörkun sem í þeim felst. Það er líka kostur að leggja áherslu á ævilangt nám og fjölbreyttari starfskosti kennara. Ég sé hinsvegar þrjár stórar ógnir í málinu.

Sú fyrsta er, eins og áður sagði, að ekkert breytist í raun. Að kennarar og kerfið lagi ekki hlutverk sín að kerfinu en reyni að laga kerfið að óbreyttu ástandi.

Þá óttast ég að kennarar og kerfið vanræki bæði starfsþróun og stuðning. Óskýrar hugmyndir um tilgang starfsþróunar og eðli kennarastarfsins hafa leitt til þess að hún situr oft á hakanum og er allt of ómarkviss.

Loks óttast ég skort á sérhæfingu og yfirborðskennt gildismat um vægi menntunar. Einhver stærstu sóknarfæri sem við eigum í menntakerfinu í dag eru t.d. í menntun yngri barna. Það er þar sem við getum náð hvað mestum árangri með þann hóp sem höllustum fæti stendur í kerfinu okkar, börn af erlendum uppruna. Í dag er faglegt starf í leikskólum kerfisbundið vanrækt of kennarar sem sérhæfa sig í menntun yngri barna þurfa í námi sínu of oft að gera sér að góðu kennslu sem miðuð er við nám eldri barna. Eftir áralangt áhugaleysi á kennaranámi eru háskólarnir komnir mjög nærri þolmörkum í námsframboði. Þá er gegnumgangandi skortur á bæði fagþekkingu og kennslufræðilegri þekkingu víða í skólakerfinu.

Ég ætla ekki einu sinni að nefna almennar áhyggjur af kennaraskorti – sem eru þó líklega þær langstærstu. Ástæða þess er að þær snúast ekki um kerfið sem slíkt. Ekkert kerfi stendur af sér aukinn og langvarandi kennaraskort.

Næstu skref

Í dag er fundur í samráðshóp um nýju lögin. Þar verða þessi mál til umræðu í víðu samhengi, þar á meðal áhyggjurnar. Sú vinna er mikilvæg – en miklu meira máli skiptir hvað gerist eftir að lögin taka gildi. Ætlum við að þróa mál með svipuðum hætti og Skotar, Kanadabúar eða Ástralir? Hvernig ætlum við að nota löggjöfina til að tryggja stöðu okkar og laga okkur að hinni nýju hugmyndafræði?

Ég mun nota þennan vettvang til að reyna að stuðla að frekari umræðu um þessi mál. Ég vona að hún verði nokkur, fjölbreytt og gagnleg. 

 

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ.


 

Tengt efni