is / en / dk

23. Febrúar 2019

Menntamálaráðherra hefur nú lagt fram drög að frumvarpi um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara. Frumvarpið liggur í samráðsgátt og vonandi gefa sem flestir kennarar sér tíma til að kynna sér það og gera athugasemdir við efni þess.

Hingað til hefur umræðan auðvitað að mestu snúist um fjölda leyfisbréfa til kennslu. Hér er þó ýmislegt annað undir. Ég ætla því að gera tilraun til að ramma inn það samhengi sem þetta nýja frumvarp sprettur úr og benda á helstu atriði þess. Ég vona að í kjölfarið verði gagnrýnin og málefnaleg umræða um málið sem tekið verði mark á.
 

UPPHAFIÐ

Upphaf þessa máls má líklega rekja til 2005 þegar settur var á laggirnar starfshópur um framtíð kennaramenntunar undir forystu Sigurjóns Mýrdals. Hópurinn skilaði níu tillögum sem í nokkurri einföldun eru hér taldar upp:

 1. Að meistaraprófs væri krafist til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskóla.
 2. Að stefnt verði í sömu átt með starfsmenntakennslu.
 3. Að réttindi leikskólakennara verði lögvarin eins og réttindi annarra kennara.
 4. Að menntun skólastjórnenda verði skilgreind.
 5. Að fjölbreyttar námsleiðir verði að kennsluréttindum og flæði aukið milli skólastiga.
 6. Að starfsþjálfun kennaranema verði aukin (með kandídatsári).
 7. Að sett verði viðmið um inntak og starfshætti í allri kennaramenntun.
 8. Að stofnað verði kennsluráð sem samstarfsvettvangur hagaðila í menntakerfinu.
 9. Að símenntun verði tryggð og fjölbreytt.
   

Sumt af þessu er þegar komið til framkvæmda. Annað hefur mátt bíða. Menntunarmál kennara hafa enda verið í mismiklum forgangi hjá menntamálaráðherrum síðustu ára. Ýmislegt var þó gert og kannski var einna stærsti áfangi þeirrar sögu stórt málþing árið 2008 um framtíð kennaramenntunar. Á málþinginu var kennarastarfið skoðað frá ýmsum hliðum í nútíð og fyrirsjáanlegri framtíð.

Þegar niðurstöður málþingsins voru dregnar saman var gróflega hægt að flokka þær í þrennt. Þær hnituðust um tengsl kennaramenntunar við samfélagið, skipulag námsins og þær hæfnikröfur sem gera ætti til kennara.
 

HÆFNIKRÖFUR

Við, sem starfað höfum við kennslu, þekkjum hvernig kröfur um hæfni hafa orðið viðameiri hluti stefnumörkunar í menntamálum. Tilhneigingin hefur verið sú að leggja áherslu á hæfni í stað einfaldari markmiða. Þetta er auðvitað ekki alveg einföld nálgun og til eru efasemdarmenn um ágæti hennar. Í stefnumörkun um framtíð kennaramenntunar á Íslandi er þetta þó sú leið sem valin hefur verið og það sést vel á frumvarpsdrögunum nú.

Þegar málþingið 2008 var dregið saman í eina efnisgrein var þetta niðurstaðan:

„Kennarar framtíðar skulu menntaðir til að takast á við fjölbreytt, dagleg viðfangsefni skólastarfs á faglegan og farsælan hátt. Þeir skulu ekki síður vera menntaðir til að leiða framtíðarþróun skólastarfs hver á sínu sviði. Þetta skal gert í nánum tengslum við umhverfið þ.m.t. væntanlegan starfsvettvang með áherslu á hæfni til að eiga í samstarfi við ólíka aðila innan og utan skólans.“
 

Í febrúar 2009 skilaði starfshópur undir stjórn Önnu Kristínar Sigurðardóttur áfangaskýrslu um inntak og áherslur í fimm ára kennaramenntun. Þar var enn ítrekuð áhersla á hæfniviðmið:

„Skilgreind verði hæfniviðmið sem litið verði á sem almenn leiðarljós í kennaramenntun. Þau feli í sér þekkingu og færni til að skipuleggja kennslu sem hæfir ólíkum nemendum, rannsaka eigið starf, eiga samskipti við ólíka aðila, að vinna með samskipti, að leggja rækt við jákvæð viðhorf og mikilvæg gildi og hæfni til að vera leiðtogar á sviði kennslu og skólastarfs.“
 

Seinna sama ár var gerð tilraun til að setja niður á blað slík viðmið. Þau kölluðust á við málþingið frá því árið áður og skiptust í fjóra meginflokka:

Kennarar skulu ...

1. búa yfir þekkingu og færni til að skipuleggja nám og námsumhverfi sem hæfir ólíkum einstaklingum í fjölbreyttu samfélagi.

a.  búa yfir þekkingu og skilningi á sögulegu, félagslegu og menningarlegu gildi menntunar og skólastarfs.
b.  hafa frumkvæði og vera skapandi í skipulagi náms og námsumhverfis.
c.  geta aðlagað nám og námsumhverfi á þann vega að nemendur (börn, ungmenni og fullorðnir) geti unnið sjálfstætt og með öðrum.
d.  hafa gott vald á viðfangsefni sínu í kennslu.

2. geta átt samskipti við ólíka aðila og unnið með samskipti í skólastarfi.

a.  hafa á valdi sínu fjölbreyttar leiðir í samskiptum sínum við þá aðila sem tengjast skólastarfi; nemendur, foreldra, samkennara og annað fagfólk.
b.  vera fyrirmyndir í samskiptum og búa yfir hæfni til að styrkja félags- og samskiptafærni nemenda.

3. leggja rækt við jákvæð viðhorf og mikilvæg gildi.

a.  hafa þekkingu og færni til að vinna með siðferðileg og félagsleg gildi s.s. sanngirni, heiðarleika, réttsýni, víðsýni, lýðræði og mannréttindi.
b.  vera færir um að meta samfélagsleg gildi menntunar og setja í samhengi við hlutverk hvers skólastigs.

4. vera leiðandi á sviði uppeldis, náms og menntunar.

a.  hafa fræðilega þekkingu í uppeldis og menntunarfræði ásamt færni til að beita henni við skipulag og stjórnun.
b.  hafa yfirsýn yfir markmið og skipulag skólastarfs.
c.  vera færir um að beita þekkingu sinni og ígrunda, þróa og rannsaka eigið starf og starfshætti.
d.  hafa forsendur til að endurnýja starfshætti sína og stuðla að betri árangri með því að gera rannsóknir á eigin starfi og nýta rannsóknir annarra.
 

FRUMVARPIÐ NÚ

Af ofangreindu blasir við að vinnan fram að þessu hefur að miklu leyti snúist um að skilgreina hvað felist í nútímalegu kennarastarfi. Það eru gerðar miklu viðameiri kröfur til kennara nú en áður. Á árum áður var gjarnan talið að langskólamenntun fæli sjálfkrafa í sér hæfnina til að geta kennt, að sá sem kynni gæti kennt. Með upptöku fimm ára háskólanáms kennara felst frekari viðurkenning á kennurum sem sjálfstæðri fagstétt. Í frumvarpsdrögunum er reynt að ávarpa þetta.

Að þessu leyti eru kennarar ekki einsdæmi. Fleiri fagstéttir hafa fetað þessa braut. Það er til dæmis eftirtektarvert hve stétt endurskoðenda leggur ríka áherslu á starfsþróun og símenntun. Ef henni er ekki sinnt markvisst í a.m.k. 120 klukkustundir á hverju þriggja ára tímabili þá missa menn starfsréttindin! Þetta er krafa sem endurskoðendur gera sjálfir til sín, til að tryggja hæfni og orðspor stéttarinnar.

Í þeim frumvarpsdrögum sem hér eru til umræðu er almenn hæfni kennara skilgreind eins og kallað hefur verið eftir. Gengið er út frá þeirri vinnu sem unnin hefur verið fram að þessu með sérstakri hliðsjón af núgildandi aðalnámskrám. Hin almennu hæfniviðmið kennara eiga að virka stýrandi á menntakerfið í heild. Út frá inntaki þeirra á að skipuleggja kennaramenntun, mat á skólastarfi á að byggja á þeim, útgáfa starfsréttinda er á grundvelli þeirra, þau eiga að stýra ráðningum sem og starfsþróun og símenntun. Hér er því um að ræða ramma utan um allt nám og starf kennara.
 

HIN ALMENNU HÆFNIVIÐMIÐ

Og hver eru svo hin almennu hæfniviðmið samkvæmt lögunum?
 

Þau lúta að fimm þáttum:

 1. Hæfni til að skapa hvetjandi námsumhverfi sem tekur mið af markmiði og hlutverki laga um skólastigin og birtist í aðalnámskrám.
 2. Hæfni til að hafa í störfum sínum velferð og menntun nemenda að leiðarljósi og koma fram við þá af virðingu og fagmennsku sem byggist á lýðræði og jafnrétti.
 3. Hæfni til að vinna að jákvæðum skólabrag og öruggu skólaumhverfi og stuðla að samfélagslegri ábyrgð nemenda.
 4. Hæfni til að stuðla að farsælu og uppbyggilegu samstarfi við heimili og foreldra á jafnréttisgrundvelli.
 5. Hæfni til að vera faglegur leiðtogi sem leggur sig fram um að skapa umbótamiðað lærdómssamfélag, taka ábyrgð á eigin starfsþróun og vinna að henni alla starfsævina.
   

Þetta eru þeir almennu hæfniþættir sem frumvarpið gerir ráð fyrir að einkenni alla kennara, óháð kennslugrein og aldri nemenda. Það væri áhugavert að heyra frá kennurum hversu lýsandi og tæmandi þessir þættir eru að þeirra mati. Er einhverju þarna ofaukið? Vantar eitthvað? Eru þetta þættir sem eru of almennir til að vera grundvöllur fyrir krefjandi starf fagstéttar? Eru markmiðin jafnvel of háleit?

Sjálfur rek ég strax augun í eitt. Þarna er vissulega lögð áhersla á að vera faglegur leiðtogi í umbótamiðuðu lærdómssamfélagi en mér finnst að skerpa mætti á því að samstarf sé grundvallaratriði í skólastarfi framtiðar. Ekki aðeins við nemendur og foreldra heldur fyrst og fremst kollega og annað samstarfsfólk.. Ég samþykki þó að það kunni að felst í orðalagi fimmta punktarins. Ég hefði samt viljað sjá þetta sterkar dregið fram.
 

HIN SÉRHÆFÐA HÆFNI

Ég held það sé ekkert leyndarmál að það hefur reynst þrautin þyngri að skilgreina sérhæfð hæfniviðmið kennara í þessari vinnu. Sérstaklega vegna þess að ýmsir hagaðilar vilja eindregið að sé gert út frá forsendum núverandi skólastiga. Á einhverjum tímapunkti var uppi sú hugmynd að nægjanlegt væri að hafa almenn hæfniviðmið og skilgreina sérstöðuna þannig að kennari skyldi almennt hafa tök á því námsefni sem hann kenndi og þekkingu á þroska nemenda sinna. Kröfum um hæfni til kennslu í einstökum greinum eða áföngum væri þá hægt að stilla upp í reglugerðum eða með öðrum hætti. Sú leið sem varð fyrir valinu var þó að skilgreina sérstaka hæfni fyrir nokkra hópa og halda því opnu að sérhæfing gæti legið á fleiri sviðum (sem t.d. væri hægt að skilgreina í reglugerð).

Það hefur legið alveg fyrir að innan Kennarasambandsins hafa verið skiptar skoðanir um nákvæmlega þetta atriði. Stjórn KÍ stóð þó öll á því að skilgreining sérhæfðra viðmiða skyldi fyrst og fremst taka mið af áliti sérfræðinga innan háskólastigsins sem mest vit hefðu á þessum fræðum. Síðustu vikur hefur ráðuneytið unnið að útfærslum í samráði við háskólana og niðurstaðan er þessi:

Til að verða kennari þarf að hafa lokið meistaragráðu (eða hafa eldri réttindi). En auk þess gildir eftirfarandi:

Kennari með sérhæfingu á leikskólastigi hefur í háskólanámi sínu sérhæft sig í a.m.k. einu af námssviðum leikskólans í a.m.k. eina önn.

Samskonar krafa er gerð til grunnskólakennara.

Hafi kennari stundað jafngildi þriggja anna háskólanáms í listgrein eða bóklegri grein sem kennd er í framhaldsskóla getur hann kennt grunnáfanga á framhaldsskólastigi. Skiptir þá engu hvort viðkomandi kennari hafi lagt upp með að kenna á öðru skólastigi. Þó er krafist fyrstu háskólagráðu í þriðja tungumáli til kennslu þess í framhaldsskóla. Að öðru leyti er krafa um fyrstu háskólagráðu í grein almenna leiðin til að kenna list- og bóknám í framhaldsskóla eftir að grunnáföngum lýkur. 

Athygli vekur að menntun tónlistarskólakennara er nú metin jafngild annarri menntun kennara í fyrsta sinn - en það hefur verið baráttumál KÍ býsna lengi. Enda uppfyllir sú menntun öll sömu skilyrði og menntun annarra kennara. 

Starfsmenntakennarar í framhaldsskóla skulu ljúka starfsréttindaprófi í grein sinni og að minnsta kosti ári í uppeldis- og kennslufræði.

Skólastjórnendur skulu búa yfir hæfni í að leiða skólaþróun, við stjórnun, rekstur og stjórnsýslu - og hafa menntað sig til stjórnunarstarfa.
 

TENGSL HÆFNI OG STARFSÞRÓUNAR

Hugmyndin er sú að hér á landi sé aðeins ein kennarastétt sem þó hefur til að bera margvíslega hæfni. Hið nýja lögverndaða starfsheiti er „kennari“. Einstakir kennarar geta síðan stýrt starfsþróun sinni með þeim hætti að þeir eiga greiða leið á milli skólastiga. Kennarar geta bætt við og breytt sérhæfingu sinni á starfsferlinum. Sami kennari getur hæglega sérhæft sig til kennslu á mörgum skólastigum, t.d. með þvi að auka við nám sitt hvenær sem er a starfsævinni.

Hér vakna auðvitað strax nokkrar áhyggjur. Það gæti orðið freistandi fyrir kennaranema að fara með grunnum hætti í margt, frekar en að dýpka sig í fáu, til að eiga fleiri kosta völ. Það væri þó tvíeggjað. Slíkur kennari gæti átt erfitt uppdráttar í ráðningarferlinu gagnvart kennurum með dýpri þekkingu á viðkomandi viðfangsefnum. Og enn ber að hafa í huga að hér eru skilgreind lágmarksviðmið. Það má fastlega reikna með því að á næstu árum fjölgi mjög kennurum með meistarapróf í greinum og jafnvel doktorspróf.

Það er líka ástæða til þess að óttast flótta frá einu skólastigi til annars. Á móti þvi kemur að samkeppni milli skólastiga kann að afhjúpa veikleika í starfsaðstæðum og kjörum og þrýsta þannig á um umbætur.

Ástæða þess að þetta er ekki tæmandi lýsing sérhæfingar er sú að fyrir liggja (úr stefnumótunarvinnunni um framtíð kennaramenntunar) hugmyndir á borð við þær að sérhæfing þurfi ekki að vera einskorðuð við námsgreinar eða aldur nemenda. Þannig mætti hugsa sér kennara með sérhæfingu í geðræktarstarfi, leik, notkun upplýsingatækni, jafnréttismálum, skólaþróun, nýsköpun, frumkvöðlastarfi eða teymiskennslu. Það er algjörlega í samræmi við þá hugmynd að kennarar séu nútímaleg fagstétt að sérhæfing geti legið á stærra sviði en svo að stundaskrá nemenda sé tæmandi lýsing þess. Hér er verið að reyna að halda slíkum dyrum opnum og væntanlega yrðu það kennarar og kennaramenntunarstofnanir sem bæru mestu ábyrgðina á því að stýra kennarastarfinu í þær áttir sem aðstæður krefjast hverju sinni. Það kæmi líka til kasta kennararáðs.
 

KENNARARÁÐ

Í tillögum starfshópsins frá 2005 var kallað á stofnun kennsluráðs. Sú hugmynd er inni í lagafrumvarpinu nú. Það kallast þó kennararáð nú, en þessi hugtök hafa verið notuð jöfnum höndum hingað til í umræðunni.

Ráðherra skipar formann ráðsins og einn fulltrúa til. Kennarasambandið velur þrjá (fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla), Menntamálastofnun einn, Samband íslenskra sveitarfélaga einn og Skólameistarafélag Íslands einn. Þá eru þrír fulltrúar frá kennaramenntunarstofnunum.

Ráðið á að veita ráðgjöf um þróun og breytingar á hæfnirömmum og stinga upp á þeim breytingum sem æskilegar eru til að kerfið þróist hér með eðlilegum hætti. Það á að vakta sérstaklega þróun menntamála hér á landi og erlendis og hafa áhrif á menntun og stöðu kennara. Ennfremur á það að reyna að beita sér fyrir því að efla stöðu kennara í íslensku samfélagi.
 

ÖNNUR ATRIÐI

Í drögunum er gert ráð fyrir að Menntamálastofnun gefi út leyfisbréf og að kennsluréttindi tekin erlendis séu gild að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Hér vakna auðvitað spurningar sem vert er að velta fyrir sér. Í almennum hæfnikröfum er hvergi getið um að kennarar skuli hafa vald á íslensku máli. Það væri fróðlegt að fá fram djúpa umræðu um það atriði. Ættum við að gera slíkar kröfur og ættu þær að ná til allra kennara, kennslu allra greina eða nemenda? Hvernig er þessum málum háttað erlendis? Gilda íslensk kennarapróf í öðrum löndum?

Þá vekur athygli að drögin gera ráð fyrir tvennskonar meistaragráðu til kennsluréttinda. Nemendur geti valið að ljúka rannsóknarmiðuðu námi sem lýkur þá með formlegri meistararitgerð eða með annarskonar lokaverkefni. Kjósi nemandinn að fara seinni leiðina þarf hann að bæta við sig rannsóknarmiðuðum verkefnum til að komast í doktorsnám.
 

LEIÐBEINENDUR HVATTIR TIL NÁMS

Í drögunum er gert ráð fyrir því að leiðbeinendur sem fari í réttindanám njóti nokkuð aukinna réttinda frá því sem nú er. Þannig geti skólastjórnandi ráðið inn t.d. einstakling með háskólanám í námsgrein og haldið ráðningasambandi við hann í allt að tvö ár ef hann fer að sækja sér kennsluréttindi. Með þessu er hugmyndin sú að skapa hvata til kennaramenntunar. Hér er líka verið að mæta þeirri staðreynd að framhaldskólakennarar koma gjarnan þessa leið að kennslu.
 

AÐ LOKUM

Ég held ég hafi gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsdraganna hér að ofan. Nú hvet ég kennara til að lesa frumvarpsdrögin vandlega. Mér skilst að menntamálaráðherra taki samráðsferlið alvarlega og muni taka til náinnar skoðunar allar athugasemdir sem berast. Hugmyndin með frumvarpinu er skýr: Að búa til í landinu grunn undir eina stétt kennara sem sérhæfi sig á sem fjölbreyttastan hátt. Þá er von ráðherra sú að kennarastarfið verði meira aðlaðandi í augum ungmenna sem sjái fram á meiri möguleika og hreyfanleika en í mörgum öðrum störfum.

Í grunninn er um að ræða breytingar sem háskólasamfélagið, kennaraforystan og aðrir hagaðilar hafa verið að kalla á í meira en áratug. Hvort útfærslan sé vel heppnuð eða ekki kemur eiginlega ekki í ljós fyrr en nú í samráðsferlinu þegar (vonandi) þúsundir kennara skoða málin í kjölinn, ræða drögin og gefa síðan upplýst álit á þeim.

Þess vegna skora ég á kennara að nota samráðsgáttina, samfélagsmiðla eða hvaða vettvang sem er til að fjalla um þessar breytingar.

Umsagnarfrestur er til 8. mars.

 

Tengt efni