is / en / dk

20. Febrúar 2019

Flestum er orðið ljóst að það er að skapast býsna alvarleg staða á vinnumarkaði. Fátt virðist geta komið í veg fyrir átök. Þau átök gætu orðið af annarri stærðargráðu en við erum vön – og jafnvel falið í sér bæði verkföll og verkbönn.

Spennan hefur verið að aukast jafnt og þétt. Aðgerðir til að draga úr henni virðast ekki ætla að duga. Á sama tíma hefur staðið yfir skilgreiningarstríð – þar sem ólíkir aðilar reyna að mála þá mynd af atburðarásinni sem betur hentar þeirra hagsmunum og heimsmynd. Sú mynd virðist oftast lenda á einhverjum kvarða þar sem ástandið er skrifað á fámennan hóp ófriðarseggja á öðrum jaðrinum en handónýtt samfélag ójafnaðar á hinum.

Ef allt fer á versta veg má ætla að lærðar greinar verði skrifaðar um atburðarásina sem leiddi okkur hingað. Þetta er fáránleg staða ef tekið er mið af aðstæðum. Þjóðin fór hér saman í gegnum hrun og tók á sig þungar byrðar. Í kjölfarið lagðist margt á sveif með okkur. Eldgos sópaði hingað ferðamönnum og hafstraumar fylltu sjóinn af makríl. Kaupmáttur jókst og verðlag hélst stöðugra en við erum vön.

Hvernig í ósköpunum stendur þá á því að við stöndum hér nú á barmi stórátaka?

Ég held að ástæðan sé hvorki sú að hér hafi fámennum hópur ófriðarseggja komist til áhrifa né sú að íslenskt samfélag sé svo helþjakað af ranglæti að einhverskonar lokaorrustu þurfi að heyja. Ég held að sannleikurinn sé töluvert einfaldari en það. Við höfum einfaldlega rekið íslenskt samfélag frekar illa. Okkur eru stundum verulega mislagðar hendur í að vera þjóð.

Pólitískur óstöðugleiki
Hið pólitíska ástand á Íslandi hefur verið óboðlegt, svo það sé bara sagt. Við sjáum þess dæmi, bæði í landsmálum og á sveitarstjórnarstigi, að ástunduð eru stjórnmál og samskipti sem eru langt fyrir neðan virðingu allra sem að þeim koma. Stjórnmálamenn setja leikreglur íslensks samfélags. Það er þeirra að sjá til þess að hér sé brugðist við aðstæðum hverju sinni svo stuðla megi að friði og farsæld. Í raun er það ekki þannig. Það sem eiginlega er verst er að þjóðin er nánast hætt að búast við nokkru af stjórnmálamönnum. Þannig er verkalýðsforystan kjöldregin ef hún fer fram með kröfur eða hugmyndir sem taldar eru róttækar. Hlutabréf virðast falla í verði og krónan líka, vextir fara á flug og fyrirtæki fara að segja upp fólki ef verkalýðshreyfingin gerir kröfur sem bragð er að. Stjórnmálamenn mega hinsvegar lofa nánast hverju sem og jafnvel hrinda því í framkvæmd án þess að nokkur kippi sér upp við það. Kannski stafar munurinn af því að “markaðurinn” býst ekki við að stjórnmálamenn standi við nokkurn skapaðan hlut - en að ætlast er til að verkalýðsforkólfar standi við orð sín. 

Meðan stjórnmálin eru óstöðug og óboðleg verður samfélagið sem á þeim er byggt ævinlega brogað.

Aðgerðir og aðgerðaleysi
Þeir sem mála fallega mynd af efnahagsstöðu Íslands hafa nokkuð til síns máls en hafa samt tilhneigingu til að gleyma því að stjórnvöldum urðu á risastór mistök eftir hrun. Mikill fjöldi fólks fór mjög harkalega út úr hruninu. Þúsundir misstu heimili sín. Tilraunir stjórnvalda til að skapa nýja tegund af húsnæðismarkaði misheppnuðust að verulegu leyti og leiddu til mikilla erfiðleika hjá viðkvæmum samfélagshópi. Aðgerðarleysi í kjölfarið dýpkaði vandann. Eftir hrun virðist hreinlega hafa verið tekin meðvituð ákvörðun um að gefa viðskiptalífinu vítamínsprautu á kostnað almennings, án þess að passað væri nægilega upp á viðkvæma hópa. 

Einna háværustu kröfur verkalýðshreyfingarinnar hafa snúið að nákvæmlega þessu. Að hér sé byggt upp samfélag þar sem fólk getur treyst á það að það eignist og eigi heimili og að grundvallarréttinda sé gætt. Þegar slíkur grundvöllur er orðinn ótraustur þá er ekki að furða að hiti sé í aðgerðum. Munum að hátt í þúsund börn alast upp í atvinnuhúsnæði í hinu ríka, íslenska samfélagi. Það er óboðlegt og til skammar.

Skortur á trausti
Rétt fyrir hrun var það vinsæl skoðun að heimskreppur yrðu ekki fleiri. Samfélögin væru orðin svo þroskuð að kreppuvarnir væru innbyggðar í þau. Svo hrundi allt. Önnur kreppa kann að vera í sjónmáli. 

Átök á vinnumarkaði eru auðvitað líka kreppa. Það er þess vegna kaldhæðnislegt að í aðdraganda þeirrar stöðu sem nú er komin upp hefur verið hamast við að reyna að breyta grundvallareðli íslensks vinnumarkaðar og kjaraþróunar.

Íslensk kjaraþróun er auðvitað glórulaus. Kjarabætur koma gjarnan í rykkjum og langoftast eftir átök. Gremja og reiði er látin stigmagnast uns ekkert verður við neitt ráðið og svo springur allt með hvelli. Þetta er dýrkeypt aðferðafræði.

Grunnskólakennarar náðu t.d. býsna góðum kjarasamningi árið 2008. Sá samningur var í raun fyrsti alvöru samningurinn eftir gríðarlega mikil verkfallsátök árið 2004. Smám saman rýrnaði ávinningurinn af samningnum, eins og gengur, en fórnarkostnaðurinn af átökunum 2004 var kominn til að vera. Töluverður hópur kennara yfirgaf stéttina og hefur ekki snúið aftur.

Á Norðurlöndum hefur verið farin sú leið að reyna að útrýma rykkjum í kjaraþróun og láta laun hækka smátt og smátt í takt við sveiflur hagkerfisins. Með því á m.a. að koma í veg fyrir óþarfa fórnarkostnað og átök. Tilraunir til að koma á svipuðu kerfi hér hafa nánast verið dauðadæmdar því hér vantar grundvallaratriði í jöfnuna: Traust.

Það er ekkert traust á íslenskum vinnumarkaði. Það er lítið traust í samskiptum aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda. Og traust er ekki hægt að framleiða. Traust verður til sem hliðarafurð góðra verka. Góð verk hafa verið of fá.

Væntingastjórnun
Ég held ég hafi ekki heyrt neitt hugtak oftar síðustu vikur og mánuði en „væntingastjórnun“ í umræðum um hlutverk stéttarfélaga. Mér hefur þótt gæta nokkurs misskilnings í því hvernig hugtakinu er beitt. 

Almennt er ég á því að það sé ekki hlutverk verkalýðsforkólfa að stýra væntingum félagsmanna sinna. Fólk í forystu á miklu frekar að vinna út frá væntingum félagsmannanna. Það er þó fyrst mögulegt ef félagsmenn eru nægilega upplýstir um mál.

Launþegar, hvort sem það eru ræstitæknar, kennarar eða hjúkrunarfræðingar, hafa til að bera miklu meira en næga skynsemi til að ákveða sjálfir hversu þeir vilja sækja fram og hversu miklu má til kosta. Í öllum hópum eru einhverjir herskáir og aðrir varfærnir. Þess vegna er það lýðræðislegt verkefni af þyngri gerðinni að taka t.d. ákvarðanir um aðgerðir. Slík ákvarðanataka verður að vera upplýst og byggja á einhverju öðru en óljósri réttlætiskennd eða tilfinningu.

Hér finnst mér vanta mikið upp á. Það þarf að stórefla upplýsingagjöf til almennings - og minnka áróður.

Stjórnvöld með og án grímunnar
Það flækir núverandi stöðu nokkuð hve grímulaust stjórnvöld hafa tekið þátt í kjaraviðræðum. Strangt til tekið má ekki fara í verkfall til að hafa áhrif á skattkerfið eða löggjöf. Raunin er samt sú að hér hafa ekki átt sér kjaraumræður árum eða áratugum saman án þess að stjórnvöld komi að þeim með margvíslegum hætti. Oftar en ekki, og líka nú, liggur fyrir að stjórnvöld vilja að í kjarasamningum sé um leið samþykkt að greiða götu tiltekinna stefnumála eða þingmála. Það er auðvitað alveg jafn vafasamt og þegar það virkar á hinn veginn. Þetta tvennt er því, og hefur lengi verið, algjörlega samansúrrað, kjaraviðræður og lagasetning, og það er hræsni af hárri gráðu að láta sem svo sé ekki nú.

Það er gríðarmikil uppsöfnuð stöðuorka í þessum snertipunkti stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar. Aftur stafar það af því að traustið er ekki til staðar. Við munum öll hvernig fór með lífeyrismálin. Þau eru bara toppurinn á ísjakanum. Undir yfirborðinu lúra almannatryggingarmál og vinnumarkaðsmál svo eitthvað sé nefnt. Í stað þess að ræða þessi mál fyrir opnum tjöldum liggja þau á sameiginlegu borði stjórnvalda og verkalýðshreyfingar og kerfið reynir að þoka þeim áfram þegar fyrirstaðan er sæmilega lítil.

Þannig á ekki að vinna. Það kemur manni alltaf í koll á endanum. Miklar breytingar verða að grundvallast á miklu trausti.

Glætur í myrkrinu
Í stöðunni eru nokkrir ljósir punktar. Stjórnvöldum má hrósa fyrir að hafa tekið upp víðtækara og nánara samtal við verkalýðshreyfinguna en oft hefur verið. Það hefur farið fram úttekt á húsnæðis- og skattamálum og í grunninn virðist vera vilji til að þoka málum í svipaða átt – þótt ljóst sé að miklu munar á því sem aðilar vilja sætta sig við í þeim efnum.

Þá hefur nýr forseti ASÍ tekið upp víðtækara samtal, þvert á vinnumarkaðinn, en oft hefur tíðkast. ASÍ er auðvitað langstærsti aðilinn á íslenskum launþegamarkaði og meðan vinnumarkaðsmenningin snýst um að beita aflsmunum og þjösnast áfram þá komast fáir aðrir að nema með þeim mun harkalegri aðgerðum. Aukið samtal milli aðila getur orðið grunnur að trausti.

Samtal forystu opinberu stéttarfélaganna er ennfremur náið, hreinskilið og gott.

Þá hlýtur það að teljast styrkur að þeir sem ganga harðast fram innan verkalýðshreyfingarinnar fara fyrir kröfum um almenn réttlætismál, eins og kjör láglaunafólks og húsnæðismál.

Hin blindandi hagsmunagleraugu
Heimspekikennarinn Jóhann Björnsson sagði á fundi einu sinni að reynsla hans sýndi að nemendahópar fylgdu yfirleitt besta röklega þræðinum í samræðu. Það er enda svo að skynsemin í fólki er yfirleitt áþekk. Í stjórnmálum og verkalýðspólitík ætti þetta að vera eins. Svo er þó ekki. Um leið og fólk setur upp hagsmunagleraugun hverfur skynsemisþráðurinn sjónum eins og skot.

Hagsmunagæsla er tæringarafl í samfélaginu. Það ætti að vera okkur öllum ljóst að styðja þarf vel við þá sem hafa það verst í íslensku samfélagi og tryggja öllu fólki þak yfir höfuðið. Það er beinlínis hættulegt að láta sem svo sé ekki, sérstaklega nú þegar við sjáum merki þess að hópar (t.d. börn af erlendum uppruna) séu að einangrast í samfélaginu. Ef við gætum okkar ekki sköpum við okkur samfélagsvandamál af áður óþekktri stærð. Slíkt getur þó auðveldlega gerst ef hinn almenni Íslendingur skilgreinir hagsmuni sína út frá eigin sjóndeildarhring.

Lausnir?
Ef við hefðum vandað okkur meira værum við ekki á þessum stað. En hér erum við samt. Auðvitað vonum við að aðilar nái saman – en sú von er frekar veik þegar þetta er skrifað. 

Enn sem komið er virðast átök nánast eina leið þeirra starfsstétta, sem ósýnilegar eru gegnum hagsmunagleraugu fjöldans, til að ná sjónum almennings.

Það kann að leynast von í því að stjórnvöld hafa þegar gengist við því að gera húsnæðismál, jafnréttismál, mannréttindamál (t.d. hvað varðar illa meðferð verkafólks) og skattamál að áhersluatriðum til að liðka fyrir samningum. Fólk er þá allavega að reyna að stefna í sömu átt þótt deilt sé um hve langt skuli fara.

Ef svo fer að ófriðurinn nú skili umbótum á þessum sviðum gæti það orðið grundvöllur trausts.

Við kennarar bíðum svo auðvitað spenntir eftir útspili þessara sömu stjórnvalda sem kallað hafa eftir þjóðarsátt um kjör kennara, m.a. til að styðja við þær breytingar á kennarastarfinu sem orðnar eru og eiga eftir að verða – og, til að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin í menntakerfinu og er að hluta til komin vegna fórnarkostnaðar við það að standa illa að þessum málum hingað til.

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands

 

Tengt efni