is / en / dk

31. Janúar 2019

Af mörgum mögnuðum ræðum sem fluttar hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er ein í sérstöku uppáhaldi hjá mörgum. Það er ræða sem Malala Yousafzai flutti sumarið 2013. Ræðuna flutti hún tæpum tveimur árum eftir að vígamaður talíbana ruddist inn í skólabíl til að myrða hana og skaut hana í höfuðið.

„Ég er ekki á móti neinum.“ sagði hún, „Ég stend hvorki hér til að ná fram hefndum gegn talíbönum né öðrum hryðjuverkahópum. Ég er hér til að mæla fyrir rétti hvers barns til menntunar. Ég vil að synir og dætur talíbana og annarra hryðjuverka- og öfgamanna njóti menntunar.“

Malala lagði áherslu á boðskap mildi og friðar. Hún rakti þráð gegnum megintrúarbrögð heimsins og ræddi stuttlega um nokkra merka boðbera friðar sem hefðu orðið henni innblástur. Loks skýrði hún frá þeirri sannfæringu sinni að gamla viðkvæðið væri rétt: Penninn er máttugri en sverðið. Öfgamenn (þar með taldir talíbanar) óttast ekkert meir.

Umvafin sjali úr eigu Benazir Bhutto (sem sjálf var myrt af tilræðismanni) lagði Malala áherslu á að leiðtogar heims legðu sitt af mörkum til að mjaka mannkyni áfram í vegferð til menntunar og friðar. Tryggja þyrfti valdeflingu fólks og vopna það með þekkingu en verja það með samhug og hlýju.  

Undir lok ræðu sinnar sagði hún þessi orð sem síðan eru fleyg:
„Við skulum heyja dýrðlega baráttu gegn ólæsi, fátækt og hryðjuverkum, tökum upp bækur okkar og penna því við höfum engin öflugri vopn. Eitt barn, einn kennari, ein bók og einn penni geta breytt heiminum. Menntun er eina svarið.“

Síðan ræðan var flutt hefur margt færst til betri vegar í heiminum. Við erum svo sannarlega á réttri leið að mörgu leyti. En þó ekki öllu. Það hlýtur að vekja okkur ugg hve andstæður menntunar og friðsældar, fáfræði og átök, virðast eiga greiða leið upp á pallborðið víða um heim.

Malala hélt, eins og við flest, að hin auðugu ríki heims gerðu sér fulla grein fyrir mikilvægi menntunar og friðsældar. Hún hvatti íbúa þessara ríkja til að leggja sitt af mörkum til hinna fátækari; gefa bækur og byggja skóla.

Vissulega erum við aflögufær. Vissulega eigum við að gefa af okkur. Við megum samt ekki sofna á verðinum og vanrækja okkur sjálf. Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinu ríki (Ísland er þar meðtalið) sem ekki sýnir þessi misserin býsna ljóta myglubletti af völdum fáfræði og átaka.

Fyrir allnokkrum misserum birti Stanfordháskóli röð fyrirlestra á Youtube undir heitinu „Eðlisfræði fyrir forseta framtíðarinnar“. Í fyrirlestrunum var grundvallaruppgötvunum í raunvísindum gerð skil á býsna krefjandi en aðgengilegan hátt (stærðfræðijöfnum var haldið í algjöru lágmarki). Titillinn vísaði til þess að valdamesti maður heims þyrfti að þekkja heiminn sem hann hefur svona mikið vald yfir. 

Fyrir tveimur dögum tjáði forseti Bandaríkjanna sig um loftslagsmál og hæddist að hlýnun jarðar því nú um þessar mundir herja fordæmalitlar frosthörkur á landið! 

Nú vill svo til að höfundur Stanfordfyrirlestranna áðurnefndu var sjálfur um hríð efasemdarmaður um viðtekin loftslagsvísindi. Við nánari skoðun skipti hann um skoðun. Það er enda aðall vísinda, að gangast við því þegar maður hefur á röngu að standa.

Það eru ekki aðeins vaxandi öfgar í veðurfarinu okkar þessi misserin – við sjáum sömu merki í mannlífinu. Aristótelsi eru oft eignuð (ekki alveg réttilega þó) þau orð að það sem einkenni hinn menntaða huga sé að geta rannsakað hugmynd án þess að fallast á hana. 

Sá eiginleiki er á undanhaldi. Það er rík tilhneiging til að meitla skoðanir í stein, sem síðan er notaður sem barefli. Sem þó er líklega skárra en hin greinilega þróun (sem til dæmis er áberandi hjá títtnefndum Bandaríkjaforseta) í átt til þess sem Orwell lýsti svo:
„Tvíhyggja er hæfileiki einstaklings til að hafa tvær andstæðar skoðanir á sama tíma – og trúa þeim báðum.“

Við verðum að spyrna við fótum. Það kann vel að vera að myglublettir heimsku og hörku séu víðfemari í uppsveitum Pakistan en í innviðum Hvíta hússins – það þarf ekki að segja neitt um skaðsemina.

Við þurfum heldur ekki að horfa lengi í eigin barm til að átta okkur á því að stórir þættir í samfélagsgerðinni okkar hér á Íslandi og sérstaklega í umræðunni eru langt fyrir neðan virðingu okkar.

Þegar hið „ósökkvandi“ skip Titanic sigldi utan í ísjakann með þeim afleiðingum að skipið tók að sökkva var skipstjóri þess í fyrstu afar röggsamur og áberandi. Þegar leið á kvöldið og honum varð ljóst umfang vandans (sem fyrst og fremst kom til af því að það voru hvergi nærri nógu margir björgunarbátar um borð því skipafélagið hafði valið útsýni fram yfir öryggi) varð hann smátt og smátt þögulli og loks dró hann sig í hlé og ákvað að fara niður með skipinu.

Við erum dálítið svona.

Við vitum að jörðin okkar hefur orðið fyrir óafturkræfum skaða. Við erum meðvituð um djúpstætt athafnaleysi okkar. Við vorum á tíma hávær og röggsöm en höfum orðið þögulli eftir því sem umfang vandans hefur vaxið. Við vitum að það þarf eitthvað að gera en virðumst alvarlega vera að spá í að „fara niður með skipinu“. 

Lausnin á vandanum liggur líklega hjá næstu kynslóðum. Þess vegna ættum við að leggja sérstaklega við hlustir þegar unga fólkið talar. Það er ekki jafn lémagna. Unga fólkið kemur til með að breyta því sem þarf að breyta – fái það til þess tækifæri.

Fáfræði er meira vandamál í heiminum en bensín. Grimmd er meira vandamál en plast. 

Boðskapur Malölu felur í sér sígild sannindi um leið mannkyns fram á við úr erfiðum aðstæðum. Hann á jafn vel við á ólíkum stöðum og ólíkum tímum.

Það væri æskilegt að íslenskt samfélag drægi núna djúpt andann og reyndi að lyfta sér ögn yfir dægurþrasið. Það er nægur tími til að rífast um pálmatré og strá. Það er hins vegar alveg nauðsynlegt að við minnum okkur sjálf á að tvö langstærstu verkefnin sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð – nei, sem fólk – eru umhverfismál og málefni menntunar.

Báðir málaflokkar þurfa sárlega á athygli okkar að halda og þótt lausnirnar blasi ekki alltaf við þá ætti okkur að vera nokkur huggun í þeim sannindum að „[e]itt barn, einn kennari, ein bók og einn penni geta breytt heiminum.“

 

 

Tengt efni