is / en / dk

14. Janúar 2019

Kennaraskortur er þversögn. Það ætti ekki að vera neinn kennaraskortur á Íslandi. Þetta er grundvallarstarfstétt. Sífellt fleiri sækja háskólamenntun. Jafnvel á tímum örra samfélagsbreytinga er kennsla líklega öruggasti starfsvettvangur sem hægt er að hugsa sér. Fólk sem fer í kennslu í dag og reynist fært í sínu fagi getur nánast gengið að því sem vísu að það geti starfað við það út ævina, hafi það áhuga á því. Það er meira en mjög margar starfsstéttir geta treyst á. Þegar vel gengur er þetta skemmtilegasta starf í heimi. Ef allt væri eðlilegt væri slegist um kennarastörf.

Samt er kennaraskortur.

Hið óhugnanlega er að kennaraskortur er nánast orðið megineinkenni vestrænna samfélagsgerða. Það skiptir nánast engu máli hvert er horft, staðan er sú sama alls staðar.

Þess vegna dugar ekki að horfa á sérkenni einstakra samfélaga og draga af þeim stórar ályktanir um orsakir kennaraskortsins. Nær er að reyna að sjá hvað þær þjóðir eiga sameiginlegt sem nú glíma við stigvaxandi kennaraskort.

Það verður að teljast afar líklegt að kennaraskortur nútímans standi að minnsta kosti í einhverjum tengslum við það sem kallað hefur verið „umbótaplágan“ í menntakerfum heimsins. Umbótaplágan á rætur í samfélagsbreytingum sem urðu í hinum engilsaxneska heimshluta á 9. áratug síðustu aldar.

Baráttan um skólana
Þegar framtíð íslensks skólakerfis er skipulögð er mikilvægt að huga að sögunni. Hugmyndir um almenna skóla hér á landi stóðu í beinu sambandi við baráttu þjóðarinnar fyrir sjálfstæði. Það lá ljóst fyrir að ef þjóðin ætti að verða þjóð meðal þjóða þyrfti hún að taka að sér fjölmörg verkefni sem áður voru í höndum erlends valds. Að sumu leyti minna fyrstu áratugir nútímalegra menntaumbóta hér á landi á andann í hinni frægu sögu Sigurðar Nordal „Ferðin sem aldrei var farin.“ Þjóðin ætlaði að leggja upp í mikla óvissuferð og þurfti því að undirbúa sig eftir því með því að auka færni sína meira en minna. Barnaskólar skutu upp kollinum hringinn í kringum landið, námsgreinum fjölgaði gríðarlega og í Reykjavík var settur á fót háskóli. Enginn vissi hvort nemendur þyrftu að nota allt sem þeir lærðu – fólk vissi bara að það var betra að geta meira en minna; fleira en færra. Þannig gæti orðið til hér á landi lýðræði sem stæði undir nafni í fjölbreytni sinni.

Hinn lýðræðislegi þráður var sterkur í íslensku skólakerfi alla síðustu öld. Markmiðið var að gera börn að góðum borgurum, fagna fjölbreytileika mannlífsins og auðga hið íslenska samfélag með margvíslegum hæfileikum. Hátindinum var líklega náð árið 1974 með þeirri róttæku breytingu sem þá var gerð á lögum um grunnskólann.

Tuttugasta öldin var öld átaka. Það, að skólinn væri samgróinn við samfélagið, hlaut fyrr eða seinna að valda átökum um skólana. Hér á landi urðu veruleg átök rétt fyrir miðjan níunda áratug. Kveikjan að þeim var námsgreinin „samfélagsfræði.“ Í þeirri deilu, sem oftast er kölluð „Sögukennsluskammdegið“ kristallaðist ágreiningur um hlutverk grunnskólans í lífi nemandans og nemandans í hinu stærra samfélagi. Fólk fór að vilja setja fjölbreytninni skorður. Enn í dag er grundvallarmarkmið skólastarfs lýðræðið – en fjölbreytnin á undir högg að sækja.

Þversagnarkennt skólakerfi
Íslenskt skólakerfi varð þversagnarkenndara eftir því sem nær dró aldamótum. Skóli án aðgreiningar var festur í sessi í stefnumörkun og vald yfir skólunum var flutt til einstakra sveitarfélaga í stærstu valddreifingaraðgerð íslensku skólasögunnar. Á sama tíma, sérstaklega í grunnskólalögunum frá 1995, var fest í sessi stöðlun í námi og kennslu.
Stöðlunin er skýrasta megineinkenni umbótaplágunnar í menntun. Hún tekur gjarnan á sig þá mynd (og þannig var það líka hér á landi) að fest er í sessi námskrá sem er svo metnaðarfull að útilokað er með öllu að markmið hennar náist. Á sama tíma eru teknar upp samræmdar mælingar á námsárangri. Ég man vel þegar ég hóf nátttúrufræðikennslu snemma á þessari öld. Fyrir lágu nákvæmir listar í nokkrum þyngdarstigum yfir námsefnið sem fara átti fyrir. Samræmd próf voru í greininni og búið var að skilgreina hve mörg atriði yrðu til prófs af hverju þyngdarstigi. Kennslubækurnar voru samdar eða staðfærðar út frá listunum. Ef ég hefði átt að fara yfir öll atriðin á gátlistanum hefði ég þurft að skipta um efnisatriði á 20 mínútna fresti.

Að sumu leyti var náttúrufræðikennsla á Íslandi góð á fyrsta áratug aldarinnar (líklega víðast í nokkuð betri málum en nú). Stöðlunin hafði þó býsna alvarlegar afleiðingar. Kennslan varð fljótt úrelt. Gríðarlegar framfarir og breytingar hafa orðið í raungreinum á síðustu áratugum og þær skiluðu sér seint og illa inn í kennsluefnið.

Það er í sjálfu sér sjónarmið að kennsla geti verið góð þótt námsefnið sé úrelt. Er ekki sagt að menntun sé það sem sitji eftir þegar maður hefur gleymt öllu sem maður hefur lært? Sjálfum finnst mér þetta sjónarmið raunar býsna áhugavert. Einhver allra besta kennslubók í raunvísindum sem ég hef lesið er frönsk bók, „Hvers vegna? Vegna þess!“, sem kom fyrst út í íslenskri þýðingu fyrir þarsíðustu aldamót. Á sama hátt held ég að heilmikil menntun geti verið fólgin í því að lesa Platón og Aristóteles, því þótt þeir hafi á röngu að standa um býsna margt þá hafa þeir sérstaklega glæsilega á röngu að standa – og sumt stenst tímans tönn og vel það.

Þrátt fyrir það var það býsna pínlegt hve margt í raungreinakennslu var dottið úr tengslum við raunveruleikann. Opinbert kennsluefni í stjörnufræði varð til dæmis á endanum ónothæft og í raun hjákátlegt við hlið glæsilegs námsefnis sem t.d. Sævar Helgi Bragason birti á Stjörnufræðivefnum af eigin frumkvæði.

Hin einkenni skólaumbótaplágunnar
Annað einkenni umbótaplágunnar í menntun er þrenging námskrárinnar. Hana leiðir kannski af sjálfu sér af fyrsta einkenninu. Þegar búið er að setja fram gersamlega óraunhæfar kröfur í námsgreinum sem fylgt er eftir með gildishlöðnu „gæðamati“ er nær öruggt að þær greinar sem prófað er úr fari að verða fyrirferðarmeiri í skólastarfinu – og sérstaklega þeir námsþættir sem prófað er úr.

Hnignun list- og verknáms á Íslandi stendur að einhverju leyti í sambandi við þetta – eins og raunar í ýmsum öðrum löndum. Ég heyrði því raunar haldið fram um daginn að börn sem fæddust upp úr miðri síðustu öld hafi fengið meira nám í list- og verkgreinum en börn sem sitja á skólabekk í dag – og það þrátt fyrir að skólaárið sé nú miklu lengra!

Þriðja einkenni umbótaplágunnar er að einsleitar náms- og kennsluaðferðir fara að festast í sessi. Heilar kynslóðir hafa nánast ekki aðra reynslu af kennslu í ákveðnum greinum en að þar hnitist allt um glærur og fyrirlestra. Þá er vinnubókakynslóðin orðin býsna stór hérlendis sem víðar.

Um helgina var þáttur í sjónvarpinu um dönsk börn sem fylgst hefur verið með síðan þau hófu grunnskólagöngu. Þar var sýnt hvernig ungur, orkumikill drengur lærði margföldunartöfluna með því að sippa eftir ákveðnu kerfi. Í tíunda bekk var hann látinn sitja og hlusta á fyrirlestra.

Það er frumlegt og líklega árangursríkt að nota sippubönd í stærðfræðikennslu. Umbótaplágan leikur þó slíkar kennsluaðferðir grátt og smám saman verða ofan á ófrumlegar kennsluaðferðir lítillar áhættu. Þetta sést kannski hvergi betur en í námi kennaranema sem býsna lengi var harðlega gagnrýnt af nemum sem sáu berlega misræmið þegar haldnar voru raðir fyrirlestra um gagnleysi fyrirlestraformsins.

Fjórða einkenni umbótaplágunnar er einkar rökrétt framhald af framansögðu. Menntun verður þá iðnaður sem álitinn er lúta sömu lögmálum og annar iðnaður. Skólar og menntakerfi eru í auknum mæli skipulögð eins og stórfyrirtæki. Við það flyst breytingarmáttur kerfisins frá kennurum og nemendum til ýmiskonar kerfisstjórnenda. Breytingar koma ofan frá.

Þau sem starfað hafa í áratugi í menntakerfinu hér á landi tóku mjög vel eftir þessum breytingum. Nýsköpun hætti ekki að vera kjarni skólastarfs – en hún fór í auknum mæli að koma fram sem tilmæli frá stjórnendum á kennarafundum. Rými kennara til sköpunar skólastarfs minnkaði ekki aðeins heldur hefði það í mörgum tilfellum þýtt að viðkomandi kennari hefði synt á móti straumnum. Nýsköpun í skólastarfi verður að koma úr grasrótinni ef vel á að vera. Skólar eru nýsköpunarfyrirtæki – ekki alþjóðlegar skyndibitakeðjur.

Þau menntakerfi sem lengst gengu í þessum efnum fléttuðu inn í kerfin verðlaunum eða refsingum. Skólum og stjórnendum var ætlað að sæta ábyrgð á slöku gengi. Fjármögnun til skóla var jafnvel skilyrt við tiltekin mælanlegan árangur.

Þegar þangað er komið er voðinn vís. Uppskeran er yfirleitt á formi ótta, blekkinga og kerfisbundins svindls. Skólar reyna að halda frá skólanum nemendum sem taldir eru stefna árangri skólans í hættu. Nemendur sem reynast slakir í kjarnagreinunum eru teknir úr öðrum greinum sem jafnvel eiga betur við þá til að þrælast í gegnum aukatíma í staglinu.

Þegar hingað er komið er stríðið á hendur fjölbreytileikanum fullkomnað og skaðinn óumflýjanlegur.

Umbótaplágan er misskilningur um menntun
Umbótaplágan hefur valdið verulegum skaða á skólakerfum heimsins. Hún hefur bitnað á heilli kynslóð nemenda og valdið víðtækum erfiðleikum í skólakerfum – þar á meðal alþjóðlegum kennaraskorti.

Þar sem umbótaplágan fær að grassera er kennaraskortur nánast óumflýjanlegur. Þar er alið á vantrú í garð kennara og vald þeirra til að hrinda í framkvæmd skapandi og metnaðarfullu skólastarfi er verulega takmarkað. Þeir lúta stöðugri tortryggni og ofstjórn. Margir flýja.

Að vera kennari í umbótaplágusamfélagi er ekki það starf sem kennsla ætti að vera. Að vera nemandi í slíkum skóla veitir ekki þau tækifæri til framfara og þroska sem fólk á skilið.

Það er ekki hægt að staðla fólk og við ættum ekki að reyna það. Í slíku skólakerfi verða mörg börn að ferhyrndum kubbum sem reynt er að troða í þríhyrnd op.

Grundvöllur umbótaplágunnar er misskilningur um menntun. Ofan á þennan misskilning leggst þykkt lag af vantrausti og tortryggni.

Ég þekki engan kennara sem ekki hefur einhvern tíma velt því fyrir sér hvers vegna starf kennarans sé kerfisbundið lítilsvirt í samfélaginu. Kennarastéttin sem slík á í öflugu innra samtali um það hvernig hún geti breytt ásýnd sinni og unnið til baka traust almennings. Því miður eru mjög margir kennarar orðnir býsna vonlitlir um að starfsumhverfið og kjörin muni nokkru sinni batna. Ég þekki meira að segja marga kennara sem hafa latt börn sín þess að leggja fyrir sig kennslu.

Úr vörn í sókn
Á síðustu árum hefur meðvitund um skaðsemi umbótaplágunnar vaxið í skólakerfum heims. Ný námskrá á Íslandi er að hluta hugsuð sem móteitur við hinni skaðlegu stefnumörkun. Stöðugt fleiri ríki hafa áttað sig á mikilvægi þess að snúa við taflinu.

Það má enda ekki seinna vera.

Fram undan er verulegur kennaraskortur ef ekki er gripið til aðgerða. Það er fagnaðarefni að menntayfirvöld á Íslandi hafa áttað sig á því og vilja leiða slíkar aðgerðir. Þar er þó meira undir en nýliðun.

Auk þess að efla nýliðun þarf að bæta starfsumhverfi og kjör kennara. Þar að auki þarf að snúa við skaðlegum áhrifum umbótaplágunnar.

Í stað stöðlunar þarf að koma virðing fyrir fjölbreytileikanum.

Í stað hryggskekkju í átt til hefðbundins bóknáms þarf að koma þróttmikið list- og verknám.

Í stað einhæfra kennslu- og námsaðferða þarf að virkja nemendur og kennara til að leiða námið í alls kyns óvæntar áttir.

Í stað þess að laga nemendur og kennara að skipulagi skólanna á að laga skipulag skólanna að fólkinu sem í þeim starfar.

Í stað þess að lúslesa fréttir um árangur eða árangursleysi nemenda á samræmdum prófum eigum við að líta okkur nær og krefjast þess að við sjálf stöndum okkur betur og hlúum að allri menntun í landinu.

Eftirleiðis eigum við síðan að verja menntakerfið okkar betur fyrir plágum sem þessum. Við eigum að hafa alvöru áhuga á menntamálum, virðingu fyrir fólki og raunverulegan metnað til að gera vel.

Við eigum svo að sjá til þess að hér á landi sé nægt framboð kennara með sömu viðhorf. Þá mun raunverulegur árangur ekki láta á sér standa.
 

 

 

 

Tengt efni