is / en / dk

22. Nóvember 2018

Leikskólinn er fyrsta skólastig barnsins samkvæmt lögum og starfar eftir Aðalnámskrá leikskóla. Sem betur fer eru það fáir sem eru fastir í gömlum hugmyndum um að nóg sé að hafa góðar konur til að passa börnin. Þau skilaboð sem kjörnir fulltrúar eru að senda til leikskólasamfélagsins þessa dagana minna þó um margt á þessar úreltu hugmyndir um námsaðstæður barna. Því það virðist alveg gleymast að í leikskólum fer fram nám og kennsla en ekki gæsla. Lögum samkvæmt skal að lágmarki 2/3 hluti starfsmanna vera með leyfisbréf til leikskólakennslu. Staðreyndin í dag er því miður sú að eingöngu 1/3 hluti starfsfólks í leikskólum landsins hefur tilskilin réttindi. Ætla rekstraraðilar að sætta sig við að fara niður fyrir þetta lága hlutfall leikskólakennara?

Reykjavíkurborg hefur tilkynnt áætlun um að byggja nýja leikskóla og fjölga börnum í leikskólum um 700 - 750, yngri börn koma inn í kerfið og allt kallar þetta á fleiri leikskólakennara. Hvernig hefur rekstraraðilum gengið að fá til sín kennara hingað til? Svarið er einfalt, ekkert hefur gengið. Rekstraraðilar verða að gera enn betur í að bæta starfsaðstæður og laun kennara og stjórnenda til að laða að nemendur í kennaranám og koma í veg fyrir að þeir kennarar sem nú eru í skólunum brenni út í starfi.

Kulnun kennara og stjórnanda í leikskólum er alvarlegur vandi nú þegar og ekki leysist hann með því að stækka kerfið og þar með auka á það álag sem fyrir er. 

Ég hvet rekstraraðila til að hugsa málið betur. Skipta atkvæðin virkilega meira máli en starfsaðstæður barna og starfsfólks leikskóla?

Stjórn Félags stjórnenda leikskóla sendi frá sér ályktun 22. nóvember sl. þar sem ítrekuð er sú krafa að sveitarfélögin stefni að því að uppfylla lögin um að 2/3 hluti starfsfólk hafi tilskilin réttindi. Auk þessa ítrekar stjórn FSL að hlúð verði að faglegu starfi leikskóla með því að gæta þess að bjóða ekki upp á þjónustu umfram getu þ.e. gæta að hlutfalli fagmenntaðra, fjölda barna í rýmum, lengd dvalartíma og að aðstæður barna séu í samræmi við aldur og þroska þeirra. 

Tökum höndum saman, lögum þetta og þá fyrst verður hægt að huga að frekari uppbyggingu og fjölgun rýma.

 

 


 

Tengt efni