is / en / dk

30. október 2018

„Jag älskar fäster!“ á Halldór Laxness að hafa sagt við sænska blaðamenn þegar þeir spurðu hann út í fyrirhugaða verðlaunaafhendingu vegna Nóbelsverðlaunanna í desember árið 1955. Hann átti enda von á góðu. Afhending Nóbelsverðlaunanna er hápunktur hvers árs í hinu glæsilega ráðhúsi Stokkhólms. Athöfnin hefst á halarófu, sem leidd er af sænska kónginum, af efri hæð niður í hátíðarsalinn. Gengið er niður tröppur sem sérstaklega eru hannaðar fyrir konur í síðkjólum og á háum hælum. Á vegg andspænis stiganum er grafin stjarna og er hátíðargestum uppálagt að horfa á stjörnuna við niðurgönguna til að tryggja sem glæsilegastan limaburð. Eftir veisluna og afhendinguna er aftur gengið upp stigann og inn í Gullsalinn. Hann er skreyttur mósaíkmyndum úr skíragulli. Þar er dansað fram á rauða nótt. Ég þykist þess fullviss að Halldór hafi verið liðtækur í dansinum.

Mósaíkmyndirnar í Gullsalnum eru sumpart undarlegur samtíningur. Þar má sjá indverskan fíl og Frelsisstyttuna; Eiffel-turninn og stjörnumerki. Yfir aðalinngangi salarins er mynd af Eiríki níunda Svíakonungi og dýrlingi á hestbaki sem er merkileg fyrir þær sakir að vegna reikniskekkju við innréttingu salarins vantar á hann höfuðið (sú bót er í máli að Eiríkur var hálshöggvinn af hermönnum Magnúsar Danaprins svo mistökin þykja sæmilega viðeigandi).

Íslendingar voru auðvitað upp með sér þegar Halldór Laxness landaði Nóbelsverðlaununum. Það skipti unga þjóð verulega miklu máli að fá þessa viðurkenningu alþjóðasamfélagsins. Jafnvel harðvítugir óvinir Halldórs fóru að taka hann í sátt eftir að hann tjúttaði við sænsku hirðina og fyrirmennin undir hinum undarlega samtíningi gullmynda í ráðhúsinu við höfnina í Stokkhólmi.

Kannski var það vegna þessarar menningarlegu upphefðar sem hinn íslenski menningaraðall reis upp á afturlappirnar af móðgun við það að bandarískir hermenn fóru að varpa sjónvarpsbylgjum yfir girðinguna umhverfis Miðnesheiði sama ár og Halldór fékk verðlaunin.

Það er þeim mun áhugaverðara að skoða hin harðvítugu menningarlegu átök sem urðu vegna útsendinganna vegna þess að í dag er nánast allt sjónvarp á Íslandi Kanasjónvarp.

Það er óefað að stór hluti hinnar menningarlegu yfirstéttar á Íslandi taldi Kanasjónvarpið stórkostlega ógn við menningu og andlegt heilbrigði þjóðarinnar. Menntafólk, skáld og fyrirmenni á öllum aldri létu ekkert tækifæri ónotað til að fordæma hin slævandi áhrif sem amerískt sjónvarp hefði á hina merku menningarþjóð Íslendinga. Það er erfitt að taka við Bonanza þegar maður heldur á Nóbelnum. Einn rithöfundur líkti áhrifunum við að bandarískir hermenn hefðu hernumið íslenska skóla til að troða enskunni ofan í börn.

Slagurinn við Kanasjónvarpið stóð í tvo áratugi. Honum lauk með „sigri“ andstæðinganna þegar hernum var gert að grafa útsendingarnar í jörð. Fram að því höfðu reglulega unnist varnarsigrar þar sem útsendingin var deyfð í áföngum – með þeim afleiðingum að margir Íslendingar urðu sérfræðingar í sjónvarpsmögnurum.

Eftir á að hyggja var menningaruslinn kringum Kanasjónvarpið bæði pínlegur og kjánalegur. Það var aldrei raunhæft að stöðva straum dægurmenningar til Íslendinga. Það var heldur ekki æskilegt. Kynslóðin sem ólst upp við áhrif Kanasjónvarpsins hefur ekki síður auðgað íslenska menningu en áar þeirra. Það sem meira er: síðari hluti starfsævi margra listamanna sem urðu fyrir hvað mestum áhrifum hefur snúist um að hampa hefðbundna „þjóðararfinum“ í bókmenntum, tónlist og öðrum listum.

Hluti af látunum byggði á skammsýni, tvískinnungi og snobbi. Halldór Laxness skrifaði vissulega Gerplu og Sjálfstætt fólk. Fáir hafa samt verið duglegri en hann við að blanda erlendum áhrifum við íslenska menningu. Hann var heimsborgari í dýpstu merkingu þess orðs. Þegar hann sagðist elska veislur átti hann ekki við þorrablót. Halldór bjó og lifði eins og Mosfellsdalur væri úthverfi í alþjóðlegri stórborg.

Örar samfélagsbreytingar kalla alltaf á sterk varnarviðbrögð. Það er erfitt þegar það sem á að sameina okkur er að breytast. Það er samt óumflýjanlegt.

Ísland hefur breyst og er að breytast. Við þurfum að standa gegn þeirri freistingu að draga þar með þá ályktun að allt sé að fara til fjandans. Við þurfum enn fremur að vera raunsæ og tileinka okkur það viðhorf að tækifærin séu til að grípa þau. Bítlahljómsveitir eyðilögðu ekki rímnakveðskap og það er ekki körfubolta að kenna að glíma er ekki vinsælli íþrótt.

Ég hef áður viðrað áhyggjur af vaxandi tilhneigingu stjórnmálamanna til að skipta sér af skólastarfi í landinu í smáatriðum. Alveg eins og það hvarflar ekki að mér að halda því fram að nota eigi snjallsíma í skólastarfi sem ekki er undir það búið og gerir það ekki með markvissum hætti þá finnst mér fráleitt að stjórnmálamenn taki ákvarðanir um símabann á hæpnum forsendum. Notkun kennslugagna og staðblær skóla á að vera á ábyrgð fagfólks skólanna, ekki stjórnmálamanna.

Eins hef ég hitt sveitarstjórnarfólk sem telur sig hafa mikilvægt hlutverk við að gefa ekki eftir gagnvart fjölmenningu. Það skuli sjá til þess að skólarnir fari í kirkju um jól og að svínakjöt sé á boðstólum í mötuneytinu. Þetta er fráleitt viðhorf. Skólarnir mega ekki vera þjónar pólitískra viðhorfa stjórnmálamanna. Þótt skólastarf sé vissulega rammpólitískt má það ekki verða flokkpólitískt.

Loks hafa stjórnmálamenn þá tilhneigingu að stýra því hvað er kennt og með hvaða hætti. Það getur verið allt frá því að bjóða nemendum í bíó til þess að reyna að stjórna því hvaða námsgreinar eru skyldugreinar. Slíkt er varasamt. Stefnumörkun skólastarfs á sér stað gegnum námskrár. Þar hafa stjórnmálamenn tækifæri til að hafa áhrif. Þeir eiga að hafa vit á því að láta það duga.

Ég sæi það fyrir mér að stjórnmálamenn færu um ganga sjúkrahúsa hlaupandi með sykurhúðaðar hómópataremedíur, hóstasaft eða spelkur til að færa sjúklingum. Slíku fólki væri réttilega varpað á dyr. Það þýðir ekki að stjórnmálamenn eigi ekki erindi í umræður um heilbrigðismál eða í stefnumörkun vegna þeirra.

Í Færeyjum gerðist það nýlega að kennari lenti í kröppum dansi. Honum hafði „orðið það á“ að fara með hóp barna á sýningu í Norræna húsinu um mannréttindi. Þegar foreldrarnir fréttu það var nokkuð uppþot. Ástæðan var sú að á sýningunni var sérstaklega fjallað um mannréttindabaráttu hinsegin fólks. Það var meira en margar viðkvæmar taugar þoldu. Mótmælum rigndi yfir skólann. Vantrausti var lýst á kennarann. Samt var hann í fullkomnum rétti.

Þegar mín kynslóð gekk í skóla var námsefnið marínerað í áhrifum alþjóðlegrar poppmenningar. Við hlustuðum á Pink Floyd og Elton John í enskutímum og Kim Larsen í dönsku. Í hverjum skóla voru níðþung túpusjónvörp á hjólaborðum og myndbandstæki sem spiluðu Gúmmí-Tarzan og aðrar ræmur þar til þær voru nánast spilaðar upp til agna. Í frímínútum spiluðum við borðtennis og ballskák, versluðum í skólasjoppunni og hlustuðum á Nirvana og Guns N Roses.

Allt þetta gerði okkur gott. Í skólanum lærðum við nefnilega að við ættum helling í veröldinni og að það væri vilji hinna fullorðnu að svo væri áfram. Við lærðum að fullorðnir bæru virðingu fyrir okkar menningarheimi og við bárum virðingu fyrir hinum fullorðnu upp að því marki sem hægt er þegar tekið er tillit til þess hve fullorðið fólk er púkó.

Mér verður stundum hugsað til þessa þegar maður les fréttir af ástandi í skólum nú sem nánast líkist kynslóðastríði. Þar sem talað er um ungt fólk sem uppvakninga eða þræla innihaldslausrar tækni og innantómra samskipta. Þar sem ungt fólk er nánast gert eitt ábyrgð fyrir því sem ýmsir sjá sem hnignun íslenskrar tungu og menningar.

Ég held að margt ungt fólk á Íslandi búi við tilvistarkreppu. Það upplifi sig ekki nógu velkomið út í samfélagið. Það upplifi fordóma og jafnvel útskúfun. Atvinnumarkaðurinn og húsnæðismarkaðurinn hefur aldrei verið jafn lokaður fyrir ungu fólki og nú. Við þurfum að gæta þess að halda skólakerfinu opnu. Það er okkar verkefni að færa hverri kynslóð sinn skerf af veröldinni. Það fer betur á því að það sé gert sæmileg fordómalaust.

Ég held við megum mörg bera meiri virðingu fyrir heimi ungs fólks, samskiptamátum og tjáningarmiðlum. Við þurfum að uppfæra okkar eigin heimsmynd og láta af þrjóskulegri andstöðu við framþróun sem er og verður óumflýjanleg.

Við eigum líka að átta okkur á því að allir hinir háu tónar í tónverki íslenskrar menningar hljóma best þegar þeir eru studdir af bakröddum alþjóðlegrar menningar. Halldór Laxness var heimsborgari. Kanasjónvarpið var hluti af sama heimi. Íslenskt samfélag er í dag undir miklu meiri áhrifum af Kanasjónvarpinu en Laxness. Sem er kannski vegna þess að sá síðarnefndi hefur orðið að afhausaðri helgimynd í gullsal íslenskrar menningar á meðan hið fyrrnefnda hefur fengið að halda áfram að gróa.
 

Tengt efni