is / en / dk

26. október 2018

Daginn sem vefsíðan Tekjur.is opnaði skráði ég mig inn sem notanda. Á síðunni fást nefnilega upplýsingar um uppgefin laun og fjármagnstekjur allra launþega á Íslandi. Fágætur fróðleikur sem mögulega verður okkur almenningi bara sýnilegur í stuttan tíma. Mér finnst hins vegar að þessar upplýsingar eigi að vera öllum aðgengilegar alltaf og þær eigi fullt erindi til okkar allra. Það er nefnilega alveg sjálfsagt mál að við getum séð svart á hvítu hvað hver og einn borgar í sameiginlega sjóði okkar landsmanna og hlut hvers og eins í samneyslunni. Út frá jafnlaunasjónarmiðum og umræðum um tekjuskiptingu í samfélaginu eru upplýsingar sem þessar mikilvægur grunnur og ekki síður mikilvægt aðhald.

Ég fletti upp hinum og þessum, vinum, kunningjum, ættingjum, þekktu athafnafólki, listafólki, opinberum starfsmönnum og háskólafólki. Og lái mér það bara hver sem vill, ég er formaður í stéttarfélagi og hef skyldur sem slík. Upplýsingar og gögn skipta mig máli þegar ég dreg til mín aðföng fyrir komandi kjarabaráttu. Það er líka hollt og gott að skoða laun út frá persónum og leikendum en ekki meðaltölum eins og við, sem vinnum með launagögn, gerum allt of oft.

Eftir þennan lestur liggur mér ýmislegt á hjarta og margt brennur á mér. Það er sérstök umræða að sjá tekjuskiptinguna í samfélaginu, það er eitt að vera með góð laun en annað að vera með ofurlaun. En það sem angrar mig mest akkúrat núna er allur sá fjöldi Íslendinga sem virðist lifa á loftinu og hreinlega ljóstillífa miðað við uppgefnar tekjur. Þekkt fjölmiðlastjarna úr snappheimum er með uppgefnar 16 þús/mánuði. Sjálfstætt starfandi listafólk með 150 þús/mánuði. Fjármagnseigendur og stóreignafólk með uppgefin mánaðarlaun 50 þúsund/mánuði. Kvótaeigendur með uppgefnar 150 þús/mánuði og svo mætti lengi telja. Þetta fólk borgar ekki krónu í útsvar til sveitarfélaganna en nýtir að fullu þá þjónustu sem þar er veitt. Þetta fólk fær stuðning og aðstoð samfélagsins ef upp koma veikindi í kerfi sem venjulega fólkið ber á baki sér. Þetta fólk ekur um þjóðvegi landsins sem aðrir sjá um að fjármagna. Þetta fólk leggur lítið sem ekkert til, en eru aflögufærara en flestir.

Það er greinilegt, eftir vandlega skoðun á Tekjum.is, að það leggjast ekki allir á árar þjóðarskútunnar. Það gera bara sumir. Það eru margir launþegar þessa lands sem geta borið höfuðið hátt eftir að hafa flakkað um Tekjur.is – þeir geta verið stoltir af því að bera uppi íslenskt velferðarsamfélag. Það er meira en margur börbörríklæddur jeppaeigandinn getur sagt, sem kannski lætur sig hafa það að fara að borga eitthvað smáræði í skatt ef undanskotin verða öllum sýnileg.   

 

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.

Greinin birtist á vef Fréttablaðsins 26. október 2018

 

 

   

Tengt efni